Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
9.2.2010 | 16:54
Hringekja Haga
Fyrir rúmum áratug var Baugur skráður á Verðbréfaþing Íslands með fulltingi fjármálastofnana. Skráningin markaði ákveðna sögu því þar með var fyrsta verslunarfyrirtækið skrásett á markað. Umsvif Baugs lágu þá fyrst og fremst innanlands rétt eins og Haga sem var "spin-off" íslenska hlutans út úr Baugi Group árið 2003, um það leyti þegar síðarnefnda félagið var tekið af markaði. Sú forvitnilega saga hefur m.a. verið sögð á þessari bloggsíðu.
Nú ætla menn að endurtaka leikinn en í þetta sinn er það Arion Banki, arftaki Kaupþings, sem ræður för. Hér ætla ég að taka undir orð Ólafs Arnarsonar Pressupenna að bankinn skuli setja í gang opið og gegnsætt söluferli og sama hvað mönnum finnst um þá Bónusfeðga þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að verðmæti hljóta að liggja í þekkingu og samböndum stjórnenda eins og gildir um öll önnur fyrirtæki. Það er mikilvægt fyrir neytendur að fyrirtæki eins og Hagar, sem hafa markaðsráðandi stöðu á matvöru- og sérvörumarkaði, skuli vera undir eftirliti neytenda og almennra fjárfesta því það eykur margumtalað gegnsæi í samfélaginu. Hagar hafa hins vegar ekki sent frá sér uppgjör í rúma 20 mánuði. Við vitum því ekkert hvernig rekstur félagsins stendur en Ólafur heldur því fram að reksturinn gangi vel.
Þetta kann að vera agalega rómantísk hugmynd þegar haft er í huga að á síðasta ári lækkaði löggjafinn yfirtökuskyldu skráðra fyrirtækja á skipulögðum verðbréfamarkaði úr 40% atkvæðamagns niður í 30%. Það gefur því auga leið að stjórnendur Haga, sem eiga 2% í Högum, Jóhannes í Bónus og Jón Ásgeir þyrftu því aðeins að bæta við sig 13% atkvæða til þess að tilboðsskylda stofnaðist - miðað við það að þeir skrái sig fyrir fullum hlut í útboðinu. Þeim ætti ekki að verða skotaskuld úr því að kaupa meira magn á eftirmarkaði hafi þeir áhuga að komast yfir Haga og taka hann af markaði líkt og raunin varð með Baug árið 2003. Af hverju ættu Bónusfegðar ekki að vilja taka Baug Íslands aftur yfir?
Hagar vafalítið skoðaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2010 | 15:40
Litlar aðgerðir hjálpa fyrirtækjum
Fyrir ári síðan samþykkti Alþingi frumvarp fjármálaráðherra um tímabundna vaxtalausa greiðsludreifingu aðflutningsgjalda og vörugjalda. Um áramótin rann þessi greiðsludreifing út sem fól í sér að greiðslum var dreift á þrjá gjalddaga. Frá og með 15. mars verður sem sagt einn gjalddagi aðflutningsgjalda eins og var fyrir hrunið.
Það er varla hægt að segja að hagur atvinnulífsins hafi vænkast á síðustu mánuðum. Kostnaður vegna launatengdra gjalda hefur hækkað gríðarlega á síðustu mánuðum og gengi krónunnar mun varla styrkjast í komandi framtíð. Bankarnir eru varla byrjaðir að taka á vanda skuldsettra fyrirtækja. Í könnun Capacent Gallup, sem greint var frá í janúar, kom fram að 92% stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins töldu að aðstæður í hagkerfinu væru slæmar og 43% álitu að aðstæður myndu fara versnandi á næstu mánuðum.
Sá dráttur sem hefur orðið á endurreisn fjármálakerfisins, verulegur samdráttur í einkaneyslu og haftabúskapur, sem verður viðvarandi næstu árin, hafa dregið verulegan þrótt úr fyrirtækjum landsins. Litlar aðgerðir af hálfu hins opinbera geta hins vegar hjálpað fyrirtækjum mikið til eins og greiðsludreifing aðflutnings- og vörugjalda hefur sýnt. Með því að framlengja greiðslum áfram er hægt að láta hjól efnahagslífsins ganga áfram á meðan beðið er eftir að við finnum hinn svokallaða botn sem augljóslega hefur ekki verið náð.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2010 | 15:26
Össur og Össur hagnast
Á sama tíma og Viðskiptablaðið greinir frá söluhagnaði Össurar Skarphéðinssonar af sölu stofnfjárhluta í SPRON sumarið 2007 skilar stoðtækjaframleiðandinn Össur frá sér ágætu uppgjöri. Fyrirtækið, sem er í algjörum sérflokki íslenskra útrásar- og vaxtarfyrirtækja, virðist vera í góðum stöðu þrátt fyrir þrengingar í efnahagslífi heimsins og er áhugavert að sjá mikinn vöxt í sjóðstreymi á milli ára.
Stjórnendur Össurar hafa bent á að sökum erfiðleika íslenska fjármálakerfisins hafi fyrirtækið orðið að vera sinn eigin banki. Félagið átti þannig 80 milljónir dala, nærri 10 milljarða króna, í sjóði um áramótin. Skuldsetning félagsins er lítil á íslenskan mælikvarða; nettóvaxtaberandi skuldir eru aðeins 2,4 sinnum meiri en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA).
Skráning Össurar á danska hlutabréfamarkaðinn hefur tekist vel eins og gengisþróun undanfarinna mánaða ber með sér. Hins vegar sitja stjórnendur félagsins eftir með sárt ennið en þeir urðu að selja bréf sín á tombóluverði snemma á síðasta ári. Sannarlega grátleg niðurstaða.
Bréf Össurar hækka um nærri 10% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2010 | 16:03
Allt á floti alls staðar
Fyrir skömmu hélt hinn fallni sparisjóður SPRON lagersölu. Þar voru ekki einvörðungu lausafjármunir í boði því viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini sparisjóðsins lágu þar einnig á glámbekk. Undanfarna mánuði hafa fjölmiðlar birt mikið af trúnaðarupplýsingum sem skýra misjafnar athafnir manna fyrir og eftir bankahrun. Það er á margan hátt sérkennilegt að í samfélaginu skuli menn ekki hafa meiri áhyggjur af því að alls kyns trúnaðarupplýsingar virðast mígleka út úr fjármálakerfinu til fjölmiðla og ofl. á sama tíma og eitt meginvandamál fjármálakerfisins er skortur á trausti.
Í lögum um fjármálafyrirtæki segir um þagnarskyldu: Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
Svo virðist sem að FME og ríkissaksóknari túlki seinni lið þagnarskyldunnar með ólíkum hætti. FME, sem hefur það meginverkefni að viðhalda fjármálastöðugleika í landinu, álítur að þagnarskyldan fylgi upplýsingunum. Ríkissaksóknari virðist aftur á móti túlka ákvæðið á þann hátt að þegar búið er að rjúfa þagnarskylduna sé ekki hægt að gera það aftur. Það hefði í för með sér að þegar einhver innan fjármálafyrirtækis afhenti þagnarskyldar upplýsingar til einhvers utan þess gæti sá síðarnefndi afhent upplýsingarnar hverjum sem er óháð almannahagsmunum. Eins og margir muna féll ríkissaksóknari frá ákærum á hendur fimm blaðamönnum á síðasta ári og byggði m.a. þá niðurstöðu á grundvelli þessarar túlkunar.
Þegar undirritaður starfaði á fjölmiðlum á hinum svokölluðu uppgangstímum heyrði því miður til undantekninga að bankaupplýsingar, sem áttu fullt erindi við almenning, láku út á við. Í dag er þessu þveröfugt farið allt streymir út eins og lagersala SPRON ber kannski glöggt vitni um. Þá er stutt í að upplýsingar sem snerta ekki almannahagsmuni verði á allra vitorði. Hver getur treyst því að eiga viðskipti við íslensk fjármálafyrirtæki þegar ákvæði um þagnarskyldu eru virt að vettugi?
Brotin ekki framin hjá Straumi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2010 | 10:44
Hinir stóru og hinir smáu
Frá og með næstu áramótum hyggjast skattayfirvöld skattleggja arðgreiðslur og söluhagnað hlutabréfa hjá þeim félögum sem eiga minna en 10% í öðru félagi að fullu. Þarna er komin vísir að því að skattleggja arðgreiðslur á milli fyrirtækja sem ýmsir hafa talað fyrir, þar á meðal félagi minn Jón Steinsson. Þessar breytingar munu vafalaust hafa töluverð áhrif á viðskiptalífið.
Það vekur athygli mína hvernig skattayfirvöld ætla að mismuna fyrirtækjum eftir því hvernig eignarhaldi í öðrum fyrirtækjum er háttað. Þannig verða arðgreiðslur í félögum þar sem eignarhlutur er undir 10% ekki undanþegnar skatti og söluhagnaður verður ekki skattfrjáls af félögum þar sem eignarhald er undir 10%. Fyrirtæki, sem eiga 10% eða meira í öðrum fyrirtæki, sleppa hins vegar við skattlagninguna. Þannig hefði Oddaflug Hannesar Smárasonar sloppið við að greiða skatt af arðgreiðslum í FL Group en smærri hluthafar, t.d. Materia Invest ehf., orðið að greiða keisaranum það sem keisarans er. Ég velti því fyrir mér hvernig koma þessar hugmyndir heim og saman við endurreisn hlutabréfamarkaðar, sem er vonandi í bígerð, þar sem megináherslan hlýtur að vera lögð á dreift eignarhald.
Fyrir næstu áramót hljóta því margir eigendur fyrirtækja að íhuga gaumgæfilega stöðu fjárfestinga sinna í öðrum fyrirtækjum.
2642 ný hlutafélög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2010 | 22:52
Hvar var eftirlitið?
Eftir að Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi að hafa greitt sér út ólögmætan arð út úr Nesveri hlýtur maður að spyrja um þátt eftirlitskerfisins. Hvorki endurskoðandi fyrirtækisins, ríkisskattstjóri eða Ársreikningaskrá virðast hafa gert athugasemdir vegna þessarar arðgreiðslu. Þetta mál hlýtur að vera áfellisdómur yfir skrifræðiskerfinu.
Segjum svo að eigendur Nesvers hafi einhverra hluta vegna ekki áttað sig á ólögmæti þess að greiða arð út úr félagi sem hefði ekki safnað upp varasjóðum þá er vert að spyrja hvers vegna komu engar athugasemdir frá starfsmönnum skattayfirvalda sem hafa það að verkefni að þaulskoða rekstur og bókhaldsgögn fyrirtækja í landinu.
Getur verið að fleiri fyrirtæki en Nesver hafi verið misnotuð með sams konar hætti af eigendum sínum á sama tíma og eftirlitsaðilar sváfu á verðinum?
Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2010 | 11:36
Dýrkeypt reynsla
Krafa Deutsche Bank í þrotabú Kaupþings er gríðarleg þegar hún er sett í samhengi við aðrar stærðir, svo ekki sé talað um landsframleiðsluna. Þegar Kaupþing hafði hlaðið byssurnar með sameiningu við Búnaðarbankann árið 2003 var orðinn til risabanki á íslenskan mælikvarða. Fyrir aðeins sex árum, í árslok 2003 um það leyti er stórsókn bankanna hófst, nam efnahagsreikningur KB banka 560 milljörðum króna, eða ríflega 60% af þeirri kröfu sem Deutsche Bank fer fram á.
Þýskir bankar ganga blóðungir af velli eftir viðureign sína við íslenska fjármálakerfið sem þó hrundi. Gríðarlegir fjármunir soguðust frá Þýskalandi til íslensku bankanna en nú verður væntanlega mjög löng bið þar til að þýskir bankamenn hefja lánveitingar til Íslands á nýjan leik. Þetta verður sú harða lexía sem við fáum.
Deutsche stærsti kröfuhafinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2010 | 22:14
Byr og MP Banki
Á fjölmennum fundi stofnfjáreigenda í BYR sparisjóði í síðustu viku reifaði ég þá hugmynd að BYR seldi 13% hlut sinn í MP Banka í opnu tilboðsferli og/eða til núverandi stofnfjáreigenda og velti því fyrir mér hvort slík viðskipti gætu þjónað hagsmunum sparisjóðsins og stofnfjáreigenda. Þar sagði ég m.a.:
"Á haustdögum stóð til að norskur fjárfestir myndi leggja MP Banka til 1,4 milljarða króna í nýju hlutafé og verða annar stærsti hluthafi bankans. Kaupin gengu hins vegar til baka og kom fram í frétt Viðskiptablaðsins að aðrir hluthafar í MP Banka óttuðust að ef Norðmaðurinn yrði of stór hluthafi gæti hann hugsanlega komist yfir bankann með því að eignast hlut BYRS. Þótt hlutur sparisjóðsins sé ekki ráðandi má ætla að hann sé það verðmætur að full ástæða er til þess að skora á stjórn sparisjóðsins að kanna sölu bréfanna í opnu tilboðsferli eða til núverandi stofnfjáreigenda, sem margir hverjir hefðu eflaust áhuga á að eignast hlut í MP."
Hægt væri að slá þrjár flugur í einu höggi með sölu sem þessari:
1) Byr gæti fengið gott verð fyrir bréfin sín og styrkt eiginfjárgrunn sinn
2) Slitið yrði á forn en umdeild tengsl BYRS og MP Banka
3) Markmið stjórnenda MP Banka um dreift eignarhald næðust
19.1.2010 | 17:14
Misstum af veislunni
Á sama tíma og áhættusækni á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur ekki verið meiri í langan tíma hefur áhættufælni sennilega aldrei verið meiri hérlendis eftir að forsetinn synjaði ICESAVE-lögum staðfestingar. Hér er enginn hlutabréfamarkaður fyrir utan eitt fyrirtæki - Össur (og kannski Marel). Og fjárfestar hafa verið að herja verulega á verðtryggða pappíra upp á síðkastið og peningafjallið í bönkunum er sagt hækka og hækka á lúsarvöxtum. Vegna gjaldeyrishafta hafa Íslendingar ekki getað notið hækkana á erlendum hlutabréfamörkuðum nema að takmörkuðu leyti.
Forstjóri Kauphallarinnar hefur sagt að árið 2010 skipti sköpum varðandi endurreisn hlutabréfamarkaðarins með skráningu allt að fimmtán nýrra fyrirtækja. Sannast sagna þá er erfitt að sjá það gerast miðað við þá stöðu sem við erum í dag og þau höft sem ríkja á íslenskum fjármálamarkaði. Auðvitað er það sorgleg staða að fjárfestar skuli hvorki hafa möguleika til kaupa innlend eða erlend hlutabréf á tímum sem þessum.
Mikil áhættusækni á mörkuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2010 | 17:08
Vestia færir út kvíarnar
Eftir að Vestia, eignarhaldsfélag Landsbankans, tók yfir Húsasmiðjuna fyrir nokkrum vikum hefur Húsasmiðjan verið í markaðssókn. Það vakti t.d. athygli þegar fyrirtækið auglýsti "tax-free" dag mánuði fyrir jól en mig grunar að forsvarsmönnum BYKO hafi fallið allur ketill í eld þegar á sjálfri messu Þorláks, stærsta verslunardag ársins, var boðið upp á annan "tax-free" dag í Húsasmiðjunni.
Hér er ekki verið halda því fram að eigendur þessarar einnar stærstu verslanakeðju landsins eigi ekki að verja þau verðmæti sem þeir hafa í höndunum; einungis verið að benda á að með aðkomu Vestia var nýtt hlutafé lagt inn í reksturinn, stórsókn hafinn á markaði með verðlækkunum sem hlýtur að hafa bitnað á keppinautunum en tryggði nægt lausafé.
Vestia hefur ekki aðeins leyst Húsasmiðjuna til sín. Plastprent, annað rótgróið fyrirtæki, er nú að stærstum hluta komið í hendur Vestia en það var áður í eigu Pálma í Fons.
Forstjóraskipti í Húsasmiðju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)