Allt á floti alls staðar

Fyrir skömmu hélt hinn fallni sparisjóður SPRON lagersölu. Þar voru ekki einvörðungu lausafjármunir í boði því viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini sparisjóðsins lágu þar einnig á glámbekk. Undanfarna mánuði hafa fjölmiðlar birt mikið af trúnaðarupplýsingum sem skýra misjafnar athafnir manna fyrir og eftir bankahrun. Það er á margan hátt sérkennilegt að í samfélaginu skuli menn ekki hafa meiri áhyggjur af því að alls kyns trúnaðarupplýsingar virðast mígleka út úr fjármálakerfinu til fjölmiðla og ofl. á sama tíma og eitt meginvandamál fjármálakerfisins er skortur á trausti.

Í lögum um fjármálafyrirtæki segir um þagnarskyldu: „Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.“

Svo virðist sem að FME og ríkissaksóknari túlki seinni lið þagnarskyldunnar með ólíkum hætti. FME, sem hefur það meginverkefni að viðhalda fjármálastöðugleika í landinu, álítur að þagnarskyldan fylgi upplýsingunum. Ríkissaksóknari virðist aftur á móti túlka ákvæðið á þann hátt að þegar búið er að rjúfa þagnarskylduna sé ekki hægt að gera það aftur. Það hefði í för með sér að þegar einhver innan fjármálafyrirtækis afhenti þagnarskyldar upplýsingar til einhvers utan þess gæti sá síðarnefndi afhent upplýsingarnar hverjum sem er óháð almannahagsmunum. Eins og margir muna féll ríkissaksóknari frá ákærum á hendur fimm blaðamönnum á síðasta ári og byggði m.a. þá niðurstöðu á grundvelli þessarar túlkunar.

Þegar undirritaður starfaði á fjölmiðlum á hinum svokölluðu uppgangstímum heyrði því miður til undantekninga að bankaupplýsingar, sem áttu fullt erindi við almenning, láku út á við. Í dag er þessu þveröfugt farið – allt streymir út eins og lagersala SPRON ber kannski glöggt vitni um. Þá er stutt í að upplýsingar sem snerta ekki almannahagsmuni verði á allra vitorði. Hver getur treyst því að eiga viðskipti við íslensk fjármálafyrirtæki þegar ákvæði um þagnarskyldu eru virt að vettugi?


mbl.is Brotin ekki framin hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband