II. Frændur eru frændum bestir

Eitt af meginvandamálum íslenska hlutabréfamarkaðarins (á meðan hann var og hét) lá í litlum áhuga erlendra fjárfesta á því að festa fé sitt í íslenskum hlutabréfum. Og þeir sem þó höfðu fjárfest á íslenska markaðnum var mjög umhugað um að gera vel við íslenska viðskiptafélaga sína. Um svipað leyti og risafyrirtækið Shell Petroleum seldi kolkrabbanum fimmtungshlut í Skeljungi á undirverði seldi norska verslanakeðjan Reitan Handel Bónusfeðgum hlut sinn í Baugi einnig með töluverðum afslætti og tryggði þannig að yfirtaka á Baugi gengi snuðrulaust fyrir sig. Það voru því ekki bara gamlar valdablokkir sem fengu milljónir að gjöf frá erlendum fjárfestum í einkennilegum viðskiptagerningum.

Með samruna Bónus, Hagkaupa og fleiri verslanakeðja árið 1998 var stefnan sett á að skrá mömmuna Baug í Kauphöllina og gera það að almenningshlutafélagi. En stórir fjárfestar voru Þrándur í Götu eigenda Baugs. Áhugi íslenskra stofnanafjárfesta, t.d. lífeyrissjóða, reyndist vera lítill sem enginn fyrir því að kaupa hlutabréf í verslunarkeðjunni, þar sem þeir höfðu ekki trú á „leðurjakkatöffaranum“ Jóni Ásgeiri.  Höfðu forsvarsmenn FBA og Kaupþings af þessu töluverðar áhyggjur, skiljanlega þar sem þeir sátu uppi með haug af bréfum í Baugi.

Bjargvætturinn var þó innan seilingar. Odd Reitan í Reitangruppen heitir norskur maður sem er einn áhrifamesti maðurinn í smásöluverslun í Noregi og er í þokkabót vinur Jóhannesar í Bónus. Fyrir milligöngu Jóhannesar keypti Reitangruppen tæplega 20% hlut í Baugi í október árið 1998 af FBA og Kaupþingi. Segja má að Reitan hafi komið inn eins og hvíti riddarinn í hlutverki stofnanafjárfestisins sem FBA og Kaupþing sárlega vantaði. Ármann Þorvaldsson, fyrrum forstjóri Kaupthing S&F, lýsir aðkomu Reitangruppen í bók sinni, Ævintýraeyjunni.

Baugur staldraði fremur stutt við í Kauphöllinni. Í sumarbyrjun 2003 lögðu Fjárfestingafélagið Gaumur, eignarhaldsfélag Bónusfjölskyldunnar, Kaupþing auk fleiri fjárfesta fram sameiginlegt yfirtökutilboð í Baug undir merkjum Mundar. Um svipað leyti hafði Gaumur keypt 12% hlut í Baugi af Reitan Handel fyrir 2,7 milljarða króna og fékk 13% afslátt frá yfirtökuverði. Gaumur hagnaðist þannig um 400 milljónir króna á því að kaupa hlut Norðmannanna á genginu 9,4 krónur á hlut og leggja hann svo inn í Mund á genginu 10,85.

Enn er þeirri spurningu ósvarað hvort Reitangruppen hafi verið svo framsýnt að sjá fyrir hrun íslenska markaðarins og gjaldþrot Baugs eða einfaldlega hvort félagið hafi verið leppur í því að tryggja hagsmuni annarra eigenda Baugs í skráningarferli og afskráningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband