Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Verðbólgan bítur í skotið á öllum

Forystumenn Alþýðusambandsins verða að átta sig á því að verðbólgan bítur líka í fyrirtækin í landinu í formi aukins fjármagnskostnaðar og hærri rekstrarkostnaðar. Húsaleiga í stærstu og bestu verslunarrýmum landsins er undantekningarlaust bundinn verðlagsþróun og því hækkar þessi einn stærsti kostnaðarliður fyrirtækja í verslun í samræmi við verðbólguna. Eflaust ætti Alþýðusambandið að beina spjótum sínum að þeim aðilum sem eiga stærstu verslunarrými landsins, t.d. Landsbankanum, Arion og kröfuhöfum í Reitum. Ætli menn fái ekki þarsama svar; að verðbólgan bíti í leigusalana.

Hitt er svo annað mál að ofgnótt verslunarrýmis á höfuðborgarsvæðinu kallar á mikla óhagkvæmni í íslenskri verslun sem leiðir svo til hærra vöruverðs.


mbl.is „Gagnrýnisvert hvernig fyrirtækin hegða sér"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt þá er þrennt er

Forsvarsmenn Kauphallar og Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stjórnendur Bakkavarar, hafa áður eldað grátt silfur. Fyrr á árinu sektaði Kauphöllin Bakkavör um þrjár milljónir króna eftir að frumvarp til nauðarsamninga lak frá einhverjum sem hafði gögnin undir höndum til fjölmiðla. Taldi Kauphöllin að félagið hefði gerst brotlegt við útgefendareglur með því að birta ekki verðmyndandi upplýsingar án tafar á jafnræðisgrundvelli.

Exista, sem jafnframt er að stærstum hluta í eigu Bakkabræðra, var áminnt opinberlega á síðasta ári þegar fram kom að félagið hefði veitt svokallað seljendalán þegar tæplega 40% hlutur Existu í Bakkavör var seldur án þess að greina frá því opinberlega. Í stað þess að fjármunir rynnu inn í Existu lánaði seljandi fyrir kaupunum með veði í hinum seldu bréfum.


mbl.is Kauphöllin gagnrýnir fyrir hugaða breytingu hjá Bakkavör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskrifar sögubækurnar

LeBron James hefur átt stórkostlegt tímabil og kemur fátt í veg fyrir að hann verði útnefndur leikmaður keppnistímabilsins (MVP). Gaurinn er með 30 stig í leik, rúm 7 fráköst og nærri 9 stoðsendingar og Cavaliers stefnir hraðbyri að fyrsta meistaratitli félagsins.

James er ekki nema rétt rúmlega 25 ára gamall og ætti þar af leiðandi eftir að eiga sín bestu ár, jafnvel 7-8 frábær keppnistímabil. Haldi hann sama dampi og forðist alvarleg meiðsl ætti NBA-stigamet Kareems Abdul-Jabbar að falla árið 2020. Jabbar var 28 ára þegar hann fór yfir fimmtán þúsund stiga múrinn en var um 42 ára þegar hann setti síðasta sveifluskotið niður.

En met eru til lítils án titla. Pressan verður mikil á James og félögum í vor.


mbl.is LeBron James bætti met Kobe Bryant
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Jóhanna nú?

Eins og frægt er skapaðist mikil umræða um arðgreiðslustefnu HB Granda í fyrra. Þrátt fyrir að félagið hefði lækkað arðgreiðslur á milli ára vakti sú ákvörðun stjórnenda félagsins að greiða út arð en standa ekki við samningsbundnar launahækkanir töluverðan úlfaþyt, einkum í stjórnarráðinu. Það er mikið áhyggjuefni út í hvaða farveg umræður um arðgreiðslur fyrirtækja er kominn. Arður er orðið bannorð á Íslandi, nánast glæpur gagnvart fyrirtækinu sjálfu og samfélaginu. Það gleymist að eigendur fyrirtækja setja auðvitað ávöxtunarkröfu á sitt fé.

Nú ætlar HB Grandi að greiða út 12% sem út af fyrir sig er fagnaðarefni að íslenskt fyrirtæki skuli hafa bolmagn til þess. Tólf prósenta arður er hins vegar varla ásættanleg ávöxtun fyrir hluthafa þegar aðrir áhættuminni fjárfestingarkostir eru í  boði, t.d. ríkistryggð innlán og skuldabréf. Kappsmál stjórnenda HB Granda virðist augljóslega vera það að greiða niður langtímaskuldir og gera endurgreiðslubyrði félagsins skaplega. Skammtímaskuldir HB Granda sem koma til greiðslu á árinu eru gríðarlegar háar, nærri tvöfalt hærri en handbært fé, en fram kemur í ársreikningi að vilyrði hafi fengist hjá tveimur bankastofnunum að lengja í lánum. Til lengri tíma munu hluthafar vonandi bera meira úr býtum.

 


mbl.is HB Grandi greiðir 12% arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina stelpan á ballinu

Eftirspurn eftir fjármunum lífeyrissjóðanna er mikil og tala sumir um að sjóðirnir séu ekki sætasta stelpan á ballinu heldur sú eina sem í boði er. Miðað við ásókn lífeyrissjóða í óverðtryggða pappíra veðja stjórnendur þeirra á að verðbólgan fari lækkandi og vextir lækki. Það væri óskandi.

Lífeyrissjóðirnir eru á margan hátt brenndir af fjárfestingum sínum í innlendum hluta- og fyrirtækjaskuldabréfum eftir bankahrunið og miðast oft ákvörðunartakan við það að taka sem minnsta áhættu. Sú litla endurnýjun sem hefur orðið innan lífeyrissjóðakerfisins eftir bankahrunið endurspeglar kannski þá áhættunarfælni sem hér ríkir. Sömu menn og gerðu mistökin eru ragir við að setja fjármuni í atvinnuuppbyggingu. Með fullri sanngirni hafa lífeyrissjóðirnir reyndar sett á fót 30 milljarða króna framtakssjóð sem ætlað er að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.

Nú er sannast sagna ekki um auðugan garð að gresja á innlendum hlutabréfamarkaði. Hins vegar er eftirtektarvert hversu íslensku lífeyrissjóðirnir hafa sýnt Össuri lítinn áhuga á sama tíma og erlendir fjárfestar, síðast þýskir lífeyrissjóðir, hafa stóraukið eignarhlut sinn í þessu verðmætasta fyrirtæki landsins. Frá ársbyrjun 2009 hafa þeir lífeyrissjóðir sem eru í hópi tíu stærstu hluthafa Össurar örlítið dregið úr samanlögðum hlut sínum. Frá ársbyrjun 2009 hefur markaðsverðmæti Össurar í krónum talið meira en tvöfaldast.


mbl.is Lífeyrissjóðirnir kaupa ríkisskuldabréf fyrir tugi milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskur stjórnarmaður gagnrýnir stjórnvöld

Stjórnarformaður Össurar, Daninn Niels Jacobsen, gagnrýndi nýlegar breytingar um yfirtökuskyldu á aðalfundi Össurar sem fram fór í síðustu viku. Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti voru yfirtökumörk verið færð niður í 30% fyrir ári síðan en voru áður í 40%. William Demant Holding, sem er stærsti hluthafinn í Össuri, hefur samkvæmt lögunum frest til áramótanna 2011/2012 til að laga sig að breyttum lögum, ellegar verða yfirtökuskyldur.

Vandséð er hvernig þessi lagabreyting verndar hagsmuni smærri hluthafa í Össuri. William Demant hefur tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að taka Össur yfir, sem hlýtur að teljast ólíklegur leikur miðað við gagnrýni stjórnarformannsins, og hins vegar að selja sig niður fyrir 30%. Eins og staðan er í dag vofir yfir Össuri að stærsti hluthafinn þarf að selja sig ríflega sjö prósenta hlut til þess að uppfylla skilyrði verðbréfaviðskiptalaganna. Vekur þetta upp spurningar hvort þessi óvissa á eignarhaldi geti komið í veg fyrir eðlilega verðmyndun á verðbréfum Össurar á næstu misserum. Hlutabréf Össurar hafa meira en tvöfaldast í verði eftir að stjórnendur félagsins seldu bréf sín á tombóluverði til William Demants nokkrum dögum áður en lögin breyttust í fyrra. Sjö prósenta hlutur er um 5,6 milljarða króna virði.

Það er alltaf sérkennilegt þegar eðlilegir viðskiptahættir eru gerðir afturvirkir með lagabreytingu. Kannski töldu menn að í ljósi reynslunnar þar sem stórir hluthafar íslenskra almenningshlutafélaga höfðu smærri hluthafa í rassvasanum hafi verið þörf á breytingum. Til dæmis átti Samson eignarhaldsfélag yfir 45% hlut í Landsbankanum þegar yfirtökumörk voru færð í 40% árið 2003. Samson var þó ekki skylt að taka Landsbankann yfir eða selja sig niður.


Er Egill Helgason meðal umsækjenda?

Þegar rennt yfir lista umsækjenda að stöðu dagskrárstjóra RÚV rekur maður augun í nafnið Egill Óskar Helgason. Er þetta ekki hinn eini sanni álitsgjafi og sjónvarpsmaður Egill Helgason, sem stýrir tveimur þáttum á RÚV?

Egill hefur nefnilega sagt að hann eigi stórt leyndarmál sem er millinafnið Óskar.

 


mbl.is 37 sóttu um starf dagskrárstjóra RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullsnemmt að álykta

Þótt kreditkortavelta sé að glæðast er enn fullsnemmt að draga þá ályktun að einkaneyslan sé að rétta úr kútnum. Fyrstu mánuðirnir mánuðirnir eftir bankahrunið einkenndust af mikilli óvissu sem hafði töluverð áhrif á hegðun neytenda. Þeir héldu að sér höndum - og sumir hverjir lokuðu sig bókstaflega inni - einkum þegar kom að stórum fjárfestingum. Þess vegna kann að vera varasamt að bera kortaveltu saman á milli ára þegar haft er í huga áhrif hrunsins á hegðun neytenda.

Þá verður að hafa í huga að síðustu skattahækkanir hljóta að draga úr kaupmætti almennings.  


mbl.is Kreditkortaveltan 24,5 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðkast hin breiðu spjót

Fjölmargir útgefendur skráðra skuldabréfaflokka hafa þurft að bíta í það súra epli að fá sekt frá Fjármálaeftirlitinu frá hruni fjármálakerfisins. Sannast sagna vöknuðu FME og Kauphöll til lífsins við hrunið og fóru að beita harðari aðgerðum til þess að láta umbjóðendur standa skil á sínum pligtum. Til dæmis hefur verið tekið harkalega á útgefendum sem hafa ekki staðið við sínar skyldur hvað varðar upplýsingaskyldu.

 


mbl.is FME sektar Opin kerfi Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftshögg eða bara rothögg?

Stjórnvöld hafa ákveðið að framlengja ekki tímabundna greiðsludreifingu aðflutnings- og vörugjalda sem rann út um áramótin, eins og Pressan segir frá í dag. Frá og með 15. mars verður því einn gjalddagi á Það er engum vafa undirorpið að þessi greiðsludreifing hefur gert fyrirtækjum kleift að láta hjólin ganga í gegnum fyrstu mánuðina eftir hrunið. Því miður munu mörg fyrirtæki ekki komast í gegnum þetta og í raun og veru er full ástæða til að óttast vöruskort þegar líða tekur á árið því leið og fyrirtæki lenda í vanskilum með aðflutningsgjöldin þá lokast fyrir "tollkrítina".

Ég fjallaði aðeins um þetta mál á blogginu hér í byrjun febrúar:"Það er varla hægt að segja að hagur atvinnulífsins hafi vænkast á síðustu mánuðum. Kostnaður vegna launatengdra gjalda hefur hækkað gríðarlega á síðustu mánuðum og gengi krónunnar mun varla styrkjast í komandi framtíð. Bankarnir eru varla byrjaðir að taka á vanda skuldsettra fyrirtækja. Í könnun Capacent Gallup, sem greint var frá í janúar, kom fram að 92% stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins töldu að aðstæður í hagkerfinu væru slæmar og 43% álitu að aðstæður myndu fara versnandi á næstu mánuðum. 

Sá dráttur sem hefur orðið á endurreisn fjármálakerfisins, verulegur samdráttur í einkaneyslu og haftabúskapur, sem verður viðvarandi næstu árin, hafa dregið verulegan þrótt úr fyrirtækjum landsins. Litlar aðgerðir af hálfu hins opinbera geta hins vegar hjálpað fyrirtækjum mikið til eins og greiðsludreifing aðflutnings- og vörugjalda hefur sýnt. Með því að framlengja greiðslum áfram er hægt að láta hjól efnahagslífsins ganga áfram á meðan beðið er eftir að við finnum hinn svokallaða botn sem augljóslega hefur ekki verið náð."

 

Vinnubrögð stjórnvalda eru svo annar handleggur. Tíu dögum fyrir gjalddaga fá atvinnurekendur að vita að greiðsludreifing er ekki lengur í boði. Þetta minnir svolítið á skattahækkanirnar korteri fyrir áramót.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband