Eina stelpan á ballinu

Eftirspurn eftir fjármunum lífeyrissjóðanna er mikil og tala sumir um að sjóðirnir séu ekki sætasta stelpan á ballinu heldur sú eina sem í boði er. Miðað við ásókn lífeyrissjóða í óverðtryggða pappíra veðja stjórnendur þeirra á að verðbólgan fari lækkandi og vextir lækki. Það væri óskandi.

Lífeyrissjóðirnir eru á margan hátt brenndir af fjárfestingum sínum í innlendum hluta- og fyrirtækjaskuldabréfum eftir bankahrunið og miðast oft ákvörðunartakan við það að taka sem minnsta áhættu. Sú litla endurnýjun sem hefur orðið innan lífeyrissjóðakerfisins eftir bankahrunið endurspeglar kannski þá áhættunarfælni sem hér ríkir. Sömu menn og gerðu mistökin eru ragir við að setja fjármuni í atvinnuuppbyggingu. Með fullri sanngirni hafa lífeyrissjóðirnir reyndar sett á fót 30 milljarða króna framtakssjóð sem ætlað er að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.

Nú er sannast sagna ekki um auðugan garð að gresja á innlendum hlutabréfamarkaði. Hins vegar er eftirtektarvert hversu íslensku lífeyrissjóðirnir hafa sýnt Össuri lítinn áhuga á sama tíma og erlendir fjárfestar, síðast þýskir lífeyrissjóðir, hafa stóraukið eignarhlut sinn í þessu verðmætasta fyrirtæki landsins. Frá ársbyrjun 2009 hafa þeir lífeyrissjóðir sem eru í hópi tíu stærstu hluthafa Össurar örlítið dregið úr samanlögðum hlut sínum. Frá ársbyrjun 2009 hefur markaðsverðmæti Össurar í krónum talið meira en tvöfaldast.


mbl.is Lífeyrissjóðirnir kaupa ríkisskuldabréf fyrir tugi milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband