Danskur stjórnarmaður gagnrýnir stjórnvöld

Stjórnarformaður Össurar, Daninn Niels Jacobsen, gagnrýndi nýlegar breytingar um yfirtökuskyldu á aðalfundi Össurar sem fram fór í síðustu viku. Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti voru yfirtökumörk verið færð niður í 30% fyrir ári síðan en voru áður í 40%. William Demant Holding, sem er stærsti hluthafinn í Össuri, hefur samkvæmt lögunum frest til áramótanna 2011/2012 til að laga sig að breyttum lögum, ellegar verða yfirtökuskyldur.

Vandséð er hvernig þessi lagabreyting verndar hagsmuni smærri hluthafa í Össuri. William Demant hefur tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að taka Össur yfir, sem hlýtur að teljast ólíklegur leikur miðað við gagnrýni stjórnarformannsins, og hins vegar að selja sig niður fyrir 30%. Eins og staðan er í dag vofir yfir Össuri að stærsti hluthafinn þarf að selja sig ríflega sjö prósenta hlut til þess að uppfylla skilyrði verðbréfaviðskiptalaganna. Vekur þetta upp spurningar hvort þessi óvissa á eignarhaldi geti komið í veg fyrir eðlilega verðmyndun á verðbréfum Össurar á næstu misserum. Hlutabréf Össurar hafa meira en tvöfaldast í verði eftir að stjórnendur félagsins seldu bréf sín á tombóluverði til William Demants nokkrum dögum áður en lögin breyttust í fyrra. Sjö prósenta hlutur er um 5,6 milljarða króna virði.

Það er alltaf sérkennilegt þegar eðlilegir viðskiptahættir eru gerðir afturvirkir með lagabreytingu. Kannski töldu menn að í ljósi reynslunnar þar sem stórir hluthafar íslenskra almenningshlutafélaga höfðu smærri hluthafa í rassvasanum hafi verið þörf á breytingum. Til dæmis átti Samson eignarhaldsfélag yfir 45% hlut í Landsbankanum þegar yfirtökumörk voru færð í 40% árið 2003. Samson var þó ekki skylt að taka Landsbankann yfir eða selja sig niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband