Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
22.4.2010 | 10:34
Only for you, my friend
Hlutafjáraukningin í FL Group í desember 2007 reyndist vera afdrifarík í mörgum skilningi. Fyrir það fyrsta var stoðunum kippt undan hlutabréfamarkaðnum þegar ný bréf voru seld með miklum afslætti frá síðasta markaðsgengi. Jón Ásgeir telur að þarna hafi verið um misheppnaða björgunaraðgerð að ræða af hálfu Baugs " ... sem að endingu bar fyrirtækið ofurliði". Hins vegar má spyrja á móti hvort FL Group hafi ekki einmitt framlengt lífdaga Baugs, enda bendir ýmislegt til að hlutafjáraukningin hafi fyrst og fremst þjónað hagsmunum Baugs, sem varð stærsti hluthafinn í FL, fremur en hagsmunum annarra hluthafa í almenningshlutafélaginu FL.
Hvað var það sem Baugur lagði til sem nýtt fjármagn inn í FL Group? Þetta voru óskráð fasteignafélög og fasteignasjóðir á Íslandi og Norðurlöndum. FL Group keypti fasteignir af Baugi fyrir 600 milljónir evra, um 54 milljarða króna, og greiddi fyrir með útgáfu skráðra hlutabréfa á miklum afslætti. Þannig voru óskráðar eignir færðar úr Baugi inn í almenningshlutafélagið FL Group á verðum sem voru án vafa hagstæðari fyrir eigendur Baugs á þessum tíma en hluthafa í FL. Baugur fékk þannig eignir sem voru með verðmiða, betra veðhæfi og varð alls ráðandi í FL Group sem langstærsti hluthafinn.
Stjórnendur FL Group (með Jón Ásgeir sem stjórnarformann) gátu svo réttlæt þessi viðskipti á þeim forsendum að fjárfestingarstefna FL gengi í vaxandi mæli út á að fjárfesta í óskráðum eignum (private equity). Og hvers vegna að leita langt yfir skammt? Ofurskuldsettur verslunarrisi var með fullt af góðum eignum til sölu.
Missti iðulega sjónar á góðum gildum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2010 | 17:12
Gamla vaxtatuggan
Einn helsti dragbítur framfara á Íslandi er vaxtastigið sem er allt of hátt miðað við núverandi aðstæður. Hvernig er hægt að réttlæta háa vexti við þau gjaldeyrishöft sem við búum við. Það var hægt á meðan allt kapp var lagt við að viðhalda sterkri krónu í þenslunni (sem þó skilaði sér í hárri verðbólgu). Í dag fitna hundruðir milljarða króna inni í bankakerfinu á þeim ofurvöxtum sem Seðlabankinn leggur til.
Á árunum 2006-2008 var mikil umræða um hátt vaxtastig í landinu. Þess vegna er sérkennilegt nú hversu lítil umræða fer fram um hið háa vaxtastig sem er enn í landinu í miðri kreppu, þótt það hafi að vísu lækkað í smáskömmtum. Það er að drepa skuldsett atvinnulíf og skuldsetta einstaklinga en letur að sama skapi fjármagnið til góðra verka, s.s uppbyggingar og nýsköpunar.
Íslensk fyrirtæki verða að fjárfesta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.4.2010 | 00:45
Björgólfur Thor og CCP
Á sama tíma og flest fyrirtæki sem höfðu sig mest frammi í útrásinni eru annaðhvort hrunin eða standa á brauðfótum hefur CCP vaxið gríðarlega eftir að hagkerfið hrundi. Félagið skilaði ríflega sex milljón dala hagnaði í fyrra og nam handbært fé frá rekstri yfir 20 milljónum dala sem var um 60% aukning á milli ára.
Umræðan um eignarhald á CCP vaknar upp á sama degi og félagið hlýtur hin eftirsóttu útflutningsverðlaun forsetans. NP ehf., einn armur af Novatorveldi Björgólfs Thors, er nefnilega stærsti hluthafinn í félaginu.
Novator, sem á um 30% í CCP, eignaðist stóran hlut í félaginu í ársbyrjun 2006 þegar Brú Venture Capital, dótturfélag Straums-Burðaráss, seldi hlut sinn í tölvuleikjafyrirtækinu. Fram kom að Brú hefði leyst umtalsverðan söluhagnað en forsvarsmenn Brúar báru fyrir sig að söluverðið væri trúnaðarmál. Kaupverðið er þó talið hafa verið 180 krónur á hlut en í nýlegu hlutafjárútboði CCP var útboðsgengið 18 dollarar á hlut, um 2.200-2.300 krónur. Ætla má að fjárfesting Björgólfs Thors í CCP hafi því ríflega tólffaldast í virði í krónum talið á aðeins fjórum árum. Kaupin vöktu mikla athygli, enda var Björgólfur Thor jafnframt stjórnarformaður og stærsti hluthafinn í Straumi-Burðarási. Bandarískur fjárfestingasjóður, General Catalyst, sem er næststærsti hluthafinn í CCP í dag, var sagður hafa haft áhuga að kaupa CCP sumarið 2006 fyrir 5-6 milljarða króna sem hefði jafngilt 500-600 krónum á hlut.
Þótt Novator hafi átt menn inni í stjórn CCP þá er það á engan hátt Björgólfi Thor að þakka að CCP er á þeim stað sem það er í dag. Starfsmenn félagsins, sem eru m.a. þeir sömu og óðu eld og brennistein á fyrstu árum þessar aldar til þess að koma fyrirtækinu á legg, eiga þetta fyrirtæki frá a til ö.
CCP fékk Útflutningsverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2010 | 12:10
Sparisjóðir sleppa vel
Þegar rennt er yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar sést að lítil umfjöllun er um þátt sparisjóðina í uppgangi og falli fjármálakerfisins. Væntanlega geta forsvarsmenn sparisjóða á þessum árum prísað sig sæla með það, enda fá starfsbræður þeirra úr öðrum geirum fjármálalífins hressilega á baukinn.
Ýmsum spurningum er þó ósvarað um hlutverk sparisjóðanna í fjármálabólunni. Ein sú stærsta lítur að hinu sérstaka ástarsambandi ákveðna sparisjóða og Existu. Af hverju tóku svokallaðir Exista-sparisjóðir ekki að selja hlut sinn í Existu eftir að félagið var skráð á markað haustið 2006 og þeir innleystu verulegan gengishagnað? Skömmu áður en gengi hlutabréfa í Existu fór í 40 kallinn sumarið 2007 tóku SPRON og fleiri sparisjóðir sig til og stofnuðu sérstakt fjárfestingarfélag (Kistu) utan um hluta af eign sinni í Existu. Sparisjóðir á borð við SPRON, SpKef, SPM og Sparisjóð svarfdæla byggðu alla sína afkomu á hlutabréfaþróun Existu sem var svo háð gengisþróun í Kaupþingi og Sampo Group. Þetta voru vogunarsjóðir en ekki sparisjóðir.
Lækkandi markaðsverðmæti Existu hafði verulega slæm áhrif á rekstur sumra sjóða. Sparisjóður Mýrasýslu var de facto gjaldþrota um mitt ár 2008 og SPRON var komið til bjargar í mars 2008 þegar Kaupþing veitt sparisjóðnum fimm milljarða króna víkjandi lán til þess að halda honum fyrir ofan lögbundið lágmark um eiginfjárhlutfall.
Það er ekki svo að forsvarsmenn þessara sparisjóða hafi ekki fengið sinn skammt af gagnrýni vegna sambandsins við Existu. Mætti túlka þrjósku forsvarsmanna sparisjóða að halda í hlutabréf sín í Existu sem markaðsmisnotkun, þ.e. að menn hafi óttast að sala hlutabréfa myndi kollvarpa gengi Existu? Af hverju lét FME það ótalið að sparisjóðir tækju svo mikla áhættu með eign sinni í einum útgefanda verðbréfa?
14.4.2010 | 18:02
Góðæristölur af Kirkjusandi
Stóru viðskiptabankarnir, Íslandsbanki og Landsbanki, skiluðu samtals 38 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Uppgjör fyrrnefnda bankans var þó talsvert betra því arðsemi eiginfjár var 30% á sama tíma og Landsbankinn skilaði 10% arðsemi. Arion banki á eftir að skila uppgjöri fyrir síðasta ár og er varla hægt að búast við öðru en að hann skili ágætum hagnaði.
Uppgjör Íslandsbanka er á margan hátt athyglisvert þegar það er borið saman við uppgjör Glitnis á árunum 2005 og 2006. Fyrrnefnda árið skilaði bankinn 18,9 milljarða hagnaði, 38,2 milljörðum króna ári síðar og 27,7 milljörðum árið 2007. Hreinar vaxtatekjur, sem námu 32 milljörðum króna sökum mikillar verðbólgu í fyrra, voru 22,4 milljarðar kr. árið 2005 en 37,1 milljarður árið 2006. Arðsemi eiginfjár var 30% árið 2005 en 39% árið 2006.
Ergo: Uppgjör Íslandsbanka árið 2009 er með öðrum orðum mitt á milli áranna 2005 og 2006. Hagnaður Íslandsbanka í fyrra var jafnframt aðeins 3,5 milljörðum minni en á hápunkti bólunnar árið 2007!
Aðrsemi eiginfjár 30% hjá Íslandsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2010 | 15:02
Gleymum ekki strætólóðinni
Á árunum 2006 og 2007 átti Glitnir það til að koma greiningaraðilum á óvart skila betri afkomutölum í hús en reiknað hafði verið með. Þegar rýnt var í reikninga Glitnis kom í ljós að í tvö eða þrjú skipti féllu til óreglulegar tekjur við það að uppfæra eignarhlut bankans á Strætólóðinni við Kirkjusand sem bankinn keypti af Reykjavíkurborg snemma árs 2006. Kaupverðið nam um 970 milljónum króna en í níu mánaða uppgjöri bankans árið 2007 var öll lóðin metinn á 3,4 milljarða. Inni í þeirri tölu var að hluta til það sem bankinn hafði átt fyrir. Til stóð að byggja íbúðir á þessum reit auk sem þar áttu að rísa nýjar höfuðstöðvar bankans. Ekkert hefur orðið úr þeim áformum.
Alla vega er ljóst að Glitnir hagnaðist verulega á kaupunum og höfðu bankamenn það í flimtingum að þegar harðna tók á dalnum í íslenskum fjármálaheimi þá mátti búast við að bankinn kreisti fram nýja peninga út úr strætólóðinni.
Uppfærðu verðmat Iceland þvert á þróun hlutabréfamarkaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2010 | 14:42
Lánin flutt heim
Rannsóknarnefndin staðfestir kenningu sem hefur verið kölluð "Lánin heim". Hún lýsti sér í því að íslensku bankarnir komu stærstu hluthöfum sínum til bjargar þegar erlendir bankar tóku að kalla eftir auknum tryggingum þegar lánsfjármarkaðir tóku að þorna upp þegar leið á árið 2007 og hlutabréf hríðféllu í verði. Þeir sem báru skarðan hlut frá borði voru á endanum almennir hluthafar og kröfuhafar bankanna og kröfuhafar.
Í skýrslunni eru rakin fjögur dæmi um það hvernig íslenskir bankar lánu eigendum sínum eftir að erlend fjármálafyrirtæki hótuðu að gjaldfella lán: 1. Glitnir lánaði Milestone til greiðslu skuldar við Morgan Stanley. 2. Kaupþing og Glitnir lánuðu Eglu, næststærsta hluthafanum í Kaupþingi, 400 milljóna evra lán eftir að Citibank gerði veðkall í bréfum Eglu í Kaupþingi og hótaði að taka þau yfir. Þessi hlutur hafði upphaflega verið fjármagnaður af Kaupþingi og LÍ og fékk því síðarnefndi bankinn lánið að hluta til aftur í fangið. 3. Glitnir greiddi upp lokagreiðslu á láni hjá Morgan Stanley sem hafði verið veitt FL Group m.a. vegna kaupa á bréfum í Glitni. 4. Landsbankinn lánaði Björgólfi Thor vegna ótta hans um að Deutsche Bank gerði veðkall í bréf hans í Actavis. Við skýrslutöku sagði Sigurjón Þ. Árnason að mönnum hafi verið kunnugt um þá áhættu sem var verið að taka og var því lánað á "rosalega" háum vöxtum.
"Nefndin telur að bankarnir hafi með umræddum lánveitingum að hluta til verið að reyna að lágmarka tjón sitt og bregðast við þeirri stöðu sem þeir höfðu skapað sem var að eiga svo mikið undir afkomu eigenda sinna. Eigi að síður má draga í efa að ákvarðanir bankanna um að greiða upp umrædd lán við erlenda banka hafi verið í þágu hagsmuna almennra hluthafa og kröfuhafa bankans. Með lánveitingunum var umfram annað staðinn vörður um hag skuldsettra eigenda bankanna og þær juku tapsáhættu bankanna sjálfra og hækkuðu kostnaðinn sem á endanum varð við fall bankanna," segir í ályktun nefndarinnar.
Fjármagnaði Kjalar við veðkall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 10:40
Átti að taka sæti í stjórn Kaupþings
Stærstu fyrirtækjakaup Íslandssögunnar urðu aldrei að veruleika þegar Kaupþing féll blessunarlega frá áformum sínum að kaupa NIBC fyrir 270 milljarða króna. Seljandinn JC Flowers átti að fá 16% hlut í Kaupþingi og verða annar stærsti hluthafinn. Forsvarsmönnum Kaupþings þótti það mikill fengur að fá jafnáhrifamikinn fjárfesti og JC Flowers, sem hefur sérhæft sig í áhættusömum fjárfestingum í fjármálageiranum, til liðs við sig. Þá stóð til að Ravi Sinha, viðskiptafélagi Kaupþings og fyrrum framkvæmdastjóri hjá JC, tæki sæti í stjórn bankans þegar kaupin voru frágengin.
JC Flowers varð þannig aldrei hluthafi í Kaupþingi eins og kemur fram í fréttinni. Kaupþing ku hafa fjármagnað Sinha við kaup í sjóðum JC Flowers.
Viðskiptafélagi Kaupþings til rannsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2010 | 22:43
Gegnsæi og Baugur
Ein af þeim tillögum sem lífeyrissjóðir gera að skilyrði fyrir framtíðarfjárfestingum í fyrirtækjabréfum er skráning bréfanna í Kauphöll Íslands áður en útgefandi fær greitt.
Þetta er áhugaverð tillaga sem eykur öryggi fyrir eigendur fyrirtækjaskuldabréfa. Jafnframt eykur þetta gegnsæi á fjármálamarkaði þar sem útgefendur skráðra verðbréfa munu þurfa að birta fjárhagsupplýsingar með reglubundnum hætti. Miðað við þetta þá munum við kannski aldrei sjá risafyrirtæki eins og Baug sem fjármagnaði sig í miklum mæli með útgáfu óskráðra skuldabréfa en kaus að vera utan við sviðsljós skráðra verðbréfamarkaða.
Lífeyrissjóðir geri strangari kröfur til útgefenda verðbréfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2010 | 12:07
Hulduhluthafar vilja arð
Það vekur athygli að eigendum 365 miðla hafi tekist að útvega nýtt hlutafé inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar. Óskipta athygli vekur þó hlutur hinna "þöglu hluthafa" sem hafa ákveðið að kaupa B-hluti í 365 sem bera engan atkvæðisrétt en njóta forgangs að arði. Mér er ekki kunnugt að 365 hafi nokkurn tíma verið rekið með hagnaði og efast um að svo verði á næstu misserum.
Þeir sem gerst þekkja til íslenskra fjölmiðla vita að þeir hafa verið botnlaus peningahít á undanförnum árum. Í raun og veru er aðeins eitt íslenskt fjölmiðafyrirtæki sem hefur skilað eigendum sínum arði og það var Árvakur hf. á velmektarárum félagsins á 10. áratug síðustu aldar.
Hvers vegna leggur einhver fjármuni til félags sem hefur aldrei greitt arð og mun varla gera það á samdráttartímum? Hvaða viðskiptafélagar Jóns Ásgeirs hafa svona mikla trú á rekstri 365 í ljósi þess að fjárfestar hafa langoftast ekki riðið feitum hesti frá fjárfestingum í félagi tengdum Baugsgrúppunni? Hafa ber í huga að hinir þöglu hluthafar leggja fram 600 milljónir króna á móti aðeins 400 milljónum frá þeim hluthöfum sem ráða félaginu.
Hlutafjáraukningu í 365 miðlum lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)