Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
26.8.2009 | 11:09
Hlutafé Existu þurrkað út
Á aðalfundi Existu í dag liggur fyrir tillaga um að allt hlutafé félagsins verði fært niður, um rúma 13,9 milljarða króna. Þar með hafa allir hluthafar Existu - jafnt háir sem smáir - tapað sínu, þar á meðal þeir sem fengu hlutabréf í Existu í arð frá Kaupþingi árið 2006 og þeir hluthafar sem áttu bréf í Skiptum.
Þótt stjórnendur félagsins ætli sér ekki að leggja fram reikninga fyrir síðasta ár verður kjörin ný stjórn. Ekki liggur fyrir hverjir hafa gefið kost á sér en það kæmi mér verulega á óvart ef Robert nokkur Tchenguiz situr áfram. Alltént bíður nýrra stjórnarmanna ekki öfundsvert verkefni. Framtíðin er óljós þar sem innlendir kröfuhafar (skilanefndir) vilja greinilega ýta út núverandi stjórnendum og koma sjálfum sér að kjötkötlunum. Og þá er almenningsálitið ekki á bandi Bakkabræðra.
Stjórnendur Existu hafa óskað eftir því að reka félagið áfram fyrir hönd kröfuhafa fyrir 800 milljónir króna á ári. Þetta er ansi góð upphæð fyrir fremur einfalt eignarhaldsfélag, jafnvel þótt rekstrarkostnaður Existu yrði bara lítið brot af því sem hann var á árunum 2006-2008. Til samanburðar var rekstrarkostnaður VÍS, sem er að fullu í eigu Existu, 2,4 milljarðar króna á síðasta ári. Hjá VÍS starfa yfir 200 starfsmenn en fáir eru eftir í herbúðum Existu.
Hins vegar hefur verið gaman að fylgjast með umræðunni um málefni Existu á dögunum. Spunakarlar skilanefndanna hafa greinilega verið að hneyklast á rekstrarkostnaði félagsins en ættu að líta í eigin barm. Skilanefndir gömlu bankanna eru að verða eins og ríki í ríkinu - svona rétt eins og Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir voru á sínum tíma. Þær eru orðnar eins og meðalstór íslensk fyrirtæki í starfsmannafjöld, þó með gríðarleg völd þar sem vindir og vandamenn sitja í allsnægtum. Er rekstrarkostnaður í skilanefndunum eitthvað frábrugðinn því sem forsvarsmenn Existu og Straums hafa verið að kynna til sögunnar?
![]() |
Exista birtir ekki reikning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.8.2009 | 09:17
Ódýrastur í ríkinu
Á sama tíma og Foster´s skilar auknum hagnaði er Fostersbjórinn sennilega sá ódýrasti í ríkinu. Hálfslítersdósin kostar einungis 220 krónur þrátt fyrir enginn gjaldmiðill hafi styrkst meira gagnvart krónu á árinu en ástralski dalurinn. Eflaust hefur lágt áfengismagn þar eitthvað um að segja. En Foster´s er vel drykkjarhæft öl.
Vinsælustu íslensku tegundirnar, eins og Egils Gull, Viking og Viking Lager, eru talsvert dýrari. Reyndar fannst mér oft einkennilegt hvernig íslensku framleiðendurnir hækkuðu verðskrá sínar til jafns við innflytjendur vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar.
En ætli það sé ekki best að hætta hér áður en einhver postulinn kærir mig fyrir áfengisáróður.
![]() |
Hagnaður Fosters eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2009 | 11:19
Danskir skattpeningar í íslenskt hagkerfi?
Ég heyri það út undan mér að mögulega muni Föroya Banki kaupa Sjóvá á næstunni. Þessi stærsti banki Færeyja á og rekur tryggingafélagið Trygd sem vill ná fótfestu á íslenska tryggingamarkaðnum. Færeyingar hafa svo sem sýnt Sjóvá áhuga en fyrr á árinu lýstu innlendir og erlendar fjárfestar yfir áhuga sínum að eignast tryggingafélagið.
Á föstudaginn samþykktu hluthafar í færeyska bankanum að heimila stjórn hans að sækja um fimm milljarða króna víkjandi lán frá danska ríkinu, úr svokölluðum "Bankapakka 2". Fjárhagslegur styrkur bankans er talsverður fyrir framlagið og reyndar var eiginfjárhlutfall A (CAD) 22% í lok júní sem er mun hærri tala en hjá hinum endurreistu íslensku bönkum. Framlagið frá danska ríkinu hefur verið hugsað til að taka yfir önnur fjármálafyrirtæki á góðu verði.
Eigendur Sjóvár eru skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki sem dældu samanlagt sextán milljörðum króna inn í félagið með fulltingi ríkissjóðs til að bjarga tryggingarisanum frá óumflýjanlegu þroti fyrr í sumar.
Ef þetta gengur eftir mun sá gamli draumur rætast að erlendir fjárfestar komi að íslenska fjármálakerfinu og það á eigin forsendum. Það skyldi þó ekki að vera eftir allt saman að danskur skattpeningur verði til þess að blása lífí í jökulkalt íslenskt hagkerfi?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.8.2009 | 15:06
Hagar birtu ekki ársreikning
Hagar eru eitt þeirra fyrirtækja, sem eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands, sem kusu að birta ekki ársreikning síðasta rekstrarárs og vísaði félagið þar til afar sérkennilegra undanþáguákvæða 56. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
Nú væri ef til vill lag fyrir stjórnendur Haga að draga þennan reikning fram og sýna hvernig efnahagur félagsins leit út í febrúarlok fyrst staða félagsins er svona sterk. Þar með yrði frétt Morgunblaðsins hugsanlega skotin í kaf.
Það að Hagar hafi kosið að birta ekki ársreikning á réttum tíma vekur auðvitað upp spurningar um hvort staðan sé það glæsileg hjá þessu stærsta verslanafyrirtæki landsins.
![]() |
Segja rangt að Hagar séu í gjörgæslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.8.2009 | 10:14
Ríkisflugfélag með útrásarkomplexa
Íslendingar hafa lengi haft ótrúlegan áhuga á flugrekstri og stundum talið sig vera sérfræðinga í öllum slíkum rekstri. Í útrásinni var fjárfest öðru fremur í fjármálafyrirtækjum og flugfélögum oftast með hroðalegum árangri. Sterling, Finnair og AMR eru ljóslifandi dæmi um misheppnaðar fjárfestingar íslenskra kaupahéðna í flugrekstri. Og þó! Mesti hagnaður FL Group kom einmitt í gegnum sölu hlutabréfa í easyJet, næststærsta lággjaldaflugfélagi Evrópu, og Icelandair, fjöreggi þjóðarinnar.
Þessi saga er rifjuð upp nú þegar fréttir berast af því að Travel Service, sem er að helmingi í eigu Icelandair Group, er orðið eitt um hituna við einkavæðingu CSA sem er tékkneskt ríkisflugfélag. Hið stórskulduga íslenska ríkisflugfélag Icelandair er sem sagt að bera víurnar í erlent ríkisflugfélag í gegnum dótturfélag sitt. Sem sagt ríkisflugfélag vill annað ríkisflugfélag.
Væri ekki nær að stjórnendur Icelandair leiti leiða að selja eignir og minnki þannig skuldapakkann, eins og boðað hefur verið, og einbeiti sér að kjarnastarfseminni sem gengur vel? Hreinar vaxtaberandi skuldir Icelandair eru þannig 37 milljarðar króna og eru þungur baggi á félaginu eins og stjórnendur þess viðurkenna í síðasta uppgjöri:"Að mati stjórnenda félagsins er eiginfjárhlutfall félagsins of lágt og greiðslubyrði vaxtaberandi skulda of þung þegar horft er á sjóðstreymi frá rekstri. Eins og áður hefur komið fram hefur um all nokkurt skeið verið unnið að endurskipulagningu efnahagsreiknings félagsins í samstarfi við viðskiptabanka þess. Nýlega var samþykkt á hluthafafundi heimild til stjórnar um að auka hlutafé félagsins um allt að 4 milljarða króna að nafnvirði. Ákvörðun um hlutafjáraukninguna verður tekin samhliða endurskipulagningu á greiðslubyrði vaxtaberandi skulda sem unnin er í samvinnu við viðskiptabanka félagsins."
Efnahagsreikningur félagsins er heldur ekki beint glæsilegur þar sem viðskiptavild vegna skuldsettrar yfirtöku er metin á 30 milljarða króna - klárlega ofmetinn eignarliður.
Það er sem sagt verið að skoða það að viðskiptabankar félagsins, þar sem Íslandsbanki fer fremstur í flokki, skuldbreyti lánum og leggi fram nýtt hlutafé inn í Icelandair. Hvernig væri einfaldlega að selja Travel Service til að grynnka á skuldum? Gleymum ekki að hlutur Icelandair í Travel Service þynntist út fyrir skemmstu þegar félagið sat hjá í hlutafjáraukningu sem segir fátt eitt um fjárhagslegan styrk Icelandair þessi dægrin.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2009 | 12:19
Ólafur hvergi af baki dottinn
Á sama tíma og Ólafur Ólafsson í Samskipum selur hlutabréf sín í Iceland Seafood hefur honum, Lur Berri og öðrum meðfjárfestum tekist að yfirtaka það stóran hlut í Alfesca að aðrir hluthafar munu sæta innlausn. Yfirtakan á Alfesca hefur vakið töluverða athygli þar sem smærri hluthafar - sem eru svo sem ekkert litlir karlar - lýstu yfir mikilli óánægju með það verð sem í boði var. Stjórn Alfesca studdi yfirtökuverð sitt, sem er 4,5 krónur á hlut, með óháðu verðmati frá Saga Capital á Akureyri. Vakti það eftirtekt hversu háa ávöxtunarkröfu Saga gerir við verðmatið. Smærri hluthafar, þar á meðal Gildi lífeyrissjóður og Nýi-Kaupþing, lögðu fram verðmat frá IFS Greiningu í Reykjavík sem hljóðaði upp á átta krónur á hlut. Munurinn á verðmötunum var því 77%!
Alfesca, sem á rætur sínar að rekja til SÍF, er traust og gott fyrirtæki sem hefur siglt ágætlega í gegnum heimskreppuna. Nú siglir gott fyrirtæki, sem hefur reyndar litla tengingu við Ísland, af Íslandsmiðum og sennilega fyrir lítinn pening. Ef til vill ættum við að hafa áhyggjur af því að þau fáu lífvænlegu, alþjóðlegu fyrirtæki sem hér finnast, fari af landi brott.
![]() |
Fara með 91,34% hlut í Alfesca |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.8.2009 kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2009 | 09:31
Nýr landsins forni fjandi
Það er óvíst um hvort allir fagni efnahagsbatanum í Japan. Fyrir skuldsetta þjóð norður í Ballarhafi kann hagvöxtur í Japan að þýða að skuldafjallið hækki enn frekar með tilheyrandi aukningu vaxtagreiðslna og þrengingum í efnahagslífinu. Erlendar skuldir eru nefnilega að stórum hluta til bundnar japanska jeninu sem hefur auðvitað styrkst í kjölfar fréttanna. Jenið hefur veikst talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum heims á árinu, einkum pundi, Kanadadal og norsku krónunni, og í raun og veru staðið í stað gagnvart krónu.
Ef hafísinn var landsins forni fjandi fyrr á öldum þá ógnar fátt okkur meira í dag en styrking japanska jensins.
![]() |
Hagvöxtur í Japan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.8.2009 | 20:43
Mega við litlum áföllum
Það er fagnaðarefni að loks skuli vera búið að tryggja Íslandsbanka og Nýja-Kaupþingi fararbeina inn í framtíðina. Þar með er vonandi hægt að hefja það endurreisnarstarf sem bíður okkar - heimila og atvinnulífs.
Hins vegar veltir maður vöngum yfir því hvort 12% eiginfjárhlutfall sé nægjanlegt til þess að takast á við vandamál samfélagsins, t.d. gríðarlega skuldsetningu. Gleymum ekki að gömlu bankarnir voru með hærra eiginfjárhlutfall en flest fjármálafyrirtæki í kringum okkur þótt eiginfjárstaðan hafi ekki beinlínis stuðlað að falli þeirra.
Á dögunum sótti stærsti banki Færeyja, Föroya Banki, um aukaframlag úr danska bankasjóðnum til að tryggja sig í gegnum fjármálakreppuna og gefa honum færi á að vaxa þegar tækifæri gefast. Við það fór eiginfjárhlutfall færeyska bankans í 24%. Það hafði verið 21% fyrir umsóknina.
Ríkisbankarnir, sem brátt gætu verið komnir að mestu leyti í hendur kröfuhafa, mega við litlum skakkaföllum á næstu misserum. Það er ljóst.
![]() |
Endurfjármögnun banka tryggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2009 | 14:02
Lengi skal vanmeta verðbólguna
Endurskoðun Seðlabankans kemur varla á óvart í ljósi fyrri reynslu. Bankinn hefur vanmetið verðbólguna undanfarin ár og er svo sem ekkert einn um það því greiningardeildir bankanna gerðu það einnig. Hann sá ekki fyrir ríflega 18% ársverðbólgu í fyrra eða nærri 6% verðbólgu árið áður þegar hagkerfið átti að vera að kólna.
Og þetta þýðir væntanlega það að hinn frægu verðbólgumarkmið bankans (2,5% verðbólga) verða enn fjarlægari draumur, en stefnt var að því að þau næðust loks í upphafi næsta árs eftir 66 mánaða baráttu.
![]() |
Verðbólguspá hækkuð umtalsvert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2009 | 18:12
Álagning hjá N1 hækkaði
Fyrr á þessu ári hrósaði ég N1 fyrir auka upplýsingagjöf félagsins á sama tíma og fjölmörg fyrirtæki, sem eru með skuldabréf skráð í Kauphöll Íslands, fóru þá leið að birta ekki fjárhagsupplýsingar. Nú hefur N1 birt tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sem sýna töluverðan rekstrarbata miðað við árið áður þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið í rauðum litum.
Það vekur mikla athygli mína að framlegð N1, þ.e. munurinn á milli veltu og vöruinnkaupa, eykst um 670 milljónir króna á milli ára, eða um 27,5%, þrátt fyrir að velta dragist lítillega saman. Með öðrum orðum: Álagning N1 hækkaði þónokkuð á mili tímabila. Ekki verður lagt mat á það hvort þetta sé ásættanlegur árangur hjá N1 og þá liggja ekki fyrir upplýsingar hvernig velta skiptist á milli vöruflokka. Mikil hækkun olíuverðs á fyrri hluta ársins 2008 kann að hafa haft áhrif á framlegð og álagningu félagsins en eldsneytissala skapar drjúgan hluta teknanna.
N1, sem er sennilega næststærsta smásölufyrirtæki landsins, velti rúmum 10,6 milljörðum króna samanborið við 10,9 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2008. Verðbólga var nærri 12% á milli ára. Sýnir það glöggt þann raunsamdrátt sem hefur átt sér stað í hagkerfinu á árinu 2009.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)