Ríkisflugfélag með útrásarkomplexa

Íslendingar hafa lengi haft ótrúlegan áhuga á flugrekstri og stundum talið sig vera sérfræðinga í öllum slíkum rekstri. Í útrásinni var fjárfest öðru fremur í fjármálafyrirtækjum og flugfélögum oftast með hroðalegum árangri. Sterling, Finnair og AMR eru ljóslifandi dæmi um misheppnaðar fjárfestingar íslenskra kaupahéðna í flugrekstri. Og þó! Mesti hagnaður FL Group kom einmitt í gegnum sölu hlutabréfa í easyJet, næststærsta lággjaldaflugfélagi Evrópu, og Icelandair, fjöreggi þjóðarinnar.

Þessi saga er rifjuð upp nú þegar fréttir berast af því að Travel Service, sem er að helmingi í eigu Icelandair Group, er orðið eitt um hituna við einkavæðingu CSA sem er tékkneskt ríkisflugfélag. Hið stórskulduga íslenska ríkisflugfélag Icelandair er sem sagt að bera víurnar í erlent ríkisflugfélag í gegnum dótturfélag sitt. Sem sagt ríkisflugfélag vill annað ríkisflugfélag.

Væri ekki nær að stjórnendur Icelandair leiti leiða að selja eignir og minnki þannig skuldapakkann, eins og boðað hefur verið, og einbeiti sér að kjarnastarfseminni sem gengur vel? Hreinar vaxtaberandi skuldir Icelandair eru þannig 37 milljarðar króna og eru þungur baggi á félaginu eins og stjórnendur þess viðurkenna í síðasta uppgjöri: 

"Að mati stjórnenda félagsins er eiginfjárhlutfall félagsins of lágt og greiðslubyrði vaxtaberandi skulda of þung þegar horft er á sjóðstreymi frá rekstri. Eins og áður hefur komið fram hefur um all nokkurt skeið verið unnið að endurskipulagningu efnahagsreiknings félagsins í samstarfi við viðskiptabanka þess. Nýlega var samþykkt á hluthafafundi heimild til stjórnar um að auka hlutafé félagsins um allt að 4 milljarða króna að nafnvirði. Ákvörðun um hlutafjáraukninguna verður tekin samhliða endurskipulagningu á greiðslubyrði vaxtaberandi skulda sem unnin er í samvinnu við viðskiptabanka félagsins."

Efnahagsreikningur félagsins er heldur ekki beint glæsilegur þar sem viðskiptavild vegna skuldsettrar yfirtöku er metin á 30 milljarða króna - klárlega ofmetinn eignarliður.

Það er sem sagt verið að skoða það að viðskiptabankar félagsins, þar sem Íslandsbanki fer fremstur í flokki, skuldbreyti lánum og leggi fram nýtt hlutafé inn í Icelandair. Hvernig væri einfaldlega að selja Travel Service til að grynnka á skuldum? Gleymum ekki að hlutur Icelandair í Travel Service þynntist út fyrir skemmstu þegar félagið sat hjá í hlutafjáraukningu sem segir fátt eitt um fjárhagslegan styrk Icelandair þessi dægrin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ein af reglum Warren Buffet er sú að fjárfesta ALDREI í flugfélagi.

Halldór (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband