Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
11.8.2009 | 22:52
Niðurlæging FME
Afskipti FME af skilanefndarmönnum eru ekkert annað en niðurlæging og ósigur fyrir nýjan forstjóra stofnunarinnar. FME ætlaði nú að sýna hnefana í eitt skiptið en varð sjálft fyrir þungu hnefahöggi þegar valdamiklar skilanefndir ákváðu að ráða hina brottreknu nefndarmenn til sín. Guðni Níels er eini fjórmenninganna sem ekki hefur verið ráðinn inn til starfa fyrir skilanefndina.
Eins og RÚV hefur m.a. greint frá fór allt upp í háaloft hjá kröfuhöfum Landsbankans þegar nefndarmenn voru látnir fara. Þessi ákvörðun setti endurreisn NBI í uppnám. Hún jafnvel kostað kröfuhafa og íslenska ríkið gríðarlega fjármuni. Einhverjir telja enn að reynsla fyrrverandi lykilstarfsmanna í bönkunum geti nýst til þess að endurreisna fjármálakerfið og hámarka virði eigna. FME er hins vegar meira farið að minna á vindhana sem stýrist af múgæsingi og skammtímahagsmunum stjórnmálamanna.
![]() |
Í stjórn FIH fram að næsta aðalfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.8.2009 | 22:42
Verður Ísland fyrst til að hækka vexti?
Greiningardeild NBI skrifaði fjallaði á dögunum um vangaveltur Bloomberg hvort Noregur yrði fyrsta ríkið til að hækka stýrivexti sína. Noregur hefur siglt ótrúlega vel í gegnum kreppuna og telja margir að norska krónan eigi eftir að styrkjast á móti helstu gjaldmiðlum. Svo segir Landsbankinn:
"Noregur, sem er fimmti stærsti olíuútflytjandi í heimi, hefur siglt lygnari sjó en flest önnur lönd í ólgusjó niðursveiflunnar. Því má þakka stöðugum fjárfestingum í olíugeiranum, sem stendur að baki fjórðungi landsframleiðslunnar. Sögulega lágur fjármagnskostnaður og stærsti aðgerðapakki til örvunar efnahagslífs í Noregi í yfir þrjá áratugi hafa hjálpað til við að draga úr áhrifum niðursveiflunnar, en eru nú áhættuþættir í of mikilli hitnun hagkerfisins. Stýrivextir hafa alls verið lækkaðir sjö sinnum frá því í september í fyrra úr 5,75% niður í 1,25%, en þeir hafa aldrei verið jafn lágir þar í landi. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra landsins, hefur heitið jafngildi 3% af landsframleiðslu að frádreginni olíuframleiðslu í örvunaraðgerðir á vinnumarkaði, en kosningar eru í Noregi í haust."
En gæti það verið að Ísland yrði fyrsta landið til að hækka stýrivexti? Það er ekki loku fyrir það skotið þegar rennt er yfir Morgunkorn Íslandsbanka. Við erum í algjörum vítahring. Verðbólgan er mánuð eftir mánuð langt fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans og vextir eru að sliga atvinnulífið og almenning. Annar gjaldmiðill? Já, please!
![]() |
Býst við óbreyttum vöxtum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.8.2009 | 14:27
Veðjar MP á frekari veikingu krónu?
MP Banki jók hreinar erlendar eignir um rúma 3,3 milljarða króna á fyrri hluta ársins. Þegar rýnt er í árshlutauppgjör bankans, sem kynnt var í síðustu viku, sést að erlendar eignir bankans umfram erlendar skuldir námu 9,1 milljarði króna í lok júní samanborið við hreina stöðu upp á tæpa 5,8 milljarða um síðustu áramót. Þetta er 70% hærri fjárhæð en sem nemur bókfærðu eigin fé bankans um mitt þetta ár. MP Banki er stærsta sjálfstæða fjármálastofnun landsins sem hefur ekki þurft á ríkisaðstoð að halda.
Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að " ... eftir fall bankanna þriggja hefur MP Banki ekki átt kost á gjaldeyrisvörnum til leiðréttingar á gjaldmiðlaáhættu sinni." Bankinn greiddi upp öll útlán sín hjá erlendum aðilum að fullu á fyrri hluta ársins og tekur nú ekki við erlendum innlánum.
Margeir Pétursson er læsari á fjármálamarkaðinn en flestir aðrir og muna margir eftir því þegar hann kom fram í sjónvarpsþætti Markaðarins snemma á árinu og skoraði á lántakendur erlendra lána að greiða þau niður. Burtséð frá því hljóta menn að velta vöngum yfir þessari stöðu MP banka sem minnir óneitanlega á stöðutöku viðskiptabankanna gegn krónunni á sínum tíma. Forsvarsmenn MP veðja greinilega á frekari veikingu krónunnar.
5.8.2009 | 17:43
Skattkerfið fitnar
Nýjar innheimtuaðgerðir hins opinbera á fjármagnstekjuskatti er ágætt dæmi um hvernig einfaldir hlutir verða skyndilega flóknir. Hér áður var einn gjalddagi á ári af skatti af vöxtum og arði en nú eru greiðsludagar orðnir ársfjórðungslega eftir að fjármagnstekjuskattur (af tekjum yfir 250 þúsund kr.) var hækkaður um helming frá og með 1. júlí.
Um gjalddaga segir í leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra: "Greiðslutímabil skatt skal vera þrír mánuðir. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og er eindagi 15 dögum síðar. Gjalddagi fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2009 er 20. júlí sama ár og eindagi 15 dögum síðar."
Þótt breyttar innheimtuaðgerðir bæti lausafjárstöðu hins opinbera er óvíst hvort þær teljist umhverfisvænar eða kalli á minni kostnað fyrir hið opinbera og skilaskylda aðila. Pappírsmagn eykst því allir lögaðilar fá nú fjórar póstsendingar á ári með skilagreinum vegna staðgreiðslu á vöxtum og arði í stað einnar áður. Eflaust fjölgar líka blýantanögurunum hjá hinu opinbera, enda hlýtur þetta að kalla á meira utanumhald. Þá hlýtur að þurfa að uppfæra tölvukerfi með tilheyrandi kostnaði.
Fyrir fyrirtækin, einkum fjármálafyrirtækin, aukast skýrsluskilin enn frekar og hefðu margir talið nóg að halda utan um virðisaukaskattinn annan hvern mánuð og mánaðarleg skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi. Það að breyta innheimtuaðgerðum og hækka skattprósentu og tryggingagjald innan almanaksársins veldur ruglingi, tekur tíma frá stjórnendum fyrirtækja og eykur kostnað á tímum þegar allt er að skreppa saman.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2009 | 21:06
Yfirtökutilboð í uppnámi?
Ósætti er meðal hluthafa í Alfesca með yfirtökutilboð í félagið. IFS greining telur að virði hvers hlutar í Alfesca sé 8,0 krónur á hlut eða 77,8% hærra en yfirtökutilboð Lur Berri, Ólafs Ólafssonar ofl. upp á 4,5 krónur á hlut hljóðar. Kemur því kannski ekki á óvart að hluthafar sem ráða yfir 11% hlut skuli kalla eftir hluthafafund til þess að ræða tilboðið og mögulega verja hagsmuni sína. Gríðarlegur munur er á annars vegar á mati tilboðsgjafa og Saga Capital og hins vegar verðmati IFS.
Í þessu sambandi er einnig vert að Saga Capital Fjárfestingarbanki var fengið til að leggja hlutlaust mat á tilboðsverðið og komst að þeirri niðurstöðu að 4,5 krónur væri sanngjarnt. Í greinargerð Saga segir: "Fyrirtækjaráðgjöf Saga Capital telur að tilboðsgengið 4,5 kr. á hlut fyrir hluti í Alfesca hf. sé sanngjarnt fyrir hluthafa Alfesca hf., sér í lagi ef litið er á kennitölur sambærilegra fyrirtækja á markaði og núvirt sjóðstreymi. Einnig er tekið er mið af erfiðum aðstæðum á íslenskum fjármálamarkaði og horft er til yfirtökutilboða á Íslandi undanfarin ár."
Mikil viðskipti voru með bréf Alfesca í dag og var hagstæða sölugengi við lokun markaða sex krónur á hlut.
![]() |
Gildistími yfirtökutilboðs framlengdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2009 | 09:05
Vítahringur skattheimtu
Nú stefnir allt í að nefskatturinn gefi meira af sér en áætlanir gerðu ráð fyrir. Enda er það varla flókið þegar fjöldi lögaðila bætist við þá 187 þúsund einstaklinga sem er gert að greiða þetta gjald. Ég veit ekki af hverju að lögaðilar greiða þetta gjald, af hverju greiða sömu aðilar ekki líka (eða frekar) til Framkvæmdasjóðs aldraða?
En skoðum samband margra greiðenda útvarpsgjalds, RÚV og STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. Verslun spilar tónlist. Fyrirtækinu er gert skylt að greiða 17.200 krónur í útvarpsgjald til RÚV. Ríkisútvarpið þarf að greiða STEF ákveðna fjárhæð fyrir að spila tónlist opinberlega. En STEF lætur ekki þar við sitja og rukkar verslunina fyrir að spila efni RÚV og annarra útvarpsstöðva opinberlega.
Sem sagt: STEF rukkar fyrirtæki, sem hefur greitt útvarpsgjald til að kosta rekstur RÚV, um STEF-gjöld fyrir tónlist sem það hefur líka rukkað RÚV fyrir.
![]() |
Pappírsfélögin greiða líka útvarpsgjald til ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2009 | 20:38
Stefna víkingar á Austurvöll?
Getur verið að íslenskir fjölmiðlar séu að fara fram úr sér þessa dagana? Útrásarvíkingar koma fram úr skúmaskotum og mótmæla hástöfum þeim ávirðingum sem á þá eru bornar. Miðað við að þeir hafi látið allt yfir sig ganga hingað til er ég farinn að hallast að því að heimildarmenn fjölmiðla séu ekki allir þar sem þeir eru "séðir". Hvernig er hægt að trúa því að Karl Wernersson sé að ljúga þegar maður sér mynd sem þessa?
Sem gamall blaðamaður trúi ég því varla að sá gríðarlegi leki af upplýsingum um hrunið og afleiðingar þess sé aðallega komin til vegna þess að einhverjir telji það skyldu sínu að koma upplýsingum á framfæri í þágu almennings. Er siðferði okkar komið á það stig? Liggja ekki einhver önnur sjónarmið að baki?
![]() |
Yfirlýsing frá Karli Wernerssyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.7.2009 | 08:41
Þjóð í höftum
Dow Jones vísitalan rauf níu þúsund stiga múrinn í síðustu viku í fyrsta skipti frá því í janúar. Frá byrjun síðasta mánaðar hafði vísitalan hækkað hvorki meira né minna en um 7,5% - sem ætti að minna á bólueinkenni. Enda virðast þau stórfyrirtæki sem mynda vísitöluna ekki vera sérlega ódýr kostur. Bjartsýnin er mikil á Wall Street en helst hún lengi?
Á sama tíma og erlendir hlutabréfamarkaðir hafa verið á mikilli siglingu undanfarna mánuði sitjum við Íslendingar fastir í gjaldeyrishöftum þar sem fjármagnsflutningar eru stórlega heftir. Íslendingum er nær undantekningarlaust óheimilt eiga viðskipti með erlend hlutabréf nema ef fjármunir "dvelja" erlendis. Innlendur skuldabréfamarkaður nú eða bankabókin, sem gefur verr af sér en áður, eru einu kostir okkar. Íslands óhamingju verður allt að vopni - líka fyrir þá útvöldu sem eiga peninga á lausu.
![]() |
Hækkun enn einn daginn á Wall Street |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2009 | 15:28
Drobny-hákarlar fagna
Hin alræmdu samtök alþjóðlegra vogunarsjóða, Drobny-klúbburinn, héldu árshátíð á Íslandi árið 2006. Þar fögnuðu menn þeim góða árangri sem hafði náðst með því að taka stöður gegn krónunni á vormánuðum sama ár og heiðruðu aðalhagfræðing Seðlabankans.
Á heimasíðu Drobny má finna ótrúlega myndasýningu frá Íslandsdvöl sannkallaðra hákarla fjármálaheimsins, þar sem allir eru glaðir og reifir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2009 | 20:10
Vaxtamunurinn eykst líka hérlendis
Íslensku bankarnir hafa farið sömu leið og breskir bankar og aukið vaxtamuninn, þ.e. muninn á útláns- og innlánsvöxtum. Leiðin er þó ekki sú sama því eins og allir vita hafa útlánavextir banka og sparisjóða lækkað töluvert umfram stýrivaxtalækkanir Seðlabankans. Hvernig hafa þá íslensku bankarnir aukið vaxtamuninn? Jú, með því að keyra innlánsvexti mun hraðar niður en útlánsvextina. Það eru sparifjáreigendur, s.s. gamla fólkið og börn, sem eru barðir í spað þessa dagana - ekki bara af bönkunum heldur einnig ríkinu sem hefur hækkað fjármagnstekjuskatt um 50%.
Ég hjó til dæmis eftir því að NBI barði sér á brjóst í síðustu viku þegar hann auglýsti að útlánsvextir hefðu lækkað um tvö prósentustig og sýndi hvernig vaxtalækkanir hefðu átt sér stað. Hins vegar fór lítið fyrir því að bankinn lækkaði innlánsvexti um allt að 2,5 prósentustig. Verðtryggðir útlánsvextir lækkuðu um eitt prósentustig en það gerðu verðtryggðir innlánsvextir líka. Hlutfallsleg lækkun innlánsvaxta var því eflaust í flestum tilvika miklu meiri en lækkun útlánsvaxta.
"Það hefur verið stefna Landsbankans að leiða vaxtalækkun í landinu og styðja við markmið stjórnvalda og Seðlabanka um efnahagslegan stöðugleika og létta greiðslubyrði lántakenda," sagði bankinn svo snoturlega.
Það sér hver heilvita maður að bankarnir eru reknir með bullandi tapi þessa dagana og þá er ein leið sú að auka vaxtamuninn.
![]() |
Darling varar við vaxtaokri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)