Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
26.7.2009 | 10:58
Umskipti hjá Nýherja
Nýherji hefur í gegnum tíðina verið fyrirmynd annarra fyrirtækja. Styrkur félagsins lá í fjárhagslegum styrk með háu eiginfjárhlutfalli sem gaf því kost að umbuna hluthöfum sínum með reglulegum arðgreiðslum. Nú er staðan allt önnur. Eiginfjárhlutfallið er komið niður í 20% (sem ætti þó að þykja gott á íslenskan mælikvarða) og skuldir eru að sliga fyrirtækið. Stjórnendur félagsins eru eflaust hugsi yfir fleiri þáttum.
Viðskiptavild Nýherjasamstæðunnar nemur um fjórum milljörðum króna eða um 40% af heildareignum félagsins. Hún er að mestu leyti tilkomin vegna kaupa Nýherja á TM Software sem gengu í gegn skömmu eftir að eignaverð hafði náð hámarki. Meira að segja íhaldssamir rekstrarmenn urðu eignabólunni að bráð. Fram kemur í reikningum Nýherja að viðskiptavild hafi verið færð niður um 180 milljónir króna en á móti kemur hækkun vegna veikingar krónunnar.
Annað sem ætti að valda stjórnendum Nýherja áhyggjum er lágt veltufjárhlutfall sem er komið niður í 0,72. Þetta þýðir einfaldlega að félagið mun að öllu óbreyttu varla geta staðið við skuldbindingar sínar næstu tólf mánuði. Skammtímaskuldir eru of háar, nærri 5,4 milljarðar. Þessi staða hlýtur að vera óásættanleg hjá fyrirtæki sem Nýherja.
![]() |
Nýherji skilar 90 milljóna hagnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.7.2009 | 14:16
FME finnur fé
Á dögunum var benti undirritaður bloggari á ósamræmi sem var í samantekt FME á arðgreiðslum tryggingafélaga 2006-2008 og ársskýrslu VÍS. Í tilkynningu FME kom fram að TM hefði eitt tryggingarfélaga greitt út arð fyrir árið 2007, þótt ársreikningur VÍS hefði bent til þess að brúttóarðgreiðsla til eigenda hefði numið 1,8 milljörðum króna.
Nú hefur stofnunin leiðrétt sig. Tvö félög, TM og VÍS, greiddu sem sagt út arð vegna ársins 2007 en ekki eitt.
24.7.2009 | 12:39
Orðfæri ungdómsins
Kreppuástandið hefur margvísleg áhrif á samfélagið. Ég velti því til dæmis fyrir hvaða áhrif kreppan hafa á hugsun og skynjun barna, sem eiga eftir að glíma við það verðuga verkefni að hreinsa upp skuldir feðranna.
Sonur minn, fimm ára, velti því fyrir sér af hverju alltaf væri verið að tala um kröfuhafa? Hann sagðist vera búinn að fá nóg af þessu orði og langaði helst til að kasta sjónvarpinu fram á gang en á sama tíma ræddi þingheimur um ríkisvæðingu bankakerfisins.
Útrásarvíkingar, kröfuhafar, þrotabú, skilanefndir, IceSave o.s.frv. eru hluti af orðabók ungu kynslóðarinnar. Ég minnist þó ekki að mikið hafi verið talað um kvótakerfi og verðtryggingu í verðbólgubálinu á mínum bernskuárum.
23.7.2009 | 12:29
Samkvæmt heimildum ...
Það hefur færst ískyggilega í vöxt að fjölmiðlar beri fyrir sig heimildamenn til þess að gefa fréttum trúverðuglegan blæ. Sérstaklega finnst mér ljósvakamiðlarnir nota þessa aðferð meira en góðu hófi gegnir. Slík vinnubrögð ættu auðvitað að vera neyðarúrræði ef ekki gengur að fá heimildarmann til þess að koma fram undir nafni.
RÚV gengur að mínu viti oft fullgangt í að bera fyrir sig "samkvæmt heimildum" til þess að búa til góðar fréttir. Í morgun fjallaði fréttastofan um ástandið á atvinnumarkaði og sagði m.a.
" ... Um 16.500 manns eru á atvinnuleysisskrá en fimmtungur þeirra er þó í hlutastarfi á móti bótum. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Vinnumálastofnun hafi upp á síðkastið þurft í auknum mæli að taka fólk út af atvinnuleysisskrá vegna þess að það hafi hafnað atvinnutilboðum."
Þetta eru mjög einkennileg vinnubrögð af hálfu fréttastofu RÚV því í Fréttablaðinu í gær gat að líta svipaða frétt um bótasvik þar sem blaðamaður hafði það beint eftir Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, að stofnunin hefði " ... brugðist við í mörgum tilvikum. Til dæmis með því að taka fólk af greiðsluskrá atvinnutrygginga, en töluverða úrvinnslu þarf í hvert mál, að sögn Gissurar."
RÚV hefði verið í lófalagið að vísa í frétt FBL máli sínu til stuðnings, en vísar í staðinn til heimildamanna. Slæleg vinnubrögð af hálfu ríkisfjölmiðilsins.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2009 | 12:03
FME og dularfulli arðurinn
FME hefur séð sig knúið til að svara fréttaflutningi fjölmiðla um arðgreiðslur tryggingafélaga. Stofnunin segir að TM hafi verið eina tryggingafélagið sem greiddi út arð vegna ársins 2007. Þessi fullyrðing kemur ekki heim og saman við ársreikning VÍS fyrir árið 2008. Þegar eiginfjárreikningur VÍS er skoðaðir kemur í bersýnilega ljós að félagið greiddi út tæpa 1,8 milljarða króna í arð vegna ársins 2007. Jafnframt var einn milljarður króna greiddur inn sem nýtt hlutafé.
Þarna stangast á fullyrðingar FME og ársskýrsla VÍS. Hvað varð um þennan arð í gögnum FME?
![]() |
Enginn arður greiddur vegna 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2009 | 11:13
Misvel farið með tryggingafélögin
VÍS greiddi eigendum sínum arð upp á 1,8 milljarða króna árið 2008, um 17,6% af eigin fé í árslok 2007, en á sama rekstrarári nam innborgað hlutafé einum milljarði króna sem virðist hafa verið greitt á genginu einum. Nettóáhrifin fyrir Existu námu því 800 milljónum króna.
TM greiddi út 999 milljónir króna í arð vegna ársins 2007, eða 3,9% af eigin fé í árslok 2007. Staða TM versnaði umtalsvert á síðasta ári en félagið tapaði þá 17,6 milljörðum króna sem mestu verður rakið til sölunnar á Nemi í Noregi. Eiginfjárstaðan var komin niður í 10,8 milljarða.
Himinn og haf skildu að rekstur VÍS og Sjóvá í fyrra. VÍS hagnaðist um 240 milljónir króna en Sjóvá tapaði tæpum 30 milljörðum króna.
Það getur því varla verið óeðlilegt að stjórnendur VÍS séu ekki par sáttir við björgunaraðgerðir ríkisins á Sjóvá. Þeir sem sýndu fyrirhyggju og ábyrgð er refsað eins og svo oft áður.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.7.2009 | 20:27
Varasöm tilkynning skilanefndar
Samkvæmt fréttatilkynningu frá skilanefnd Glitnis segir að vátryggingahluti Sjóvár hafi gengið vel á síðasta ári þrátt fyrir að samsetta hlutfall tjóna- og rekstrarkostnaðar á móti iðgjöldum hafi verið 100%! Ég held að enginn geti tekið undir það að tryggingarekstur teljist góður þegar hlutfallið er yfir 100% mörg ár í röð. Til samanburðar hafa tryggingafélag á Norðurlöndum sýnt um 90% hlutfall, sbr. Storebrand og Sampo Group.
Að vísu er ljóst að Sjóvá kemur betur út í samanburði við TM og VÍS þar sem samsetta hlutfallið var 127% hjá TM og 112% hjá VÍS. Á móti skilaði TM, sem er í eigu FL Group, örlítið skárri rekstrarniðurstöðu eða 17,7 milljarða króna tapi. VÍS, sem er í eigu Existu, var hins vegar rekið með 240 milljóna króna hagnaði.
Það er einkennilegt að skilanefnd Glitnis skuli bera svona fullyrðingar á borð. Rekstur íslenskra tryggingafélaga hefur alls ekki verið góður þegar horft er á vátryggingastarfsemina. Fjárfestingastarfsemin hefur verið að greiða niður tryggingahlutann í gegnum árin - hvort sem mönnum (neytendum) líkar það betur eða verr.
![]() |
Sjóvá tapaði 30 milljörðum króna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 12:23
Skuldabréf Kaupþings rjúka upp
Skuldabréf í gamla Kaupþingi hafa verið að rjúka upp samkvæmt frétt sem birtist á vb.is, vef Viðskiptablaðsins. Þar kemur fram að lengi vel var hægt að kaupa bréf á 3-4 sent á dollarann en nú hefur verið farið upp í 14-15 sent eða um 85% afslætti. Ástæðan er væntanlega líkleg yfirtaka erlendra kröfuhafa á Kaupþingi, sem væntanlega verður kynnt í vikunni.
Fram hefur komið að meðal kaupenda skuldabréfanna er Deutsche Bank og þá hafa erlendir vogunarsjóðir, sem einmitt veðjuðu á fall íslensku bankanna, keypt skuldabréf Kaupþings grimmt. Ljóst er að þessir fjárfestar gætu grætt verulega á yfirtöku kröfuhafa.
Fyrir nokkrum vikum mælti viðskiptaráðherra sterklega gegn því að íslenska ríkið keypti skuldabréf bankanna á þeim forsendum að íslenska ríkið ætti ekki að taka þátt í slíkum áhættufjárfestingum.
15.7.2009 | 08:31
Afskriftir verði opinberaðar
Finnur Sveinbjörnsson fer ótroðnar slóðir og svarar spurningum bloggarans Agnars Þorsteinssonar á bloggi hans. Mér finnst þetta gott framtak hjá Finni og ekki síður svörin sem benda til þess að eitthvað líf sé í bankakerfinu. Nýja-Kaupþing hefur nefnilega í hyggju að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja með sértækum aðgerðum. Það er nefnilega meira en stjórnvöld ætla sér að gera með því að leggja undir sig Gallia Belgica á meðan Rómarborg brennur.
Finnur segir m.a. í svari sínu: " ... Þegar kemur að stærri fyrirtækjum, sem eru of skuldsett en lífvænleg, þá mun bankinn í einhverjum tilvikum leysa fyrirtækin til sín og fyrri eigendur tapa öllu sínu áður en bankinn afskrifar skuldir. En sama nálgun gengur ekki þegar kemur að smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í þeim tilvikum veltur starfsemin oftar en ekki á eigandanum og það er algerlega óraunhæft fyrir reksturinn að bankann krefjist þess að þeir hverfi úr starfi.. En það þarf að lækka skuldabyrðina að öðrum kosti fara fyrirtækin í þrot. Og með fjöldagjaldþroti fyrirtækja kemur enn meira atvinnuleysi og viðvarandi efnahagskreppa. Því verður að afskrifa skuldir, svo einfalt er það."
Leið Kaupþings gengur m.a. út á það að hjá skuldsettum fasteignaeigendum verði íbúðalán færð niður í 110% af mati sem væntanlega yrði miðað við fasteignamat.
Hitt er svo annað mál að afskriftir sem þessar mun fara misvel í landslýð. Ég teldi réttast að Kaupþing ætti að ýta til hliðar bankaleynd og birta opinberlega nöfn þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem fá afskriftir sem þessar rétt eins og gert er við þá einstaklinga sem leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Það væri til marks um það gegnsæi og þá upplýsingagjöf sem allir kalla eftir frá nýju bönkunum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 21:57
Smjörklípuaðferðin
Valitor grípur til aðferðar sem beitt hefur verið í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum með góðum árangri og kallast smjörklípuaðferðin, þ.e. að snúa vörn í sókn með því að benda á eitthvað annað. Til þess að rifja upp skammtímaminni lesenda þá var einmitt gerð húsleit í höfuðstöðvum Valitors í byrjun mánaðarins að undirlagi Borgunar. Valitor var enn og aftur gefið að sök að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu.
Í ársbyrjun 2008 féllust Greiðslumiðlun (Valitor), Kreditkort (Borgun) og Fjölgreiðslumiðlun á að hafa brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga og greiddu samanlagt 735 milljónir kr. í stjórnvaldssektir. Viðurkenndu fyrirtækin að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu með aðgerðum sem beindust gagnvart Kortaþjónustunni. Greiðslumiðlun greiddi þar af 385 milljónir króna.
Ætli þessar 735 milljónir hafi dugað til að bæta upp það tjón sem fyrirtæki og neytendur urðu fyrir með hærri kortagjöldum og hærra vöruverði?
![]() |
Segja Kortaþjónustuna iðna við kvartanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)