Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
13.7.2009 | 12:04
Skjótið varðhundana
Fjármálaeftirlitið hefur til rannsóknar mál fjögurra blaðamanna, Agnesar Bragadóttur, Egils Helgasonar, Kristins Hrafnssonar og Þorbjörns Þórðarsonar, sem hugsanlega hafa gerst brotleg við lög um fjármálafyrirtæki. Agnes og Þorbjörn eru m.a. sökuð um að hafa brotið bankaleynd með því að birta upplýsingar úr lánabókum GLB og KAUP.
Það þarf ekki einu sinni leikmann til þess að átta sig á því að lög um fjármálafyrirtæki hafa verið sveigð og beygð með illilegum hætti á undanförnum árum. Þarf ekki nema að benda á þær greinar sem snúa að ábyrgð stjórnarmanna, starfsmanna og endurskoðenda.
Íslenskir fjölmiðlar hafa verið sprækir eftir bankahrunið og birt upplýsingar um ýmsa þætti þess í þágu almannahagsmuna. Upplýsingar leka greinilega til fjölmiðla úr öllum áttum, stjórnendum bankanna til mikillar armæðu og virðist sem að rannsókn FME á málefnum blaðamannanna sé að einhverju leyti tilkomin vegna þrýstings frá bönkunum. Bankamenn sem ég tala við gráta enn yfir örlögum sínum og eru fljótir að benda á fjölmiðla sem sökudólga. Þeir stóðu ekki vaktina og birta nú villandi upplýsingar úr gömlu og nýju bönkunum.
Það kæmi mér svo sem ekkert á óvart að fyrsta fólkið, sem yrði varpað í fangelsi vegna bankahrunsins, væru blaðamenn, sem voru að veita almenningi upplýsingar, en ekki eigendur banka, forstjórar og bankastjórar, stjórnmálamenn, endurskoðendur, forsvarsmenn lífeyrissjóða, höfundar peningamálastefnunnar og yfirmenn FME - svo ekki sé minnst á þátt ráðuneytisstjórann Baldurs Guðlaugssonar sem seldi bréfin sín í krafti innherjaupplýsinga eða Gordon Brown sem tók Kaupþing niður.
Ekki veit ég t.d. að dönsku blaðamennirnir, sem voru mataðir af upplýsingum frá skandinavískum bönkum, sem sáu ofsjónum sínum yfir velgengni íslenskra banka, hafi þurft að sæta viðlíka rannsókn frá FME. Enda voru dönsku blaðamennirnir afgreiddir sem vitleysingar af íslensku viðskiptalífi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2009 | 11:22
Klikkuð útsala
Útsölurnar í IKEA eru víðfrægar - ekki bara fyrir gott verð. Það getur borgað sig að skoða verðmiðann áður en fest er kaup á þessu sængur- og koddaveri: http://ikea.is/categories/56/categories/244/products/7796
10.7.2009 | 21:42
Dulbúin vaxtalækkun
Það er ekki bara hlutabréfamarkaðurinn sem hefur hrunið eftir bankahrunið. Samkvæmt Hagsjá Landsbankans er millibankamarkaður nánast horfin. Þannig var engin velta á millibankamarkaði í júnímánuði en bankar fara nú með öll sín krónuviðskipti í gegnum Seðlabankann.
Á sama tíma hafa vextir á millibankamarkaði nálgast innlánsvexti Seðlabankans en fyrir bankahrun fylgdu þeir stýrivöxtum SÍ. Á sama tíma og stýrivextirnir hafa lækkað um 6% á undanförnum mánuðum hafa innlánsvextirnir, eða hinir "eiginlegu stýrivextir kerfisins" eins og greiningardeildin kallar þá, lækkað um 8%. Því hefur átt sér stað dulbúinn vaxtalækkun. Vextir hafa því lækkað meira en margir hafa viljað láta í veðri vaka, þar á meðal hagsmunasamtök atvinnurekenda, og ætti það auðvitað að hjálpa skuldsettri þjóð úr sínum vanda.
9.7.2009 | 18:17
Tóku fjóra milljarða í arð
Krafa Björgólfsfeðga um að Kaupþing gefi eftir þrjá milljarða króna vegna fjármögnunar á kaupum þeirra á Landsbankanum hefur vakið gríðarleg hörð viðbrögð í samfélaginu, svo hörð að formaður Samtaka fjárfesta varar við borgarastyrjöld.
Samson eignarhaldsfélag, sem fór með kjölfestuhlut í Landsbankanum, fékk rúma 4,2 milljarða króna í arð frá bankanum á árunum 2003-2007, eða ríflega þriðjung af kaupverði 45% hlutar af ríkinu. Arðgreiðslur dugðu því einar og sér ekki til að greiða kaupverðið.
Arðgreiðslustefna Landsbankans var fremur hófleg og reyndar var enginn arður greiddur út vegna ársins 2007 þrátt fyrir að bankinn hefði skilað nærri 40 milljarða króna hagnaði. Sú ákvörðun hefur eflaust verið til marks um það að menn sáu fram á erfiða tíð og vildu ógjarnan ganga á lausaféð. Hluthafar bankans sáu verðmætaaukningu fyrst og fremst í gegnum gengishækkun hlutabréfa sem eru verðlaus í dag.
![]() |
Dýrt fyrir ríkið að selja banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2009 | 09:10
Enn skal þjóðnýta
Þegar sparisjóðirnir BYR og Sparisjóðurinn í Keflavík fóru út í mikla aukningu stofnfjár á árinu 2007 fjármögnuðu gömlu viðskiptabankarnir Glitnir og Landsbankinn að stórum hluta stofnfjáreigendur sparisjóðanna með handveði í bréfunum. Nú standa nýju ríkisbankarnir frammi fyrir þeim vanda að veðin hafa fallið verulega í virði en lánin eru hins vegar orðin það mikil byrði á lántakendum að þeir munu líklega ekki geta staðið í skilum.
Það er ekkert launungarmál að Glitnir, og nú Íslandsbanki, hefur lengi horft girndaraugum til Byrs og nánast talið hann vera deild innan bankans. Allt var lagt í sölurnar að bjarga vanfjármagna Glitni með því að renna innlánsbankanum Byr inn í hann. Og nú gæti bankinn hæglega farið langt yfir leyfilegan eignarhlut í Byr kysi hann að leysa til sín stofnfjárbréf. Það að sameina Íslandsbanka og Byr væri hins vegnar enn ein aðgerð stjórnvalda í þjóðnýtingu fjármálakerfisins hérlendis, þ.e. að renna sparisjóðakerfinu inn í ríkisbankana sem er í mótsögn við fyrri yfirlýsingar sumra ráðherra um að verja eigi sparisjóðina. Ég efast einnig um að stofnfjáreigendur í Byr, viðskiptavinir og starfsmenn séu þeirrar skoðunar um að Byr eigi að renna inn í Íslandsbanka.
![]() |
Mögulegt að Byr og SPKef renni inn í ríkisbankana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.7.2009 | 20:54
Banki tekur á sig mannlega mynd
Mikið hlýtur Íslandsvinurinn Mike Ashley, eigandi Newcastle Utd. sem var fjármagnaður af Kaupthing Singer & Friedlander, að vera ánægður að vera búinn að fá tvö tilboð í þetta fornfræga lið. Samkvæmt frétt DV er hinn rótgróni fjárfestingarbanki Seymour Price orðinn stjórnarmaður í Newcastle Utd. En ætli Ashley geri upp við skilanefnd Kaupþings að fullu?

Newcastle-menn gætu fengið nýja eiganda í vikunni. Mynd AFP.
Mike Ashley, eigandi Newcastle, gæti loks losnað við klúbbinn í vikunni en tvö tilboð upp á 100 milljónir punda hafa borist í félagið sem féll úr úrvalsdeildinni í vor. Áður höfðu fjögur boð upp á það sem talið er vera um 60 milljónir borist en Ashley var ákveðinn að selja á ekki minna en 100 milljónir punda.
Seymour Price, stjórnarmaður hjá Newcastle sem ætlað var að finna kaupendur, opinberaði þetta en eitt boðanna upp á 60 milljónir punda var frá fyrrum stjórnarformanninum, Freddie Shepherd.
Hann mun í vikunni meta bæði nýju boðin og gefa Mike Ashley sitt mat á þeim sem vilja kaupa klúbbinn. Eins og staðan er erum við að meta þetta með lögfræðingum okkar og hjálpa þeim sem hafa áhuga á félaginu eins mikið og við getum að afla sér upplýsinga
3.7.2009 | 16:12
Innovate og fleiri vond fyrirtæki
Aðeins ári eftir að Eimskip eignaðist Innovate afskrifaði það 74 milljónir evra þegar ljóst var að rekstur Innovate stóð ekki undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar.
En Innovate var ekki eina fyrirtækið sem tengdist Eimskip beint eða óbeint sem fór flatt. Fortíðardraugurinn XL Leisure Group fór í gjaldþrot og féll þá 207 milljóna evra ábyrgð á félagið eftir að Samson gat ekki komið til bjargar. Hollenska frystigeymslufyrirtækið Daalimpex fór svo í þrot snemma á þessu ári þar sem Eimskip gat ekki endurfjármagnað það.
![]() |
Vissi af vandamálum Innovate haustið 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.7.2009 | 20:15
Hagar fela reikningana
Verslanasamsteypan Hagar hefur fylgt í fótspor fjölda fyrirtækja, sem eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands, með því að birta ekki opinberlega ársreikning fyrir síðasta rekstrarár. Hagar vísa þar til undanþáguákvæða í 7. kafla verðbréfaviðskiptalaganna þar sem segir að útgefendur skuldabréfa geti að vissum skilyrðum uppfylltum komist hjá því að birta tölur sínar opinberlega.
Munurinn á Högum og þeim fyrirtækjum, sem hafa farið sömu leið í þessum efnum, er sá að rekstur Haga stendur traustum fótum að sögn forsvarsmanna félagsins - öfugt við hin félögin sem standa á heljarþröm.
Það er undarlegt að mínu mati að fyrirtæki, sem hafa í gegnum tíðina birt reikninga sína í Kauphöllinni, skuli nú leita allra leiða til að forðast opinbera birtingu. Þetta dregur klárlega úr gegnsæi í samfélaginu og veikir stöðu margra fjárfesta, t.d. þeirra sem eiga þessi fyrirtækjaskuldabréf. Hagar eru, í mínum huga, ekkert venjulegt fyrirtæki. Félagið ræður lögum og lofum á matvörumarkaði og býr einnig við sterka stöðu á sérvörumarkaði. Það er eðlilegt að almenningur geti áttað sig á stöðu fyrirtækisins, ekki síst þegar hefð hefur myndast fyrir birtingu reikninga félagsins.
Hagar verða að öllum líkindum beittir févíti af Kauphöllinni eins og hin fyrirtækin, þar á meðal Atorka Group, FL Group og Exista. Hagamenn ættu hins vegar að vera orðnir vanir að greiða sektir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 12:22
En hvað með tryggingagjaldið?
Þann 1. júlí hækkaði tryggingagjald úr 5,34% í 7,0%. Hækkunin nemur 31% og leggst af fullum þunga á fyrirtækin í landinu. Markmiðið er m.a. að bæta stöðu atvinnuleysistryggingasjóðs en á móti er varla hægt að ætla annað en að fyrirtæki reyni með öllum tiltækum ráðum að draga úr launakostnaði.
Hagdeild Landsbankans telur að hækkun trygggingagjald muni auka tekjur ríkissjóðs verulega, eða um 12,5 milljarða. Til samanburðar gæti hækkun kolefnisgjald skilað ríkissjóði um 7,7 milljörðum króna, að sögn hagdeildarinnar.
Það vekur athygli mína að SA, heildarsamtök atvinnulífsins, hefur lítið sem ekkert tjáð sig um þessa hækkun. Þar á bæ hafa menn meiri áhyggjur af kolefnis- og sykursköttum! Hafa forystumenn SA engar áhyggjur af hækkun tryggingagjalds sem mun að öllu óbreyttu hækka launakostnað fyrirtækja umtalsvert?
![]() |
SA: Tillögur fjármálaráðuneytisins vanhugsaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.7.2009 | 17:38
Eignir urðu að dufti
Sá mikli bruni sem hefur orðið á eignum Eimskipafélagsins er með ólíkindum og einstakur þegar horft er til íslenskra rekstrarfyrirtækja. Á innan við einu ári hefur viðskipavild verið færð niður um 277 milljónir evra, eða um 50 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag. Annars vegar færði félagið eignarhlut sinn í Versacold Atlas niður um 177 milljónir evra (c.a. 31,5 milljarð króna) á síðasta rekstrarfjórðungi. Salan í Versacold hefur nú loksins gengið í gegn að hluta. Hins vegar nam virðisrýrnun eignasafnsins um 100 milljónum evra á 4. ársfjórðungi síðasta rekstrarárs.
Á einu og hálfu rekstrari, frá 1. nóvember árið 2007 til 30. apríl 2009, nam heildartap Eimskipafélagsins rúmum 900 milljónum evra, jafnvirði 162 milljarða króna. Þetta gera um 300 milljónir króna á degi hverjum. Fjárfestingar félagsins í kæligeymslubransanum og fortíðardraugar frá Avion Group reyndust félaginu dýrkeyptar.
... Gríðarleg skuldsetning félagsins reyndist óviðráðanleg. Sú staða er afleiðing nokkurra
illa ígrundaðra fyrirtækjakaupa erlendis og þeirri staðreynd að háar ábyrgðir féllu
á félagið ... sagði í fréttatilkynningu frá félaginu í gær.
![]() |
Eimskip óskar eftir afskráningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 2.7.2009 kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)