Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Óþekkt fyrirbæri á Íslandi

Þótt ótrúlegt megi virðast hefur enginn dómur fallið um innherjasvik á Íslandi eftir því sem ég best veit; hvorki í netbólubrjálæðinu um síðustu aldamót né í aðdraganda bankahrunsins og falli íslenska hlutabréfamarkaðaðarins. Eins og einhver orðaði þetta svo skemmtilega þá hefur þyngsti dómur um innherjasvik hingað til verið sýkna í héraði. Það var í svokölluðu Skeljungsmáli nr. 601/2001 þar sem stjórnarmanni var gefið að sök að hafa nýtt sér trúnaðarupplýsingar til að hagnast persónulega. Í kjölfarið var lögum um verðbréfaviðskipti breytt.
mbl.is Sjö ár fyrir innherjasvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningastefna upp á punt

Það var síðast í maí árið 2004 sem Seðlabankinn náði verðbólgumarkmiðum sínum. Eitt af grunnmarkmiðum peningamálastefnunnar hefur því ekki náðst í rúm fimm ár og fátt bendir til þess að verðbólga - þótt hún fari lækkandi - verði komin á þann stað sem að er stefnt. Auðvitað sjá það allir að núverandi peningastefna er og hefur verið gagnslaus; knattspyrnuþjálfari fær ekki fimm ár til að ná markmiðum sínum og verðbólgan er enn allt of há.

Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Már að vextir hefðu þurft að vera hærri á árunum 2006 og 2007 og skynsamlegt hefði verið að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn. Háir vextir voru auðvitað súrefnið fyrir jöklabréfaútgáfuna og miðað við það hvað gerðist hefði sennilega flæði erlends fjármagns aukist enn frekar með hærri vöxtum. 


mbl.is Eftirlit með gjaldeyri hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær sat Margrét í stjórn Kaupþings?

Ég minnist þess ekki að Margrét Kristmannsdóttir hafi nokkurn tíma átt sæti í stjórn Kaupþings eins og haldið er fram í þessari frétt mbl.is (sem verður væntanlega leiðrétt). Athugun FME beinist að því hvort Brynja Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Norvik og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi, sé hæf til setu í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Margrét situr ekki einu sinn í stjórn lífeyrissjóðsins!

Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til vefmiðlanna að þeir fari rétt með helstu staðreyndir. Mbl. hefur það þó á hreinu að Margrét fer með formennsku í SVÞ.

Svo er það annað mál hvort fulltrúar verkalýðshreyfinga séu hæfari stjórnarmenn í lífeyrissjóðum en fulltrúar atvinnurekenda. Væri ekki best að sjóðsfélagar kysu sína fulltrúa sjálfir með beinum hætti?


mbl.is FME enn að skoða hæfi stjórnarmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtaka Eyrisfeðgar leikinn?

Útnefningar viðskiptablaðanna á viðskiptafrömuðum ársins hafa oftar en ekki vakið hlátur í ljósi sögunnar þannig að blaðamenn og dómnefndir hafa orðið að læðast með veggjum. Björgólfur Thor, Hannes Þór og Jón Ásgeir hafa allir brotlent harkalega og skilið eftir sig sviðna jörð. Hins vegar gæti farið svo að útnefning Viðskiptablaðsins á viðskiptamanni ársins 2008 sé vísbending um það að hinn útnefndi gæti endurtekið leikinn. Viðskiptablaðið tilnefndi nefnilega Árna Odd Þórðarson, forstjóra Eyris Invest sem er kjölfestufjárfestir í Marel og Össuri.

Eyrir bar mun minna tjón af bankahruninu en aðrar viðskiptablokkir á Íslandi þar sem félagið hafði litla stöðu í bankageiranum. Á móti var staða Eyris kannski ekki svo glæsileg þar sem félagið sá fram á þunga endurfjármögnun á árinu 2009. Nú hefur hún verið tryggð með skuldbreytingu og framlengingu skuldabréfaflokks til ársins 2011 og Eyrir Invest græðir á tá og fingri þessa dagana sökum gengishækkana í stoðtækjaframleiðandum Össuri. Þó verður að telja líklegt að Eyrir muni fremur einbeita sér að Marel og Stork en Össuri þegar tímar líða og líklega selja hlut sinn í stoðtækjaframleiðandum.

Frá því að fréttir bárust á vormánuðum um mögulegt yfirtökutilboð í Össur hefur markaðsverðmæti félagsins hækkað um 80%. Ekkert tilboð hefur þó verið lagt fram (kannski sem betur fer fyrir hluthafa) en fyrirtækið er nú komið í dönsku kauphöllina og hefur vakið töluverða athygli í gömlu herraþjóðinni. Talsverðar hækkanir hafa þannig orðið á gengi bréfanna eftir að viðskipti hófust í Kaupmannahöfn. Þetta hefur komið sér vel fyrir Eyrir með sinn fimmtungshlut í Össuri. Stjórnendur félagsins, með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar, misstu því miður af allri þessari hækkun því þeir voru neyddir til að selja bréf sín í veðkalli um svipað leyti og orðrómur fór af stað um yfirtöku. Danski fjárfestingarsjóðurinn William Demant hrifsaði til sín bréf stjórneda og keypti þar fimm prósent hlut á tombóluverði. Eyrisfeðgar hafa hins vegar komist klakklaust í gegnum hafrót á fjármálamörkuðum og stefna á viðurkenningar viðskiptablaðanna.

 


mbl.is Enn hækkar úrvalsvísitalan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fire sale hjá Fons

DV sagði frá því á dögunum að lögmaður nokkur, Guðjón Ólafur Jónsson, hefði tekið sér um 4% þóknun fyrir það að miðla ríflega 29% hlut þrotabús Fons í sænsku ferðaskrifstofukeðjunni Ticket til nýs eiganda. Samtals nam þóknunin 25 milljónum króna sem hlýtur að teljast verulega há fjárhæð í ljósi þess að umrædd bréf eru ekki í óskráðu félagi heldur í fyrirtæki sem gengur kaupum og sölum á sænska hlutabréfamarkaðnum. Söluþóknun vegna hlutabréfaviðskipta venjulegra kúnna er oft á bilinu 0,8-1,2%. Salan vekur einnig upp spurningar hvort seljandi og tengdir aðilar, þ.e. þrotabúið, bankinn og lögmaðurinn, hafi reynt að fá hámarksverð fyrir bréfin. Það verður að teljast ólíklegt í ljósi þróunarinnar.

Hluturinn, sem var seldur í maí, fór því u.þ.b. 600 milljónir króna til norsku Braathen-fjölskyldunnar sem hefur verið viðloðandi flugrekstur í marga áratugi. Strax á fyrsta degi, sem bréfin voru í eigu Norðmanna, hækkaði gengi Ticket um 8,5% og nú - um fjórum mánuðum síðar - stendur markaðsvirði hlutarins, sem Guðjón seldi fyrir hönd þrotabúsins, í 830 milljónum IKR. Hluturinn hefur því hækkað um 38% að teknu tilliti til gengisbreytinga. Um tíma nálgast virði hlutarins einn milljarð króna.

Það geta svo sem verið ýmsar skýringar fyrir því að Ticket hefur hækkað svo mikið á þessu tímabili. Hlutabréf á erlendum mörkuðum hafa verið á mikilli siglingu og svo er líklegt að eigendaskiptin hafi haft jákvæð áhrif, enda var staða Fons ekki glæsileg. Þá var jafnframt fallið frá hlutafjáraukningu sem hafði verið boðuð. En varla getur þetta skýrt nærri 38% hækkun á tímabilinu? Getur verið að um brunaútsölu hafi verið að ræða á kjölfestuhlut í stærstu ferðaskrifstofukeðju Norðurlanda og að lögmaðurinn hafi kosið að selja í flýti til þess að tryggja sér háa þóknun?

 


Verðmætasta fyrirtæki landsins

Össur er stærsta fyrirtæki landsins þegar horft er til markaðsverðmætis, metið á rúma 54 milljarða. Ég efast um að Össur Kristinsson, stofnandi félagsins, hefði trúað því að það ætti eftir að gerast þegar hann vann að skráningu félagsins í kauphöll fyrir rétt röskum áratug. En það gerðist ekki af góðu. Fyrir ári síðan var Kaupþing verðmætasta fyrirtæki landsins, þá metið á um 480 milljarða króna rétt fyrir bankahrun, og Glitnir og Landsbanki hvor um sig metinn á u.þ.b. 200 milljarða króna.

Þótt fagna beri landvinningum Össurar er staðan á íslenska hlutabréfamarkaðnum sorglegri en nokkur orð fá lýst. Alls staðar gegna hlutabréfamarkaðir mikilvægu hlutverki í uppbyggingu atvinnulífs en okkar er í skötulíki. Eftir standa Össur, Marel og e.t.v Föroya Banki sem áhugaverðir fjárfestingakostir. Alfesca og Bakkavör eru bæði á leiðinni út og fátt sem bendir til þess að ný félög komi inn fljótlega.


mbl.is Lítil viðskipti með bréf Össurar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta erlenda fjárfestingin

Kaup Magma Energy á hlut í HS Orku er án vafa stærsta fjárfesting erlendra fjárfesta á árinu. Lítið hefur farið fyrir því að málið snýst ekki einungis um að kaupa hlut OR heldur einnig að styrkja bágborna fjárhagsstöðu HS, en eigið fé félagsins gufaði nánast upp í gjörningaveðri síðasta árs. Magma hefur í hyggju að leggja fram tvo milljarða króna til að styrkja eiginfjárstöðu HS og koma að fullum krafti inn sem kjölfestufjárfestir. Verður ekki betur séð en að kanadíska fyrirtækið horfi til langs tíma með þessari fjárfestingu - hvað sem síðar á eftir að koma í ljós.

"Þá sé það markmið Magma Energy að styrkja enn frekar fjárhagsstöðu HS Orku í samstarfi við aðra eigendur fyrirtækisins. Þannig hyggist Magma beita sér fyrir því að arður af starfsemi HS Orku næstu árin verði ekki greiddur út, heldur nýttur til fjárfestinga sem styrka fjárhagslega stöðu fyrirtækisins enn frekar."

Það er hins vegar aumt að sjá viðbrögð heilbrigðisráðherra í fréttatímum RÚV, enda svo sem ekki á hverjum degi sem maður sér Ögmund Jónasson verða kjaftstopp. Skautaði hann svo algjörlega fram hjá síðustu spurningu fréttakonunnar um hvernig ríkið hefði átt að kaupa þennan hlut. Ögmundur þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að 70% kaupverðsins verði greidd með arðinum af HS orku. Eins og staðan er í dag eru engar forsendur fyrir því að taka fé út úr félaginu og sá hagnaður sem kann að skapast verður nýttur til vaxtar.


mbl.is Fjárfest fyrir 17,5 milljarða í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsasmiðjan kallar á lægri leigu - saga eignatengsla

Eik fasteignafélag, sem er m.a. umsvifamikill leigusali í miðborg Reykjavíkur, birti í dag hálfsársuppgjör sitt. Þar segir að Húsasmiðjan, einn stærsti leigutaki félagsins, sem greiddi nærri þriðjung af leigutekjum þess árið 2008, hafi óskað eftir viðræðum um leigulækkun í tengslum við endurfjármögnun félagsins.

Mikil eignatengsl voru á milli Húsasmiðjunnar og Eikar fasteignafélags. Fyrir rúmu ári síðan var eitt "öflugasta fasteignafélags" landsins myndað í flóknum eignatilfærslum undir handleiðslu Glitnis, sem var væntanlega gert til að lækka skuldir Baugs, FL Group og Hannesar Smárasonar. Meirihlutaeigandi Eikar varð Saxbygg, sem nú er gjaldþrota, en Glitnir eignaðist einnig stóran hlut og kom þar með eigendum sínum til bjargar. Eigendur Saxbyggs voru lengi vel m.a. stærstu hluthafa í Húsasmiðjunni. Nú er eignarhald á Eik komið í hendur Íslandsbanka, ef marka má lista yfir stjórnarmenn. Og sumir vilja meina að Saxbygg hafi stýrt Glitni síðustu vikurnar fyrir hrun bankans en ekki Baugur.

Svona er nú litla Ísland.


Síðustu forvöð?

Ríkisvaldið hefur á undanförnum mánuðum liðkað töluvert fyrir fyrirtækjum með því að gefa þeim greiðslufrest á virðisaukaskatti. Nú sér hins vegar fyrir endann á þeirri aðstoð, einmitt þegar þjóðlíf siglir inn í harðan vetur. Á síðasta greiðsludegi almenns virðisaukaskatts í upphafi ágúst fengu greiðendur tveggja daga frest á greiðslum án þess að lenda í hinu hrikalegi álagi sem hefur sent mörg góð fyrirtækin í þrot. Ráðuneyti fjármála orðaði þetta þannig á sinn skorinorta máta:

"Hefur ráðuneytið í dag [4. ágúst] beint þeim tilmælum til skattstjóra að fellt verði tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 5. júní 2009 og gildi sú niðurfelling í fimm daga eða til og með 10. júní 2009. Í sömu tilmælum kemur fram að fellt verði tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 5. ágúst 2009 og gildi sú niðurfelling í tvo daga eða til og með 7. ágúst 2009.

Sem áður segir hefur ráðuneytið að undanförnu í þrígang beint samskonar tilmælum til skattstjóra vegna síðustu uppgjörstímabila virðisaukaskatts. Jafnframt voru á Alþingi í vor samþykkt lög sem kveða á um ákveðinn greiðslufrest á aðflutningsgjöldum (þ.m.t. virðisaukaskatts) vegna uppgjörstímabila á árinu 2009. Með tilmælum þeim sem beint var til skattstjóra í dag er horft til næstu tveggja gjalddaga virðisaukaskatts, 5. júní og 5. ágúst, en frá og með 5. október verður álagsbeiting vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti með hefðbundnum hætti."

Ég hef það á tilfinningunni að fyrirtæki þurfi meiri aðstoð á næstu mánuðum til þess að koma sér í gegnum kreppuna.


mbl.is Hvetja til niðurfellingar álags vegna seinkunar á greiðslu virðisauka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir af Össuri

Tvær góðar fréttir hafa borist úr herbúðum Össurar (þ.e. fyrirtækisins) upp á síðkastið. Annars vegar eru þessar fréttir að Össur hafi óskað eftir skráningu í dönsku kauphöllina í því augnamiði að auka seljanleika bréfanna og styðja við framtíðarvöxt. Þetta er skiljanleg ákvörðun enda eiga danskir fjárfestar um 45% hlutafjár í félaginu, þar af fer William Demant Holding með um 40% hlut. Össur er því nánast hálfdanskt fyrirtæki. Gangi þessi áform eftir yrði Össur aðeins annað íslenska fyrirtækið sem bæri tvíhliða skráningu á hlutabréfamarkaði. Hitt var gamli Kaupþing sem var jafnframt skráður í Stokkhólmi.

Hitt snýr að málefnum íslenska fjárfestingarfélagsins Eyris Invest sem fer með fimmtungshlut í Össuri. Eyrir samdi nýverið við skuldabréfaeigendur um framlengingu og skilmálabreytingu á skuldum sínum fram til ársins 2011. Það hafa verið vangaveltur, m.a. á þessu bloggi, hvort félagið hefði orðið að losa um þennan hlut til þess að fjármagna sig en nú ætti Eyrir að geta stutt dyggilega við Össur ef félagið kýs svo.

Markaðsverðmæti Össurar hefur farið hækkandi á síðustu dögum. Gengi bréfa félagsins er um 24% hærra en það var í byrjun árs og stendur nálægt 52 vikna hámarki.


mbl.is Össur á markað í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband