Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Kók kaupi Vífilfell

Í dag hafa stjórnarformaður og aðaleigandi Vífilfells og Coca-Cola á Norðurlöndum mótmælt þeim fréttum að Coke á Norðurlöndum hafi hótað að taka sérleyfið af Vífilfelli haldi Þorstein M. Jónsson ekki áfram um stjórnartaumana.

Nokkrir kostir hljóta að vera í stöðunni. Í fyrsta lagi að kröfuhafinn leysi fyrirtækið til sín og selji það síðar sem virðist ekki vera Coke að skapi. Í annan stað að Coke fjárfesti í Vífilfelli og leiði að nýja fjárfesta að rekstrinum. Nú eða að Þorsteinn gjaldi fyrir glannaskap sinn og greiði upp skuldir Vífilfells við bankann sem verður að teljast ólíklegt. Kannski væri einfaldlega best að Coke fjárfesti í Vífilfelli, kæmi inn með erlent fjármagn og tryggði þar hagsmuni sína á Íslandi. 

Gleymum því ekki að Vífilfell hefur þótt gott rekstrarfyrirtæki í gegnum tíðina og var jafnvel orðað við skráningu í Kauphöll á sínum tíma.


mbl.is Segir fulltrúa Coca-Cola ekki hafa hótað Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanir í þágu skuldakónga

Hótun Coke á Norðurlöndum um að taka umboðið af Vífilfelli gangi Kaupþing að veðum sínum í fyrirtækinu, sem þýðir í raun og veru að Vífilfell yrði einskis virði, þarf ekki að koma svo mikið á óvart. Erlend stórfyrirtæki hafa með ýmsum hætti reynt að tryggja að skuldakóngar og útrásarvíkingar haldi viðskiptasamböndum hérlendis.

Til dæmis spurðist það út á dögunum að Toyota ætlaði sér að svipta íslenska umboðið sérleyfi ef NBI tæki skuldsettan reksturinn til sín. Eigandi Toyota á Íslandi er Smáey, fjárfestingarfélag Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns frá Vestmannaeyjum. 

Annað dæmi er eflaust þegar breska verslanakeðjan Next plc. hótaði að eiga ekki viðskipti við Ísland nema að fyrri eigendur, sem voru "de facto" löngu gjaldþrota fyrir bankahrunið, kæmu aftur að rekstinum. Stærsti kröfuhafinn varð að bugta sig og beygja fyrir Bretunum.

Afskipti þessara stórfyrirtækja sýna bersýnilega að lengi lifir í gömlum glæðum; útrásarvíkingarnir eru á fullu að tryggja hagsmuni sína í Nýja-Íslandi. 


Enginn venjulegur kaupsýslumaður

Kevin Stanford er enginn venjulegur kaupsýslumaður. Hann er sennilega sá útlendingur sem kemst næst því að vera íslenskur útrásarvíkingur sem einn helsti viðskiptafélagi Baugs á síðustu árum. Stanford var hluthafi í Baugi og FL Group og er meðal stórra eigenda í Byr. Hann auðgaðist á fjárfestingum í breskri verslun en hann var annar aðaleigenda tískuverslunarkeðjjunar Karen Millen, ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Karen Millen.

Stanford hefur háð nokkur einvígi á Íslandi á þessu ári og orðið vel ágengt. Hann var sýknaður af kröfu VBS og eignarhlutir hans og fyrrverandi konu skiptu sköpum í vafasömum stjórnarkosningum í BYR fyrr á árinu. Hann hefur m.a. átt í stappi við skilanefnd Kaupþings vegna tískukeðjunnar All Saints.

Kevin Stanford skuldaði Kaupþingi 375 milljónir evra þegar bankinn féll í fyrra. Hann var einn stærsti lántaki bankans og jafnframt fjórði stærsti hluthafinn.


mbl.is Breskur kaupsýslumaður sýknaður af kröfu VBS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi Árna

Árni Páll Árnasson var í spjalli hjá Sölva Tryggvasyni á Skjánum í gær. Þar hafði hann m.a. þetta um ábyrgðarmannakerfið að segja (með leyfi Pressunnar):

"Árni Páll segist vilja afnema með öllu ábyrgðarmannakerfi á lánum. ,,Síðan þarf að fylgja líka bann við ábyrgðamannakerfi....ég held að þetta sé bara tóm þvæla sem við höfum búið til hér. Þetta hefur ekki verið neinum til góðs hér. Þetta er söngur sem maður hefur heyrt frá bankakerfinu og innheimtulögfræðingum árum og áratugum saman. Það eina sem þetta hefur auðveldað er að lána fólki með óábyrgum hætti og hundelta það svo árum og áratugum saman,“ segir hann."

Ég efast ekki um að ábyrgðarmannakerfið hafi lagt fjárhag margra í rúst en hins vegar fylgja öllum öfgabreytingum nýjar öfgar. Miðað við það sem ég hef heyrt frá bankamönnum hefur markvisst afnám ábyrgðarmannakerfisins skapað mikil óþægindi og óvissu fyrir væntanlega lántakendur og útlánastofnanir að geta ekki tryggt sjálfskuldar- eða fasteignaábyrgð þriðja manns fyrir lánum einstaklinga. Ég heyrði t.d. þá sögu af mjög vel stæðum manni sem gat ekki ábyrgst bankalán fyrir dóttur sína þar sem bankanum var óheimilt að samþykkja hann sem ábyrgðarmann, jafnvel þótt viðkomandi ætti talsverðar bankainnistæður. Þá glíma fyrirtæki við þann vanda að einungis eigendum hlutafélaga er nú heimilt að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingum félaga.  

Sjálfur fór ég af stað með atvinnurekstur fyrir nokkrum árum sem lifir góðu lífi í dag. Ég hefði ekki getað farið af stað nema með aðstoð tengdaföðurs míns sem gekkst, auk okkar hjóna, í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldabréfaláni. Ætli fullt af góðum verkefnum fari ekki súginn þar sem bankar treysta sér ekki til þess að lána lengur?


Milljarðar ríkisins gufa upp

Árið 2007 lagði ríkissjóður fram 1.200 milljónir króna til þess að styrkja eiginfjárstöðu Byggðastofnunar sem glímt hafði við töluverðan taprekstur allan áratuginn. Þar með varð eiginfjárhlutfall stofnunarinnar 14,15% í árslok 2007. Nú er þetta framlag algjörlega gufað upp eftir gríðarlegt tap á fyrra hluta ársins. Eignir umfram skuldir voru u.þ.b. 1.540 milljónir króna um síðustu áramót en nú eru skuldir umfram eignir 118 milljónir króna.

Staðreyndin er sú að á þessari öld (frá ársbyrjun 2001 til 30. júní 2009) nemur samanlagt tap Byggðastofnunar tæpum 3,2 milljörðum króna. Fyrir utan árið 2001 hefur rekstur stofnunarinnar annaðhvort verið í járnum eða skilað miklu tapi, líkt og árið 2008 og fyrri hluti þessa árs bera með sér. Jafnframt ber að hafa í huga að ríkissjóður leggur Byggðastofnun til rekstrartekjur á hverju ári samkvæmt fjárlögum. Frá aldamótum nemur samanlagt framlag ríkissjóðs rúmum 3,5 milljörðum króna. Þar með hefur Byggðastofnun fengið alls 4,7 milljarða króna frá ríkinu á 21. öldinni!

Og enn skal ríkissjóður umræðulaust ausa fjármunum til Byggðastofnunar. Getur verið að hlutverki stofnunarinnar gæti verið sinnt með betri hætti en fjáraustri sem þessu?


mbl.is Eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar neikvætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm prósenta þóknun Glitnis

Þessi viðskipti, sem nú eru til skoðunar, eru ágætt dæmi um þau innbyrðis viðskipti sem áttu sér stað í íslensku viðskiptalífi. FL Group, sem var stærsti hluthafinn í Glitni, selur allan hlut sinn í Geysi til bankans og annarra hluthafa í Geysi. Miðað við kaupverðið 10,5 milljarða króna tók Glitnir sér u.þ.b. 4,8% þóknun fyrir ráðgjöf við miðlun bréfanna. Jafnvel þótt hlutabréf í GGE hafi ekki gengið kaupum og sölum á almennum markaði verður að segjast eins og er að þóknun Glitnis var ansi rífleg. Maður spyr sig hvort eigendur Glitnis, þeir sömu og áttu FL Group, ætluðu að blóðmjólka FL sem stóð ansi höllum fæti á þessum tíma? Og hvað ætli Glitnir hafi tekið meira til sín í formi annarra verkefna tengt Geysi og fjármögnun þess?

En þetta er svo sem ekkert einsdæmi eins og mörg dæmi í dag sýna. Á dögunum seldi lögmaður ráðandi hlut í Ticket, sem var í eigu þrotabús Fons, á brunaútsölu gegn vænlegri þóknun.

Nú þegar Geysir Green Energy á væntanlega allt sitt undir kröfuhöfum félagsins er ágætt að rifja upp þá bólu sem átti sér stað í orkugeiranum hérlendis. Geysir var metinn á rúma 24 milljarða króna þegar FL Group seldi allan hlut sinn í félaginu í febrúar 2008. Þegar til stóð að sameina Geysi Green og Reykjavík Energy Invest (REI) á haustmánuðum 2007 var sameinað félag metið á 65 milljarða króna. Þar af var 27% hlutur FL Group í sameinuðu félagi metinn á um 17,6 milljarða.


mbl.is Glitnir tók 500 milljónir í þóknun vegna sölu til sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisskattstjóri birtir skussalista

Ríkisskattstjóri er farinn að birta lista yfir þá lögaðila sem draga það að skila inn á ársreikningum til opinberrar birtingar í tæka tíð. Þegar rennt er yfir lista RSK er ótrúlegt að sjá hversu mörg félög hafa dregið það fram úr hófi að skila ársreikningum vegna áranna 2006 og 2007 sem átti að senda inn árin 2007 og 2008. Í dag hefur ríkisskattstjóri heimild til þess að leggja dagssektir á þau félög sem skila ekki inn ársreikningum innan hæfilegs frests.

"Skilafrestur á ársreikningi er eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt hans en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs en félög, sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á opinberu verðbréfaþingi, skulu þó senda ársreikninga þegar í stað eftir samþykkt þeirra en þó eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs. Skilaskylda á samstæðureikningi hvílir einnig hjá móðurfélagi samstæðu," segir á heimasíðu RSK.

Talið er að 2.000 fyrirtæki hafi ekki verið búin að skila inn ársreikningi vegna ársins 2006 um mitt síðasta ár.


Síðustu leifar SPRON

Þeir viðskiptavinir SPRON, sem höfðu séreignarsparnað hjá sparisjóðnum eða dótturfélaginu nb.is, hljóta að fagna því að Byr sparisjóður hafi tekið yfir þetta verkefni. Mikil óvissa skapaðist um stöðu sjóðsfélaga eftir að SPRON fór í slitameðferð. Þannig hrundu t.d. vextir á verðtryggðum sparnaði eftir að vaxtatafla SPRON færðist úr Ármúlanum yfir í höfuðstöðvar Kaupþings. Allt í einu voru þeir raunvextir, sem nb.is hafði yfirboðið um nokkur misseri, komnir langt niður fyrir innlánskjör í Byr.

Með þessum flutningi er SPRON, sparisjóður Reykvíkinga, við það að syngja sitt síðasta. Lehman Brothers Íslands verða kannski eftirmæli SPRON, sem stofnaður var af iðnaðarmönnum á öndverðum 4. áratug síðustu aldar og var stolt Reykvíkinga um langt árabil.


mbl.is Séreignasparnaður í SPRON til Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungur róður framundan

Nýr ritstjóri þarf, eins og forverinn, að glíma við mikinn rekstrarvanda. Nýs ritstjóra bíður vafalaust það vandasama verkefni að ráðast í mikinn og sársaukafullan niðurskurð á starfsliði og útgáfutíðni. Það er engum blöðum um það að fletta að Morgunblaðið tapar milljónum í hverjum mánuði og auglýsingatekjur dragast saman. 

Í Mogganum í dag voru aðeins þrjár heilsíðuauglýsingar á 40 síðum eða fjórar að meðtölum bíóauglýsingum. Húsgagnaverslun var á bls. 3 sem jafnan hefur verið dýrasti auglýsingaflöturinn. Í Fréttablaðinu voru 6 heilsíðuauglýsingar (fyrir utan eigin auglýsingar)+6 auglýsingar við hliðana á efnisgálgum+fasteignablað.

 


mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í þá gömlu góðu daga ...

Ég man þegar Úrvalsvísitalan náði 9.000 stiga múrnum um miðjan júlí fyrir rétt rúmum tveimur árum síðan. Þá lá maður í sólbaði á Spánarströndum og evran stóð í 82 krónum.

Ég man líka þegar Icelandair (Flugleiðir) var risi á íslenskum hlutabréfamarkaði. Nú er markaðsverðmæti félagsins aðeins tveir milljarðar, það skuldum vafið og að stærstum hluta í eigu ríkisbankan.


mbl.is Bréf Icelandair lækkuðu um 48%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband