Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
25.10.2009 | 11:56
Jákvætt fyrir stofnfjáreigendur
Með vísun FME á Exeter Holdings-máli til sérstaks saksóknara er tekið stórt skref í þá átt að fá skorið úr um hvort fyrrverandi stjórnendur Byrs hafi misnotað sjóði sparisjóðsins í eigin þágu. Fyrir dómskerfinu liggur nú fyrir mál Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrverandi hluthafa í Glitnis, gegn þáverandi stjórnendum bankans en Vilhjálmur telur að með starfslokasamningum við Bjarna Ármannsson, sem fólu m.a. í sér kaup á bréfum í eigu Bjarna á yfirverði, hafi hluthöfum í bankanum verið mismunað. Að sumu leyti eru þessi mál keimlík; stjórn lánaði Exeter Holdings fjármuni til þess að kaupa bréf af stjórnarmönnum í Byr og MP banka, sem hafði leyst til sín hluti stjórnenda með veðkalli, á yfirverði, eða síðasta verði sem var á stofnfjármarkaði í ágúst 2008. Þau viðskipti endurspegluðu á engan hátt verðmæti stofnfjár við hrun íslenska bankakerfisins.
Í lögum um hlutafélög segir:
76. gr. Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.
Þetta var þó ekki hægt fyrr en að stofnfjáreigandi keypti Exeter Holdings að sparisjóðurinn gat veitt upplýsingar um málefni félagsins. Já, það er hægt að finna leiðir fram hjá bankaleyndinni!
Lán Byrs til Exeter kært til sérstaks saksóknara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2009 | 15:17
Krafa um eðlilega ávöxtun
Í mínum huga er það sjálfsagt mál að lífeyrissjóðir komi að því að verja velferðarkerfið svo framarlega sem að sjóðirnir fái ásættanlegt endurgjald af sínu lánsfé. Það hlýtur að vera eðlileg krafa af hálfu eigenda sjóðanna - sjóðsfélaga - og forsvarsmanna þeirra sem enn stýra öllu. Kannski er það ekkert verri kostur en að koma að óljósri uppbyggingu atvinnulífsins.
Nú er sótt að lífeyrissjóðum úr öllum áttum. Brennt barnið forðast eldinn, enda var síðasta ár það skelfilegasta í sögu þjóðanna. Á sama tíma og eðlilegt er sjóðirnir velti fjárfestingarkostum gaumgæfilega fyrir sér er hættan líka sú að áhættufælni forsvarsmanna lífeyrissjóðanna verði svipuð og hefur viðgengist í bankakerfinu undanfarna mánuði.
Lífeyrissjóðir láni í velferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2009 | 21:34
Þögn Haga
Endurfjármögnun Haga mun væntanlega þýða félagið hættir að öllum líkindum að birta opinberlega ársreikninga og árshlutareikninga þar sem félagið hefur ekki lengur skráða skuldabréfaflokka á markaði. En það skiptir kannski ekki máli þegar fjöldamörg fyrirtæki, líkt og Hagar, komast nú orðið upp með að skila ekki inn reikningum sínum.
En af hverju er þessi þögn? Hvað er það í ársreikningi Haga fyrir rekstrárið 2008/09 sem þolir ekki dagsins ljós? Af hverju forðast stærsta verslunarfyrirtæki landsins, sem er með 50-60% markaðshlutdeild á matvörumarkaði, að birta sínar tölur? Hvað hefur Jóhannes í Bónus, stjórnarformaður Haga, sem segir að neytendur hafi byggt upp Bónus, að fela?
Endurfjármögnun Haga lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.10.2009 | 22:11
2010 annus horribilis
Allt bendir til þess að lykilatriði í stöðugleikasáttmálanum nái ekki fram að ganga fyrir 1. nóvember. Hvað gerist þá má Guð einn vita. Staða fyrirtækja og launþegar mun einfaldlega versna enn frekar og dýpka kreppuna. Og svo skal skattpína fyrirtæki og launþega á næsta ári með þeim afleiðingum að lífskjör versna enn þá frekar. Árið 2010 stefnir í að verða sannkallað hörmungarár - annus horribilis.
Ég má til með að birta þennan pistil úr fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu:
Eins og staðan er núna er mjög tvísýnt um framgang stöðugleikasáttmálans, en ljóst er að flest lykilákvæði hans hafa ekki náð fram að ganga á þeim tíma er hann var undirritaður í lok júní. Tíminn vinnur ekki með mönnum eins og staðan er núna og að óbreyttu er ekki líklegt að kjarasamningur SA og ASÍ verði framlengdur hinn 1. nóvember.
Það sem útaf stendur við framgang sáttmálans snýr fyrst og fremst að stjórnvöldum. Fjárfestingar í orkufrekum iðnaði munu ekki hefjast fyrr en fallið hefur verið frá fyrirhuguðum orku- og kolvetnissköttum. Þá hefur úrskurður Umhverfisráðherra um SV-línu þær afleiðingar að allar framkvæmdir tengdar álveri í Helguvík munu tefjast. Þetta eru lykilmálin til að koma hreyfingu á mikilvægustu framkvæmdirnar sem verið hafa í undirbúningi og munu hafa mikið um það að segja að hjól atvinnulífsins komist í gang á ný.
Önnur mikilvæg mál sem enn liggja óleyst og eru margrædd eru lækkun vaxta, afnám gengishafta og ríkisfjármálin. Það að hreyfing komist á öll þessi mál í takt við það sem Stögugleikasáttmálinn segir til um er lykillinn að framgangi sáttmálans. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og það má ekki dragast öllu lengur að afstaða stjórnvalda til allra þessara mála komi skýrt og ótvírætt fram.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2009 | 16:49
Hvar eru regluverðirnir?
Frá áramótum hefur FME lokið yfir 40 málum með sáttargjörð en í langflestum málanna höfðu útgefendur verðbréfa ekki skilað inn upplýsingum um fruminnherja og aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum til stofnunarinnar eins og kveðið er á í lögum um verðbréfaviðskipti.
Félögum, sem eru með skráð verðbréf í kauphöll, ber skylda til að tilefna regluverði sem halda utan um innherjaupplýsingar og viðskipti innherja. Þessi fjöldi mála hlýtur að vera til vitnis um að regluverðir séu almennt meðvitundarlausir. Fyrir félög á borð við Byggðastofnun og Ríkisútvarpið ohf. er þetta dýrkeyptur klaufaskapur á sama tíma og skattgreiðendur þurfa hlaupa undir bagga með þeim.
Átta félög sektuð fyrir brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2009 | 09:03
Skuldbundu GGE frekar
Þegar tilkynnt var um að nýir fjárfestar, þ.e. Wolfensohn & Co. og Ólafur Jóhann Ólafsson ásamt öðrum hluthöfum, hefðu ákveðið að leggja fram nýtt hlutafé að fjárhæð $70 milljónir sumarið 2008 var því slegið upp sem stórum áfanga í því að styrkja fjárhagslega stöðu félagsins. Svo mikla trú virtust hinir nýju hluthafar hafa á rekstri Geysi Green (GGE) að þeir tóku sæti í stjórn fyrirtækisins.
Þess vegna á leikmaður eins og undirritaður bágt með að skilja af hverju stjórnendur GGE skuli ekki reyna á innheimtu á hlutafjárframlagi Wolfensohn & Co. Í fréttatilkynningu frá GGE á þessum tíma er þess getið að sterkari staða félagsins hefði gert því kleift að eignast dótturfélagið Exorka International í Þýskalandi að fullu með því að kaupa út minnihlutaeigendur með hlutabréfum í Geysi fyrir $1,6 milljónir. Þannig var aðkoma nýrra hluthafa nýtt til þess að skuldbinda Geysi til frekari fjárfestinga en kaupverðið á hlutabréfunum í Exorku nam nánast þeirri fjárhæð sem Wolfensohn & Co lofaði að leggja fram.
Segir Geysi Green ekki innheimta tvo milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2009 | 08:47
Glitnir er víti til varnaðar
Reynsla Íslendinga af norskum sparisjóðum ætti að vera bitur. Fyrir réttu ári síðan tóku norsku sparisjóðisamtökin yfir Glitnir Bank ASA, norska bankahluta Glitnis, fyrir brot af raunvirði án þess að skilanefnd bankans fengi rönd við reist. Þessi stórundarlegu viðskipti, sem aldrei hafa verið skýrð til fulls, fóru fram á 300 milljónir norskra króna en aðeins fáum mánuðum síðar mátu sérfræðingar bankann á tvo milljarða norskra króna. Bankinn, sem var myndaður úr BNbank og Kreditbanken, hafði því sexfaldast í virði á aðeins þremur mánuðum! Reyndar voru fleiri eignir úr eignasafni Glitnis í Noregi hirtar upp af hákörlum, t.d. Glitnir Securities.
Þáttur hins norska Finn Haugan var mikill í þessum viðskiptum en hann virðist hafa leikið tveimur skjöldum, annars vegar sem stjórnarformaður norska innistæðutryggingasjóðsins og hins vegar sem framkvæmdastjóri Sparebank 1 SMN, sem eignaðist fjórðungshlut í bankanum. Hann mun hafa krafist þess að bankinn yrði seldur eftir að allar lánalínur þornuðu upp.
Óskandi væri að rannsakendur bankahrunsins skoðuðu þessi viðskipti norsku sparisjóðanna ofan í kjölinn.
Íslendingar vilja að Norðmenn fjárfesti hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2009 | 10:47
Áhugaleysi að skuldsetja sig
Í Fréttablaðinu í gær var forvitnilegt viðtal Dr. Gunna við Skúla Gunnar Sigfússon sem rekur fjórtán Suðbway-staði á Íslandi. Þetta viðtal ætti kannski að vera skyldulestur á fyrsta ári í viðskiptafræði. Skúli kemur vel úr hruninu þar sem hann segist hafa misst af góðærinu, eða öllu heldur gleymt að taka þátt í því. Og hvernig gat hann gleymt því?
"Með því að skuldsetja mig ekki. Það hefur verið sami eigandi frá upphafi. Við byggðum okkur bara upp og borguðum niður skuldir í góðærinu. Það voru náttúrlega skuldir í byrjun því ég átti engan pening þegar ég startaði þessu [árið 1994]. En það er búið í dag. Það er ekki ein króna í skuld."
Nú þegar 70% fyrirtækja á Íslandi eru sögð vera í þeirri stöðu að skuldir eru meiri en eignir eru orð Skúla holl ábending um að mikil samfélagsábyrgð fylgir því að reka fyrirtæki og stofna til skuldbindinga. Á fimmtán árum hefur Subway-keðjan á Íslandi vaxið hægt en örugglega. Góðir hlutir gerast hægt. Því miður hafa allt of margir rekstrarmenn fengið að valsa fram áhættulaust á síðustu árum með peninga annarra.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2009 | 18:41
Hvað með aðra stofnfjáreigendur?
Það voru ekki einvörðungu stofnfjáreigendur í landsbyggðarsparisjóðum sem skuldsettu sig fyrir stofnfjárkaupum. Eigendur stofnfjár í sparisjóðum á suðvesturhorninu tóku einnig þátt í stofnfjáraukningum á árunum 2005-2007 og sitja margir uppi stórskuldugir eftir að sparisjóðakerfið riðaði til falls og bréfin urðu annaðhvort verðlaus eða lítils virði. Almennir stofnfjáreigendur í sparisjóðum á borð við Byr sparisjóð, SPRON og Sparisjóðnum í Keflavík horfðu eins á hlutina og stofnfjáreigendur í landsbyggðarsparisjóðum, þ.e. að styrkja sína sparisjóði til frekari vaxtar og verja sig frá því að verða þynntir út vegna mikillar aukningar stofnfjár.
Stjórnmálamenn vilja eflaust að rétta stofnfjáreigendum í landsbyggðarsparisjóðum hjálparhönd rétt eins og gert hefur verið fyrir innistæðueigendur og eigendur peningamarkaðsbréfa. Verður þá ekki líka að aðstoða stórskulduga einstaklinga sem tóku lán til þess að styðja við vöxt sparisjóða á höfuðborgarsvæðinu? Þeir eru líka launafólk.
Hörmuleg staða Húnvetninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2009 | 16:35
RÚV tvívegis gjaldþrota á áratugnum
Nú þegar skattgreiðendur hafa fengið þau skilaboð frá ríkisvaldinu um að herða enn á sultarólinni er ágætt að hafa það í huga að það eru ekki einungis einkafyrirtæki sem hafa farið flatt á ofþenslu og gengishruni. Tvö ríkisfyrirtæki eru nefnilega tæknilega gjaldþrota, RÚV ohf. og Byggðastofnun, og hefur tekist að þurrka upp tveggja milljarða króna framlag frá ríkinu árið 2007. Gamla ríkisútvarpið, forveri RÚV ohf., var m.a.s. komið í algjörar ógöngur árið 2007 og tæknilega gjaldþrota þá.
Í árslok 2005 voru skuldir forvera RÚV ohf. orðnar meiri enn eignir. Í marslok 2007, degi áður en opinbert hlutafélag tók við rekstri RÚV, var eigið fé stofnunarinnar neikvætt um 823 milljónir króna. Hið opinbera hlutafélag fékk nýtt hlutafé fyrir ríflega 878 milljónir króna í vöggugjöf frá ríkissjóði og var reikningsári þess breytt úr almanaksárinu yfir í frá 1. september til 31. agúst til þess að endurspegla betur dagskrárárið, þ.e. að fylgja vetrar og sumartímabili.
Varla er hægt að segja að fyrsta heila rekstrarár RÚV ohf. (1. sept.-31. ágúst. 2008) hafi gefið góð fyrirheit um framtíðina. Algjört mettap varð á rekstrinum, um 740 milljónir króna, sem þýddi að framlag ríkisins var nánast uppurið í lok reikningsárs. Ástæða þessa mikla taps skýrðist einkum af hárri verðbólgu og gengisfalli krónu sem hækkuðu verulega langtímaskuldir RÚV ohf. Félagið hefur ekki birt reikninga fyrir síðasta starfsár en í byrjun árs var eigið fé þess orðið neikvætt.
Fyrir tveimur árum bjargaði ríkissjóður eiginfjárstöðu Byggðastofnun með sérstöku 1.200 milljóna króna framlagi en sú ákvörðun var m.a. réttlæt sem mótvægisaðgerð við niðurskurði í þorskveiðum. Nú hefur þetta framlag gufað upp eftir gríðarlegt tap Byggðastofnunar á fyrri hluta ársins. Eignir umfram skuldir voru u.þ.b. 1.540 milljónir króna um síðustu áramót en nú eru skuldir umfram eignir 118 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall stofnunarinnar er því neikvæt og langt undir lögboðnu 8% (CAD) lágmarki um fjármálafyrirtæki og leikur vafi um "áframhaldandi rekstrarhæfi stofnunarinnar" eins og segir í tilkynningu frá henni. Hefur FME gefið stjórnendum Byggðastofnunar frest fram í desember til þess að tryggja lágmarkið.
Ef horft er framhjá framlagi ríkisins í gegnum fjárlög er tveggja milljarða framlag þess til RÚV ohf. og Byggðastofnunar uppurið og gott betur. Og nú þarf að herja á skattgreiðendur á nýjan leik.
Ríkisútvarpið fær aukafjárveitingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)