Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Var ég í alvöru rekinn?

Það er stundum ákveðin kúnst að lesa sig í gegnum fréttatilkynningar frá Kauphallarfyrirtækjum. Jafnvel þegar ekkert nema gjaldþrot blasir við sjá stjórnendur fyrirtækja einhverja sólarglætu. Yfirleitt er viðskilnaður fyrirtækja og stjórnenda gerður í sátt og samlyndi og viðkomandi þökkuð góð störf. Í dag sendi færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að Vilhelm Petersen forstjóri hefði látið af störfum samkvæmt sameiginlegri ákvörðun.

Birgir Durhuus, stjórnarformaður hafði þetta að segja um brotthvarf forstjórans: "I would like to thank Wilhelm Petersen for his significant contributions to the development of Atlantic Petroleum. Under his tenure, the Company has developed to become an international player in the oil and gas industry with two oil fields already in production, and two further oil fields expected to come into production over the coming two to three years.“

Allt lítur þetta vel út en svo kemur bomban. Forstjórinn var í raun og veru rekinn og er mjög undrandi á uppsögninni! Hvað segir Kauphallar-Þórður við þessu?


mbl.is Forstjóri Atlantic Petroleum rekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil fækkun útibúa

Mikil hagræðing virðist eiga sér stað á útibúaneti bankanna. Þannig hefur útibúum Kaupþings fækkað um fimm talsins á skömmum tíma en á dögunum voru þrjú útibú á höfuðborgarsvæðinu sameinuð í eitt. Þá hvarf allt útibúanet SPRON á einu bretti þegar sparisjóðurinn fór í gjaldþrot. Á síðasta ári lokuðu tvö bankaútibú í Smáralind og einhver útibúa Landsbankans voru sameinuð.

Það er því miður staðreynd að íslenska bankakerfið er allt of stórt og útibúin of mörg fyrir ekki stærra land. Á meðan lítill vilji er fyrir því að þeir sem nýta sér þjónustu útibúa greiði meira fyrir hana má reikna með áframhaldandi fækkun útibúa. Fækkun útibúa ætti vonandi að skila sér í lægri vaxta- og þjónustugjöldum. Eða hvað?


mbl.is Kaupþings-útibúum fækkað á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formleg afþökkun aðstoðar

Framkvæmd greiðslujöfnunar er með því einkennilegra sem maður hefur séð á Íslandi. Þótt ýmsir kostir fylgi þessu framlagi ríkisstjórnarinnar eru ókostirnir e.t.v. fleiri aukinheldur sem aðgerðirnir eru sagðar vera óskýrar og ógegnsæar. Hver og einn verður að gera það upp við sig hvort hann vilji nýta sér þetta úrræði og þá kemur að hinni furðulegu framkvæmd.

Ég tel mjög líklegt að meirihluti fasteignaeigenda muni og þurfi ekki nýta sér þetta úrræði. Hins vegar þarf þessi hópur lántaka, en ekki þeir sem vilja lækka greiðslubyrði sína, að segja sig frá henni með formlegum hætti. Þeir sem þurfa ekki á aðstoð að halda verða því að afþakka aðstoðina! 


mbl.is Boða nýtt greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofmetnir varasjóðir

Þegar Glitnir birti sex mánaða uppgjör í ágúst í fyrra kom fram í máli Lárusar Weldings að rekstur bankans væri í miklum blóma. Tekjur af kjarnastarfsemi höfðu þannig aukist um fimmtung annan fjórðunginn í röð og jafnframt var lausafjárstaða bankans sögð sterk. Um þetta leyti stóð eigið fé Glitnis í 200 milljörðum króna, þar af námu varasjóðir, þ.e. uppsafnaður hagnaður og annar varasjóður, um 132 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi.

Lárus hafði m.a. þetta að segja: "Við gerum ekki ráð fyrir að alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir opnist í bráð. Lausafjárstaða bankans er góð og okkur eru ýmsar leiðir færar í fjármögnun ekki síst í ljósi gæða eigna okkar."

Þessir 132 milljarðar sem höfðu safnast upp á mörgum árum samsvara því nokkurn veginn þeirri 139 milljarða kröfu sem dúkkaði óvænt upp á dögunum. Miðað við þetta voru skuldir bankans stórlega vanmetnar og ljóst að Glitnir stímaði beint á skerið hvað varðaði leiðir til endurfjármögnunar. Er ekki nema von að menn spyrji sig hvort uppgjör Glitnis þann 30. júní 2008 hafi verið marklaust plagg? 

 


mbl.is Kroll rannsakar Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þóknun Glitnis af BYR

Töluverð umræða hefur verið á síðustu dögum um lánveitingar Glitnis til ófjárráða einstaklinga í tengslum við stofnfjáraukningu í Byr sparisjóði í lok árs 2007. Í þessari umræðu hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að stofnfjáreigendur, sem tóku ekki þátt í þessari aukningu, voru þynntir út um 86% eins og kemur fram í útgefendalýsingu sparisjóðsins. Segjum svo að einstaklingur sem átti stofnfjárbréf sem voru metin á 100.000 krónur að nafnvirði fyrir aukningu, hefði aðeins átt u.þ.b. 14.000 krónur með ef hann hefði sleppt þátttöku aukningunni. Margir hafa hneykslast á framferði foreldra og forráðamanna og talað um barnaverndarmál. Maður spyr sig þá á móti: Hefði það ekki orðið barnaverndarmál ef foreldri ólögráða barns, sem átti stofnfé sparisjóðnum, hefði ekki gætt þeirra verðmæta sem fólust í bréfunum með því að sitja hjá í aukningunni?

Nú hefur bankastjóri Íslandsbanka, sem áður var framkvæmdastjóri hjá Glitni, kosið að koma fram og gagnrýna fyrrum stjórnendur Byrs, sem voru "de facto" eigendur Glitnis, fyrir fyrirkomulag stofnfjáraukningarinnar. Gagnrýnin á rétt á sér en hún er auðvitað til marks um þá eftiráhyggju sem einkennir þjóðfélagsumræðuna. Glitnir hagnaðist verulega á því að selja stofnfjáreigendum í Byr lán til stofnfjárkaupa og því má ekki gleyma í þessari umræðu. Bankinn tók 250 milljónir króna í ráðgjöf auk þess sem stofnfjáreigendur, sem tóku lán hjá bankanum greiddu 1% lántökugjald. Eflaust fékk Glitnir hátt í 400 milljónir fyrir sinn snúð.

Þá skal ekki horft framhjá því að andvirði aukningarinnar lá inni hjá Glitni svo mánuðum skipti á hagstæðum vöxtum. Glitnir var sá banki sem átti í mestum lausafjárerfiðleikum. Getur verið að stofnfjáreigendur í Byr hafi að einhverju leyti lengt lífdaga Glitnis? 


IV. Þriggja mínútna yfirtökuskylda

Yfirtökunefnd var sjálfstætt starfandi ráðgjafarnend er starfaði um þriggja ára skeið frá 2005 til 2008 en fyrirmynd hennar var sótt til „Takeover panel“ í Bretlandi. Hlutverk hennar samkvæmt stofnsamningi var m.a. að taka til umfjöllunar hvort til yfirtökuskyldu hefði stofnast í tilteknum tilvikum, hvort tilboðsyfirlit væri reist á réttum forsendum, gefa út yfirlýsingar um meðferð yfirtökumála og stuðla að bestu framkvæmd í viðskiptum með verðbréf sem kynnu að fela í sér yfirtökuskyldu.

Venus og Vogun
Mörg mál komu inn á borð nefndarinnar og hafði hún í nógu að snúast fyrstu árin. Eitt mála sem komu á borð hennar fjallaði um hvort yfirtökuskylda hefði myndast í Hampiðjunni í nóvember 2005 en þá hafði Fiskveiðihlutafélagið Venus fest kaup á 2,6% hlut í fyrirtækinu. Veruleg eignatengsl voru á milli Venusar og Vogunar hf., stærsta hluthafans í Hampiðjunni. Með viðskiptunum taldi yfirtökunefnd að Venus, Vogun og aðilar, sem væru tengdir persónulegum böndum, ættu sameiginlega yfir 45% í fyrirtækinu og bæri Venus því að leggja fram opinbert yfirtökutilboð.

Að mati nefndarinnar höfðu kaupin verið gerð í því skyni að treysta stöðu þessa hluthafahóps á kostnað Atorku Group, sem var næststærsti hluthafinn í Hampiðjunni með ríflega fimmtungshlut, og hindra að Atorka sjálf gæti lagt fram yfirtökutilboð. Til að gera langa sögu stutta höfðu forsvarsmenn Venusar engan áhuga á því að kaupa aðra hluthafa út á síðasta viðskiptaverði og gripu i skyndingu til þess bragðs að selja 3,5 milljónir hluta þannig að sameiginlegur hlutur Venusar og tengdra aðila fór rétt niður fyrir 45%. Í kjölfarið óskaði stjórn Hampiðjunnar eftir afskráningu af aðallista Kauphallar og skráningu á hinn nýstofnaða iSEC-markað þar sem ákvæði um yfirtökuskyldu eru miklu rýmri en á aðallistanum. Taldi yfirtökunefnd þar með að málinu væri lokið af sinni hálfu þótt augljóst væri að Venus og félagar réðu lögum og lofum innan Hampiðjunnar.


Landsbankinn kemur til bjargar
Svipað var uppi á tengingnum í FL Group í desember árið 2005 þar sem yfirtökuskyldur aðili seldi sig niður fyrir yfirtökumörk. Þar var Baugur Group yfirtökuskyldur í heilar þrjár mínútur í kjölfar þess að sameiginlegur hlutur Baugs og Oddaflugs, félag Hannesar Smárasonar forstjóra FL Group, fór upp í tæp 50% eftir einkar vel heppnað hlutafjárútboð FL. „
Rétt um þremur mínútum eftir að markaðir opnuðu birtust flagganir í Kauphöll Íslands bæði frá Oddaflugi og Baugi. Þar kemur fram að bæði félögin hafi selt 5% af eignarhlut sínum og því sameiginlegur eignarhlutur félaganna tveggja í FL Group kominn niður fyrir 40%. Nokkrum mínútum síðar birtist
tilkynning frá Yfirtökunefnd í Kauphöllinni. Þar kom fram að það væri álit nefndarinnar að eftir þessa breytingu á eignarhaldi í FL Group væri Baugi ekki lengur skylt að gera yfirtökutilboð í félagið. Segja má því að Baugur hafi verið yfirtökuskyldur í rétt rúmar 3 mínútur, þó vissulega hafi yfirtökuskyldan í raun myndast að loknu hlutafjárútboðinu sjálfu,“ sagði í hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings.

Kaupandi bréfanna var Landsbankinn sem gerði framvirkan samning við seljendur sem báru samt sem áður áfram fjárhagslega áhættu af bréfunum og fjárhagslegs ávinnings þótt bankinn hefði atkvæðisréttinn í sínum fórum. Greiningardeildin taldi að ákvörðun yfirtökunefndar skildi eftir sig fleiri spurningar en svör. „Það liggur í hlutarins eðli að fyrst hægt er að hanna samninga með þessum hætti til að komast hjá yfirtökuskyldu verða úrræði nefndarinnar að teljast bitlítil.“

III. Hækkun yfir heiði

Yfirtaka Burðaráss á norðlenska fjárfestingarfélaginu Kaldbaki á haustdögum 2004 sætti nokkrum tíðindum. Kaldbakur var að stærstum hluta í eigu Þorsteins Más í Samherja og Jóns Ásgeirs í Baugi en Burðarási var stýrt af Björgólfsfeðgum. Þangað til höfðu leiðir Björgólfsfeðga og hinna ekki legið saman. Slagkraftur Burðaráss jókst töluvert, enda stækkaði efnahagur félagsins um fjórðung.

 

Hluthafar í Kaldbaki nutu góðs af þessum samruna, enda hafði markaðsverðmæti félagsins hækkað hratt á árinu og félagið á meðal hástökkvara ársins. Kaldbakur þótti fýsilegur yfirtökukostur og ákváðu forsvarsmenn Burðaráss að láta til skarar skríða áður en Íslandsbanki eða graðfolarnir í Straumi yrðu fyrri til. Sumir hluthafar Kaldbaks tóku þó út ansi myndarlega ávöxtun á örskömmum tíma. Þann 22. september, tveimur dögum áður en tilkynnt var um samrunann, hafði KEA á Akureyri, sem hafði einmitt stofnað Kaldbak á sínum tíma, selt ríflega 27% hlut í félaginu til Kaldbaks sjálfs fyrir rúma 3,7 milljarða króna og fengið sem endurgjald hlutabréf í Samherja og reiðufé. Kaldbakur framseldi bréfin strax til Samson Global Holdings, fjárfestingararms Björgólfsfeðga, á sama verði og félagið hafði keypt, eða genginu 7,9 krónur á hlut. Björgólfsfeðgar voru þar með orðnir stærstu hluthafar beggja félaga.

 

Þann 24. september höfðu Burðarás og Kaldbakur gert með sér samkomulag um samruna félaganna en þá hafði Burðarás tryggt sér 77% hlutafjár í Kaldbaki af þremur stærstu hluthöfunum, Samson, Baugi og Samherja. Burðarás bauð öðrum hluthöfum Kaldbaks sama verð, eða  9,16 krónur fyrir hlutinn. Samson hafði þannig á skömmum tíma nælt sér í 15,9% hækkun. Hlutur sem hafði verið keyptur af KEA á rúma 3,7 milljarða var nú metinn á rúma 4,3 milljarða króna við samrunann. Þóknun Björgólfsfegða við það að koma Burðarási og Kaldbak í eina sæng nam því 600 milljónum króna. Samson fékk tæplega þriggja prósenta hlut í Burðarási í skiptum fyrir Kaldbaksbréfin á genginu 14,36 en á sama tíma kostaði einn hlutur í Burðarási fimmtán krónur á markaði. Hefði Samson farið út á markaðinn til að næla sér í þennan 3% hlut hefði félagið orðið að greiða 190 milljónum króna meira. Því má segja að Samson hafi alls grætt 800 milljónir króna á þessum viðskiptum.

 

Auðvitað vöktu viðskiptin upp spurningar um aðkomu Björgólfsfeðga að þessu máli og hvort þeir hafi setið að trúnaðarupplýsingum sitjandi beggja vegna borðsins. Í fréttaskýringu Soffíu Haraldsdóttur, Hækkun yfir Heiði, kemur fram að forsvarsmenn KEA vissu af fyrirhuguðum samruna en höfðu ekki hugmynd um hvert skiptagengið kynni að verða. Andri Teitsson, sem var framkvæmdatjóri KEA, fullyrti að félagið hefði ekki haft vitneskju um fyrirhugað skiptagengi og stjórnarformaðurinn, Benedikt Sigurðarson, tók í sama streng. „Okkur var kunnugt um að samruni félaganna hefði verið kortlagður en töldum að ekki væri búið að ganga frá samningum þar að lútandi. ... Við gerðum kröfu um að sala á bréfunum frá Kaldbak yrði á sama gengi og okkur stóð til boða. Og við það var staðið. Sá hluti viðskiptanna var sá eini sem við gátum komið að,“ sagði hann. „Skiptahlutfallið lá ekki á borðinu gagnvart okkur enda vorum við ekki aðilar að þeim þætti viðskiptanna. En ég neita því ekki að það kom okkur á óvart þegar við sáum á hvaða gengi Samson seldi hlutinn til Burðaráss.“ Ljóst var að KEA hafði engan áhuga að verða lítill hluthafi í Burðarási og sá fremur hagsmunum sínum borgið með því að verða stór hluthafi í Samherja. 

 

Hvorki Eiríki Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Kaldbaks, né Friðriki Jóhannssyni, forstjóra Burðaráss, fannst nokkuð athugavert við skiptin og gáfu til kynna að KEA-menn hefðu gert mistök með því að átta sig ekki á mögulegum skiptahlutföllum. Aðrir bentu á að hlutabréf í Burðarási hefðu lækkað eftir samrunann og því hefði ávinningurinn gufað upp. Sú lækkun gekk reyndar til baka á árinu 2005 og gott betur en það eins og sannaðist þegar Burðarási var skipt upp á milli Landsbanka og Straums. Eftirlitsaðilum og Kauphöll þótti ekki ástæða til þess að kanna hvort maðkur hefði verið í mysunni.

 

Spyrja má hvort félagsmenn í KEA og norðlenskt samfélag hafi verið þau einu sem voru hlunnfarin á snúningi Björgólfsfeðga. Erfitt er að sjá að Samson hafi verið að gæta hagsmuni hluthafa í almenningshlutafélaginu Burðarási. Smærri hluthafar í Burðarási, þar á meðal lífeyrissjóðir sem áttu alls 9% hlutafjár, voru látnir greiða 600-800 milljóna króna „þóknun“ sem stærsti hluthafinn tók sér fyrir dílinn.


II. Frændur eru frændum bestir

Eitt af meginvandamálum íslenska hlutabréfamarkaðarins (á meðan hann var og hét) lá í litlum áhuga erlendra fjárfesta á því að festa fé sitt í íslenskum hlutabréfum. Og þeir sem þó höfðu fjárfest á íslenska markaðnum var mjög umhugað um að gera vel við íslenska viðskiptafélaga sína. Um svipað leyti og risafyrirtækið Shell Petroleum seldi kolkrabbanum fimmtungshlut í Skeljungi á undirverði seldi norska verslanakeðjan Reitan Handel Bónusfeðgum hlut sinn í Baugi einnig með töluverðum afslætti og tryggði þannig að yfirtaka á Baugi gengi snuðrulaust fyrir sig. Það voru því ekki bara gamlar valdablokkir sem fengu milljónir að gjöf frá erlendum fjárfestum í einkennilegum viðskiptagerningum.

Með samruna Bónus, Hagkaupa og fleiri verslanakeðja árið 1998 var stefnan sett á að skrá mömmuna Baug í Kauphöllina og gera það að almenningshlutafélagi. En stórir fjárfestar voru Þrándur í Götu eigenda Baugs. Áhugi íslenskra stofnanafjárfesta, t.d. lífeyrissjóða, reyndist vera lítill sem enginn fyrir því að kaupa hlutabréf í verslunarkeðjunni, þar sem þeir höfðu ekki trú á „leðurjakkatöffaranum“ Jóni Ásgeiri.  Höfðu forsvarsmenn FBA og Kaupþings af þessu töluverðar áhyggjur, skiljanlega þar sem þeir sátu uppi með haug af bréfum í Baugi.

Bjargvætturinn var þó innan seilingar. Odd Reitan í Reitangruppen heitir norskur maður sem er einn áhrifamesti maðurinn í smásöluverslun í Noregi og er í þokkabót vinur Jóhannesar í Bónus. Fyrir milligöngu Jóhannesar keypti Reitangruppen tæplega 20% hlut í Baugi í október árið 1998 af FBA og Kaupþingi. Segja má að Reitan hafi komið inn eins og hvíti riddarinn í hlutverki stofnanafjárfestisins sem FBA og Kaupþing sárlega vantaði. Ármann Þorvaldsson, fyrrum forstjóri Kaupthing S&F, lýsir aðkomu Reitangruppen í bók sinni, Ævintýraeyjunni.

Baugur staldraði fremur stutt við í Kauphöllinni. Í sumarbyrjun 2003 lögðu Fjárfestingafélagið Gaumur, eignarhaldsfélag Bónusfjölskyldunnar, Kaupþing auk fleiri fjárfesta fram sameiginlegt yfirtökutilboð í Baug undir merkjum Mundar. Um svipað leyti hafði Gaumur keypt 12% hlut í Baugi af Reitan Handel fyrir 2,7 milljarða króna og fékk 13% afslátt frá yfirtökuverði. Gaumur hagnaðist þannig um 400 milljónir króna á því að kaupa hlut Norðmannanna á genginu 9,4 krónur á hlut og leggja hann svo inn í Mund á genginu 10,85.

Enn er þeirri spurningu ósvarað hvort Reitangruppen hafi verið svo framsýnt að sjá fyrir hrun íslenska markaðarins og gjaldþrot Baugs eða einfaldlega hvort félagið hafi verið leppur í því að tryggja hagsmuni annarra eigenda Baugs í skráningarferli og afskráningu.


I. Kolkrabbinn gerir kjarakaup

Í byrjun júlí 2003 var tilkynnt um að Shell Petroleum Ltd. hefði selt ríflega fimmtungshlut í Skeljungi til Sjóvá-Almennra og Burðaráss, fjárfestingararms Eimskipafélagsins. Lauk þar með 75 ára þátttöku Shell í atvinnurekstri hérlendis en félagið var meðal stofnenda Skeljungs. Það vakti óskipta athygli markaðarins að þessi stóri hlutur var seldur með verulegum afslætti en viðskiptagengið nam 12 krónum á hlut á sama tíma og markaðsgengi Skeljungs stóð í 15 krónum á hlut. Sama dag og greint var frá viðskiptunum festi Kaupþing kaup á 8% hlut í Skeljungi á genginu 15-15,7. Venjulega seljast stórir hlutir í eftirsóttum fyrirtækjum á yfirverði, sérstaklega þegar um valdabaráttu er að ræða eins og greina mátti í kringum Skeljung, en í þessu tilfelli fengu kaupendurnir í kringum hálfan milljarð króna í afslátt.

„Spurður um ástæðu sölunnar sagði talsmaður Shell í samtali við Morgunblaðið að hún væri liður í eignastýringu samstæðunnar sem er til sífelldrar skoðunar. Hann sagði jafnframt að salan og eigendaskiptin myndu engin áhrif hafa á stefnu eða starfsmannahald Skeljungs sem áfram seldi vörur frá Shell, hér eftir sem hingað til.“

Á þessum tíma var barist um eignarhald á Skeljungi sem var fornt vígi Kolkrabbans, valdablokkar sem var á síðustu bensíndropunum. Yfirráð yfir Skeljungi tryggðu ekki einvörðungu sterk ítök á olíu- og eldsneytismarkaði heldur lágu einnig þræðir Skeljung víða í gegnum atvinnulífið í gegnum girnilegt hlutabréfasafn sem samanstóð m.a. af bréfum í Eimskipi og Sjóvá. Kaupþing hafði um nokkurt skeið sópað til sín bréfum í Skeljungi og fór með 35% hlut þegar viðskiptin áttu sér stað. Kolkrabbinn hafði brugðist við dónaskap Kaupþings með því að stofna Haukþing sem fór í kapphlaup við Kaupþing um bréf í Skeljungi. Sama dag og Shell seldi í Skeljungi seldi Haukþing allan hlut sinn til sömu kaupenda auk Landsbanka og Íslandsbanka.

Þegar Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður Burðaráss, Skeljungs og Haukþings, var spurður af hverju Shell hefði selt bréf sín með fimmtungsafslætti frá markaðsgengi sagði hann að Shell hefði líklega viljað trygga að áfram yrði sala og dreifing á Shell-vörum á Íslandi. „Þeir eru búnir að vera mjög lengi í samstarfi við þessa aðila,“ sagði Benedikt í samtali við Morgunblaðið. „Hann sagði að verðið í viðskiptum með þau bréf sem Shell átti hafi verið leiðbeinandi fyrir þau viðskipti með bréf Skeljungs sem á eftir fylgdu. „Það má segja að þegar þeir voru búnir að ákveða að selja á genginu 12, þá hafi það verð ráðið sem gengið í öllum viðskiptunum með bréf Skeljungs.““

Kauphöll Íslands tók viðskiptin til skoðunar og taldi að þeir kauphallaraðilar, sem voru aðilar að viðskiptum með bréfin á genginu 12, hefðu átt að standa betur að upplýsingagjöf vegna viðskiptanna. FME tók einnig málið til skoðunar og sendi það áfram til ríkislögreglustjóra vegna hugsanlegra brota á innherjareglum.

Benedikt átti ekki von á að Skeljungur yrði tekin af markaði og neitaði að einhver illindi væru við Kaupþing. Nokkrum vikum síðar mynduðu Kaupþing, Burðarás og Sjóvá félagið Steinhóla utan um hlutabréfaeign sína í Skeljungi og tóku olíufélagið af markaði. Kaupþing eignaðist Steinhóla fyrir rest. Viðskiptin áttu sér stað þann 30. júní en voru ekki tilkynnt fyrr en þann 1. júlí eins og áður sagði. Við mánaðarmótin tóku yfirtökureglur á skráðum fyrirtækjum þeim breytingum að í stað þess að 50% eignarhlutur leiddi til skyldu um að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð lækkaði hlutfallið niður í 40%. Sjóvá og Burðarás, sem voru skilgreindir sem tengdir aðilar, áttu þannig samanlagt 45% hlut.

Aldrei hefur þó fengist skýring á því af hverju Shell yfirgaf Ísland eftir 75 ára veru með því að gefa gömlum viðskiptafélögum nærri hálfan milljarð króna. Þess má geta að forsvarsmenn Kaupþings munu hafa borið víurnar í hlut Shell Petroleum síðla árs 2002 en gengið bónleiðir til búðar. 


Undarleg Kauphallarviðskipti

Á uppgangsárum hlutabréfamarkaðarins og síðustu mánuðunum fyrir hrun hans áttu sér stað ýmsir gjörningar sem vöktu upp fjölmargar spurningar án þess að nægjanleg svör hafi verið veitt. Viðskiptin lyktuðu oft af vinargreiða, gjafmildi og misnotkun í skjóli krafts eða upplýsinga sem fáir höfðu. Kannski voru bara tilviljanir sem réðu atburðarrásinni. Eftirlitsaðilar aðhöfðust lítið sem ekkert í sumum þessara mála en önnur eru nú m.a. í skoðun rannsakenda bankahrunsins. Á næstu dögum verða nokkur einkennileg viðskipti rifjuð upp á þessari síðu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband