Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
4.12.2009 | 11:49
Hluthafar í Arion
Reiknað er með allt að 30 þúsund kröfuhafar frá 50 löndum muni lýsa yfir kröfum í þrotabú Gamla-Kaupþings og eignist hlut í Arion banka samkvæmt samkomulagi skilanefndar og ríkisins. Þetta er talsverður fjöldi þegar haft er í huga að í gamla almenningshlutafélaginu voru hluthafar um 32 þúsund talsins í árslok 2007, þar af 6.500 erlendir fjárfestar og einn sjeik við hrunið.
Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess í gegnum tíðina að útlendingar leggi peninga inn í íslensk fyrirtæki. Niðurstaðan með eignarhald Arion er vafalaust sú besta í stöðunni; að kröfuhafar sjái hagsmunum best borgið að reka og byggja upp banka á Íslandi og ríkið minnki gífurlegar skuldbindingar sínar.
1.12.2009 | 12:25
Bjóðum vofuna velkomna
Á sama tíma og hættan á verðhjöðnun fjarar út í mörgum OECD-ríkjum eigum við Íslendingar í stökustu vandræðum að ná verðbólgunni niður þrátt fyrir mikinn samdrátt í hagkerfinu. Greinendur og Seðlabankinn gerðu á sínum tíma ráð fyrir að verðbólgan myndi dragast verulega saman á seinni hluta þessa árs en nú er fyrirséð að verðbólga haldist há langt fram á næsta ár, þökk sé veikri krónu og nýjustu skattahækkunum ríkisins.
Ég man bara ekki hvenær verðbólgan innan árs fór síðast undir 3,0%. Var það ekki árið 2002? Nú mælist tólf mánaða verðbólga 8,7% í bullandi samdrætti og sumir telja að hún muni jafnvel hækka á næstu mánuðum, jafnvel fara upp í 10%!
Það yrði sterkur leikur yfirvalda að bjóða verðhjöðnunarvofunni að taka vetursetu á Íslandi og senda verðbólgudrauginn úr landi.
Verðhjöðnunarvofa á undanhaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2009 | 11:41
Afskriftir, afslættir og aðhald
Ég og mín ektakvinna keyptum okkur nýverið skó í ónefndri skóverslun í Smáralind sem er svo sem ekkert fréttnæmt, enda urðu Íslendingar skósjúkir eftir að það þótti púkalegt að ganga um í slitnum skóm að hætti forfeðra okkar. Nema það þegar ég bað um afslátt, sem starfsmaður fyrirtækis í Smáralind, þá var mér sagt að verslunin hefði afnumið alla afslætti, til öryrkja, ellilífeyrisþega og starfsfólks í Smáralindinni.
Verslun þessi er hluti af stærsta skóbúðaveldi landsins. Ég spurði afgreiðslustarfsmanninn í illkvittni minni hvort það væri rétt hjá mér munað að keðjan hefði nýverið skipt um kennitölu. Jú, starfsmaðurinn kannaðist við það. Reyndar kom það ekki fram í samtali okkar að keðjan skildi eftir sig fleiri hundruð milljóna króna skuld í þrotabúi Sparisjóðabankans þegar búðirnar voru færðar yfir á nýja kennitölu. Betra er seint en aldrei að taka til í rekstrinum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2009 | 10:14
Hafa skilin kannski batnað?
Það er ekkert launungarmál að forráðamenn íslenskra fyrirtækja hafa til margra ára verið miklir slóðar þegar kemur að því að skila inn ársreikingum í tæka tíð. Mér þætti gaman að fá að vita hvort skilin hafi batnað eftir að ársreikningaskrá fékk heimildir til þess að sekta fyrirtæki fyrir að skila ekki reikningum sínum í tæka tíð. Hefði ekki verið eðlilegt að spyrja framkvæmdastjóra Creditinfo um það?
Þótt aðeins helmingur fyrirtækja hafi skilið inn reikningum fyrir ágústlok þá grunar mig nefnilega að skilin hafi batnað með aukinn umræðu um þessi mál sem og sektarheimildum ársreikningaskrá. Ég spyr einnig hvort það væri ekki eðlilegra að líta á heildarskil í nóvemberlok hvert ár þegar kærufrestur vegna álagningar lögaðila rennur út þótt lögin segi reyndar að félög hafi átta mánuði til að skila inn ársreikingi vegna síðasta rekstrarárs.
Léleg skil á ársreikningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2009 | 14:27
Marel verst af krafti
Marel lagðist í stórfelldar fjárfestingar á árunum 2005 til 2007 í Danmörku, Englandi og Hollandi sem jók skuldsetningu félagsins til muna. Með hruni bankakerfisins og erfiðri tíð á lánsfjármörkuðum var ljóst að Marel myndi eiga í erfiðleikum með að mæta gjalddögum á næstu ári. Niðurstöður þessa hlutafjárútboðs eru því ánægjulegar og athyglisvert að margir lánardrottnar voru tilbúnir að breyta skuldabréfum yfir í hlutabréf; þeir telja væntanlega að ávöxtun hlutabréfanna verði meiri en skuldabréfa.
Eigendur hlutabréfa í Marel hafa þó langt í frá riðið feitum hesti frá eign sinni ef horft til ávöxtunar undanfarin ár. Þegar Marel tók yfir Scanvægt fyrir þremur árum seldi félagið nýtt hlutafé fyrir 5,5 milljarða króna þar sem útboðsgengið nam 74 krónum á hlut en viðmiðunarngið nú er 63 krónur á hlut.
Hlutafé Marel eykst um 18% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2009 | 09:09
Skattkerfið blæs út
Fjármálaráðherra beitir sérkennilegum rökum fyrir því að ríkisvaldið hefur nú aðgerðir til þess að afnema sjómannaafsláttinn. Þar sem aðstæður á mörkuðum hafa hækkað tekjur sjómanna langt umfram tekjur annarra hópa á liðnum mánuðum þá sé rétti tímapunkturinn að taka afsláttinn af þeim. Sérfræðingar ráðuneytisins gerast síðan svo djarfir að spá fyrir að tekjur sjómanna verði áfram háar!
Auðvitað eru helstu rökin fyrir afnámi sjómannaafsláttar sanngirnismál; að einn þjóðfélagshópur njóti ekki skattfríðinda umfram aðra. Sjómannaafslátturinn er barns síns tíma og stendur í dag fyrst og fremst fyrir sem "niðurgreiðsla" ríkisins á launakostnaði útgerðarinnar. Hitt er svo annað mál að sjómenn geta varla sætt sig við þessa tekjuskerðingu og kemur það því líklega í hlut útgerðarinnar að bæta upp að hluta það tekjutap sem sjómmenn verða fyrir.
Á sama tíma og ætlunin er að afnema þennan skattaafslátt hefur núverandi ríkisstjórn tekist að flækja skattkerfið á ótrúlegan hátt með fjölgun tekjuskattsþrepa, fjölgun þrepa í virðisaukaskatti, fjölgun þrepa í fjármagnstekjuskatti, hækkun tryggingargjalds um 60% á skömmum tíma, hækkun orkuskatta og aukinni skriffinnsku og vinnu fyrir atvinnurekendur.
Boðar afnám sjómannaafsláttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2009 | 14:59
Húsasmiðjan og tax-free
Í byrjun október yfirtók Vestia, eignarumsýslufélag Landsbankans, allt hlutafé í Húsasmiðjunni en ætlunin er að selja fyrirtækið í opnu tilboðsferli. Húsasmiðjan, sem rekur 16 verslanir, hefur glímt við rekstrarvanda um nokkurt skeið. Í dag ber svo við, tæpum mánuði til jóla, að haldinn er "tax-free" dagur í Húsasmiðjunni. Allt á tæplega fimmtungsafslætti um það leyti er jólasalan er að komast á fullt, jólaskraut og annað.
Þarna er nákvæmlega eitt dæmi um það hvernig bein innkoma bankanna í íslenskt atvinnulíf, sem forstjóri Nýherja gagnrýnir, drepur allt í dróma; banki tekur yfir fyrirtæki, setur inn í það nýtt eigið fé og heldur því þannig gangandi í samkeppni við einkafyrirtæki með því að keyra niður verðin skömmu fyrir jól. Með því að örva söluna með þessum hætti tryggir Húsasmiðjan sér gnótt lausafjár en að sama skapi harðnar á dalnum hjá keppinautunum sem búa ekki við þann munað að eiga öflugan bandamann, þ.e. ríkisbanka.
Gagnrýndi bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2009 | 22:59
Dökk framtíð frjálsra fjölmiðla
Jónas ritstjóri Kristjánsson hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að vandi fjölmiðla á Íslandi sé ekki skortur á tilskipunum stjórnvalda heldur slæmur rekstur og eigendabrölt. Nú er í undirbúningi ný og víðtæk löggjöf um fjölmiðla þar sem ætlunin er m.a. að koma á fót Fjölmiðlastofu á sama tíma og alls staðar er verið að skera niður. Það er spurning hvort menn ættu ekki að ráðast að rót vandans áður en víðtæk löggjöf sem þessi er sett fram. Til hvers að setja ný fjölmiðlalög þegar framtíð íslenskrar fjölmiðlunar er í mikilli óvissu vegna skuldavanda og gegndarlauss taprekstrar.
En það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni að erfiðlega gangi að reka íslenska fjölmiðla og bera tíð gjaldþrot fjölmiðlafyrirtækja glöggt vitni um það. Þessi áratugur er þó óvenjulegur fyrir þær sakir að við höfum séð nokkur hrottaleg gjaldþrot fjölmiðla. Allir helstu einkafjölmiðlar landsins hafa orðið gjaldþrota og farið í kennitöluskipti, þar á meðal DV, Viðskiptablaðið og risarnir 365 miðlar og Árvakur. Opinbera hlutafélagið RÚV er tæknilega gjaldþrota í dag, aðeins tveimur árum eftir að ríkið hljóp undir bagga með því þegar það var orðið gjaldþrota. Tvö gjaldþrot sama ríkisfjölmiðils á tveimur árum hlýtur að vera heimsmet (alla vega Íslandsmet)!
Ekki er óvarlegt að áætla að íslensk fjölmiðlafyrirtæki hafi tapað u.þ.b. tíu milljörðum króna á þessari öld og eflaust enn meira ef allt Dagsbrúnarævintýrið væri tekið með í reikninginn. Þung skuldastaða, miklar niðurfærslur vegna misheppnaðra fjárfestinga, lífeyrisskuldbindingar og innkoma Fréttablaðsins á blaðamarkað skýra m.a. ástæður þessa mikla taps.
Þegar fjárfestar þora ekki lengur að leggja fjármuni í gæluverkefni eins og fjölmiðla, lánastofnanir halda að sér höndum og helstu tekjulindir dragast hratt saman er full ástæða til að óttast um framtíð frjálsra fjölmiðla á Íslandi. Ríkisútvarpið heldur áfram að soga til sín fjármuni í gegnum skattpeninga og auglýsingatekjur. Nýir lögaðilar spretta fram eins og gorkúlur og tryggja þannig í gegnum nefskattinn áframhaldandi tekjustreymi fyrir ríkismiðilinn.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2009 | 16:34
Lítil þúfa veltir þungu hlassi
Stærstu hlutafélögin sem mynduðu íslenska hlutabréfamarkaðinn voru að nafninu til almenningshlutafélög. Staðreyndin var hins vegar sú smærri hluthafar voru aðallega notaðir sem skraut á aðalfundum, enda réðu stærstu hluthafar lögum og lofum - meira að segja í sparisjóðunum. Og sumir gengu allt of langt.
Snemma árs komu stofnfjáreigendurnir Sveinn Margeirsson, nú stjórnarmaður í Byr, og kona hans Rakel Gylfadóttir fram í Kastljósi og bentu á þau makalausu viðskipti sem höfðu farið fram með stofnfé Byrs á milli MP banka og skúffufélagsins Exeter Holdings. Þar blönduðust aukinheldur inn í lánveitingar frá sparisjóðnum og viðskipti þáverandi stjórnarmanna, sem virðast hafa notið sjóði sparisjóðsins í eigin þágu, og núverandi og fyrrverandi starfsmanna Byrs. Viðskiptin fóru fram á fáranlegu yfirverði eftir að fjármálakerfið hrundi og voru fjármögnuð af sparisjóðnum sjálfum með veði í bréfum sem í dag eru einskis virði.
Hver sem niðurstaðan verður er greinilegt að yfirvöld líta málið alvarlegum augum eins og atburðir dagsins bera glöggt vitni um.
Yfirheyrslur standa yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2009 | 17:46
Stríðskostnaður atvinnuleysisins
Það er með ólíkindum hversu lítil umræða hefur farið fram um væntanlega 1,6 prósentustiga hækkun tryggingagjalds sem á að skila ríkissjóði tólf milljörðum króna á næsta ári. Eins og margir muna, a.m.k. atvinnurekendur, var tryggingagjald hækkað um mitt þetta ár úr 5,34% í 7,0%, eða um 31%. Um næstu áramót fer prósentan í 8,6% og því hefur tryggingagjaldið, sem reiknast á heildarlaun, hækkað um rúm 60% á innan við ári! Fyrir fyrirtæki sem greiðir 100 milljónir í laun á hverju ári hefur breytingin þýtt að launakostnaður vegna aukinna launatengdra gjalda hefur hækkað um meira en þrjár milljónir á nokkrum mánuðum. Það sér hver heilvita maður að þetta getur ekki annað en aukið vanda fyrirtækja, haldið uppi háu atvinnuleysi og lækkað kaupmátt.
Þetta er vítahringur; hækkun tryggingagjalds mun leiða til þess að fyrirtæki draga úr launakostnaði og halda að sér höndum við mannaráðningar. Svarta hagkerfið mun blómstra. Hvernig þetta muni á endanum auka skatttekjur ríkissjóðs er mér hulin ráðgáta.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)