Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
8.3.2009 | 14:01
Kauphöllin heggur í ríkið
Á dögunum sagði Fréttablaðið frá stríði sem er í uppsiglingu á milli Nasdaq OMX kauphallarsamstæðunnar og Kauphallarinnar í Osló. Nasdaq, sem á m.a. Kauphöllina í Reykjavík og 5% hlut í Osló Börsen, ætlar á næstunni að bjóða fjárfestum að kaupa í 25 stærstu kauphallarfyrirtækjum Noregs. Þetta getur skiljanlega haft veruleg áhrif á afkomu norsku Kauphallarinnar.
Svo skemmtilega vill til að ríkisbankinn Nýi-Landsbankinn heldur utan um 6,5% hlut í Kauphöllinni í Osló - hlutur sem bankinn fékk í arf frá Landsbankanum gamla. Gamli Landsbankinn keypti bréfin árið 2007, áður en verulega dró úr umsvifum á hlutabréfamörkuðum, í þeim tilgangi að hagnast á líklegum samrunum kauphalla sem voru þá í tísku. Miðað við að Nasdaq hafi fært verðmæti eignarhlutar síns í norsku kauphöllinni niður þá hefur eign Nýja-Landsbankans einnig rýrnað.
En staðan er þannig: Íslenska kauphöllin og eigendur hennar eru komnir í bullandi samkeppni við norsku kauphöllina og eigendur hennar, þar á meðal íslenska ríkið.
7.3.2009 | 17:41
Express fer yfir á Gatwick
Flaug með Iceland Express á Stanstead í vikunni. Senn líður að því að Express flytji bækistöðvar sínar til Gatwick, sunnan Lundúna, eða nánar tiltekið þann 1. maí. Mig grunar að ástæðan fyrir þessum flutningi sé einna helst sú að aðstöðugjöld séu lægri á Gatwick en Stanstead. Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvort íslenskir flugfarþegar eigi ekki eftir að verða fyrir töluverðum óþægindum við þessa breytingu. Til dæmis þá er Stanstead enn þá höfuðvígi Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu. Ryanair flýgur til 106 áfangastaða frá Stanstead en aðeins til sjö frá Gatwick.
Á móti hefur easyJet, næststærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, verið að færa leiðir sínar yfir á Gatwick og flýgur á töluvert fleiri staði frá Gatwick en Stanstead.
4.3.2009 | 14:33
Hver er ábyrgð félagsstjórnar?
Ég spyr hvað í ósköpunum hefur stjórn Ísfélags Vestmannaeyja verið gera í sínum störfum? Hún hefur eftirlitshlutverk með bókhaldi og fjárreiðum félagsins, samkvæmt hlutafélagalögum, og setur fram stefnu og fyrirmæli sem framkvæmdastjóri og æðstu stjórnendur eiga að fylgja eftir. Nú stóðu nær öll sjávarútvegsfyrirtæki í einhvers konar afleiðusamningum við bankana sem fólu í sér varnir gegn gengissveiflum. Hvernig gat þetta farið framhjá stjórnarformanni að kanna ekki betur stöðu Ísfélagsins?
En það er svo sem auðvelt að líta ekki í eigin barm þegar hluthafinn er einráður í stjórn.
![]() |
Gunnlaugur: Erum ekki fjármálafyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 22:54
Með Baug á heilanum
Niðurstaða Capacent hlýtur að vera uppreisn æru fyrir þá sem hafa viljað sjá veg viðskiptablaðamennsku sem mesta hérlendis. Margir úr hinni sjálfhverfu fjölmiðlastétt hafa á síðustu árum kvartað sáran yfir miklu vægi viðskiptafrétta í innlendum fjölmiðlum og horfðu með söknuði til "gulláranna" þegar flokksblöðin deildu og drottnuðu. Og þetta kvak hefur m.a. orðið til þess að fólk er með Baug, umdeildasta fyrirtæki landsins, algjörlega á heilanum.
Þegar á hólminn var komið snerist íslensk fréttamennska, eins og alltaf, um hið gamla og þreytta fjórflokkakerfi.
![]() |
Héldu að Baugur hefði verið oftast í fréttum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2009 | 17:20
Máttlausar aðgerðir fyrir fyrirtækin
Frá bankahruninu hafa stjórnvöld lítið gert til þess að létta fyrirtækjum erfiðan róðurinn og koma í veg fyrir gjaldþrotahrinu þeirra. Hér eru helstu aðgerðirnar:
15. október 2008 - tímabundin niðurfelling álags vegna skila á staðgreiðslu (vikufrestur)
14. nóvember - tímabundinn gjaldfrestur á aðflutningsgjöldum. Fyrirtækjum var gefinn kostur á að skipta greiðslum í þrjá hluta en í stað dráttarvaxta voru reiknaðir venjulegir bankavextir
14. nóvember - tímabundin niðurfelling álags vegna skila á staðgreiðslu (vikufrestur)
4. desember - tímabundin niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti (vikufrestur)
29. janúar 2009 - tímabundin niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti (vikufrestur)
27. febrúar - tímabundin niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti hjá aðilum á landbúnaðarskrá (vikufrestur)
Sú leið sem var farin hjá atvinnurekendum og launþegum að fresta launahækkunum um fjóra mánuði var mun hagfelldari og áhrifaríkari leið en allar þær aðgerðir sem ríkisvaldið hefur ráðist í. Augljóstasta aðgerðin er auðvitað sú að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferlið tafarlaust. En það verður einhver bið á því. Hver dagur sem líður kallar á meira atvinnuleysi og meiri eymd.
![]() |
Vextir fara að lækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.2.2009 | 18:00
Hvað gerist með stóru sparisjóðasameininguna?
Hvað verður þá um samrunaviðræður Byrs, SPRON og Sparisjóðsins í Keflavík, sem hófust í desember? Þær hljóta þá að dragast enn á langinn.
Staða þessara sparisjóða hlýtur að vera mjög óljós eins og gildir um öll smærri fjármálafyrirtæki. Það er væntanlega vilji á meðal ríkisvaldsins að styðja þessara sparisjóði með eiginfjárinnspýtingu.
![]() |
Dótturfélög SPRON sameinuðu móðurfélagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2009 | 18:18
Verslun er óarðbær
Það er kunnara en frá þurfi að segja að verslun á Íslandi hefur verið allt of óhagkvæm og ein óarðbærasta atvinnugrein þjóðarinnar. Ein ástæðan er sú að þrátt fyrir Haga, Kaupás og fleiri hákarla hefur verið auðvelt að hefja verslunarrekstur, enda er startkostnaður oft lítil en samkeppnin oft hörð. Ég er því ekki endilega sammála um að fákeppni þurfi að vera svo slæm. Stærri einingar ættu að vera hagkvæmari en þær smærri og leiða til lægra vöruverðs neytendum til hagsbóta. Stóru keðjurnar hafa hins vegar einblínt á ytri vöxt í góðærinu svokallaða í stað þess að styrkja innri vöxt. Hinn gríðarlegi vöxtur stórra verslanakeðja á undangengnum árum hlýtur að taka í og leiða til enn frekari samdráttar í verslun og innflutningi.
Einnig má benda á að fjárfesting í verslunarhúsnæði á Íslandi hefur verið út úr öllu korti og þar bera stóru verslanakeðjurnarnar mikla ábyrð auk fasteignafélaga sem oft eru í eigu sömu aðila. Þegar ég starfaði á Markaðnum skrifaði ég eitt sinn frétt um að í byggingu væru átta Smáralindir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, eða um 250 þúsund fermetrar. Sú tala hækkaði örugglega og nú sitjum við uppi með tóm eða vannýtt verslunarrými út um allt suðvesturhornið.
En hvað er maður svo sem að tauta og raula? Er sjálfur að opna verslun í vikunni!
![]() |
Óeðlileg samkeppni í verslun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2009 | 18:27
Er eiginfjárstaða SS virkilega sterk?
Sláturfélag Suðurlands tapaði rúmum 1,5 milljarði króna á síðasta ári og hrundi eiginfjárhlutfall samstæðunnar um tuttugu prósentustig á milli ára, úr 36% í ársbyrjun 2008 niður í 16% um síðustu áramót. Staðan hefði verið enn verri ef ekki hefði komið til verulegt endurmat fasteigna í árslok. Gengisfall krónunnar og verðbólga léku Sláturfélagið grátt á síðasta ári.
Það er rétt að grunnrekstur SS stendur traustum fótum en sú fullyrðing stjórnenda fyrirtækisins um að það búi við sterka eiginfjárstöðu er kolröng. Eiginfjárhlutfallið er lágt, langtímaskuldir hækkuðu um tvo milljarða króna á síðasta ári og fjármagnsgjöld hafa stóraukist til frambúðar.
Ég hef skrifað um að SS skoði hlutafélagavæðingu til þess að styrkja eiginfjárstöðu sína.
![]() |
Rúmlega 1,5 milljarðs tap hjá SS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2009 | 22:30
Reynsluboltar hverfa á braut
Nú hafa tveir fyrrverandi sparissjóðstjórar gamla SPK látið af störfum hjá Byr sparisjóði. Carl H. Erlingsson, sem hætti fyrir nokkrum vikum, og Ingólfur V. Guðmundsson eru reynslumiklir bankamenn sem unnu frábært starf hjá SPK. Sparisjóðurinn var kominn í töluverðar ógöngur snemma á öldinni en þeim tókst að snúa þróuninni við. SPK var þannig orðinn einn sterkasti sparisjóðurinn þegar hann sameinaðist BYR.
Það vekur alltaf athygli þegar reynsluboltar úr bankaheiminum hverfa á braut, ekki síst þegar haft er í huga nýlega könnum Samtaka fjármálafyrirtækja sem sýndi að hátt hlutfall starfsmanna banka og sparisjóða hafði litla starfsreynslu.
![]() |
Framkvæmdastjóri Byrs verðbréfa lætur af störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2009 | 08:56
Góð hugmynd
Það væri sterkur leikur að selja kröfuhöfum gamla Kaupþings nýja bankann. Margir hafa áhyggjur af því að Ísland sé að einangrast frá útlöndum og gæti þessi aðgerð hjálpað stórlega við að endurreisa fjármálakerfið og atvinnulífið hérlendis. Nú síðast sagði Gylfi Zoëga að það væri engin framtíð á Íslandi án erlends fjármagns.
Hitt er svo að innan veggja Kaupþings liggur mikill mannauður og miklir hæfileikar sem hægt er að nýta í allra þágu. Ég er hræddur um að eignarhald ríkisins á bankanum til lengri tíma muni drepa þennan kraft í dróma.
Svo er bara að sjá hvernig stjórnmálamennirnir, sem nú ráða skyndilega ríkjum, taka í hugmyndina.
![]() |
Áforma að selja körfuhöfum Nýja Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |