Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Borgun lætur aðra borga brúsann

Borgun brýst fram á sjónarsviðið þessa dagana með auglýsingar sem lýsir ágætlega því viðhorfi sem gömlu greiðslukortafyrirtækin hafa haft gagnvart seljendum. Þar segir einfaldlega að þeir seljendur sem taki ekki við öllum tegundum krítarkorta séu dónar við kaupendur!

Einhver ástæða er fyrir svona uppslætti og grunar mig sterklega að Borgun eigi í mestu vandræðum með að troða American Express-kortinu inn á þá sem reka verslanir og þjónustu. Ástæðan er einföld: Færslugjöld af AMEX eru svívirðileg eða 3,9% af hverri færslu samkvæmt gjaldskrá Borgunar. Til samanburðar eru færslugjöld af VISA og Mastercard á bilinu 1,0-1,95%. Þessu til viðbótar er hvorki í boði að gera upp AMEX-kort daglega né vikulega eins og hægt er með önnur kort. Og eykur það enn á kostnað smásalans.

Þessi mikli ókostur AMEX-korta hefur auðvitað valdið því að margir seljendur taka ekki við kortinu eða biðja jafnvel neytendur um að framvísa öðrum greiðslukortum ef það er hægt. Neytendur, sem hafa fengið sér slík kort í von um að fá mikil fríðindi og greiða allt að 32.500 krónur í árgjald, ganga oft bónleiðir til búðar og telja sig svikna.

Ég er ekki einn um það að benda á þessa viðskiptahætti American Express. Fyrirtækið hefur allar götur frá því að fyrsta kortið kom á markað árið 1958 reynst smásölum dýrara en VISA og Mastercard. Þetta hefur verið gert undir þeim fagurgala að neytendur vilji AMEX kortið fremur vegna þeirra fríðinda sem þeir safna á kostnað endursöluaðila. 


Lansinn og flokkurinn

Hinn hái styrkur Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006 hlýtur að styrkja kenningasmiði samsæra og baktjaldamakks enn frekar í trúnni um að Landsbankinn hafi notið sérstakrar velvildrar ráðandi afla. Bankinn var nú einu sinni seldur mönnum sem tengdust flokknum og sat framkvæmdastjóri flokksins í bankastjórninni um langt skeið. Þá störfuðu fjölmargir áberandi sjálfstæðismenn í framvarðarsveit Landsbankans.

Í heimi þar sem Landsbankinn og Kaupþing voru de facto ríki í ríkinu, og forsvarsmenn og eigendur hvors banka yrtu varla á hvern annan nema af illri nauðsyn, held ég að þetta nána samband Landsbankans og Sjálfstæðisflokksins hafi vakið tortryggni víða. Var Landsbankanum legið á hálsi að sitja að trúnaðarupplýsingum úr stjórnarráðinu sem aðrir höfðu ekki. Þar má til dæmis nefna þessi skuldabréfaviðskipti bankans eftir að ríkisstjórnin gerði breytingar á Íbúðalánasjóði.


mbl.is Heiður Sjálfstæðisflokksins ekki metinn til fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnleysi og vanhæfi í Byr

Stjórnleysi virðist ríkja í Byr sparisjóði miðað við fréttir að undanförnu og heyrir maður mikla reiði hjá stofnfjáreigendum í garð stjórnenda sparisjóðsins. Sumir stofnfjáreigendur eru skuldsettir vegna stofnfjáraukningar í árslok 2007 og gætu orðið gjaldþrota ef allt fer á versta veg. Í Kastljósþætti í gær kom fram að það voru ekki einungis starfsmenn sem sluppu úr snörunni þegar MP Banki gerði veðkall í stofnfjárbréf þeirra heldur áttu einnig stjórnarmenn hlut að máli. Á sama tíma hafði verið lokað fyrir almenn stofnfjárviðskipti á markaði hjá MP í tvo mánuði. Þessi atburðarrás hlýtur að vekja upp spurningar hvort stjórnendur og stjórnarmenn í Byr séu einfaldlega hæfir til að gegna störfum sínum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þar segir m.a.:

52. gr. Hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, [samkeppnislögum],1) þessum lögum, eða löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið [sic].

Stjórnarformaður Byrs til margra ára, Jón Þorsteinn Jónsson, hrökklaðist frá Borgartúninu fyrir fáeinum vikum. Hann virðist hafa komið við sögu í þessum gjörningi á milli Byrs, MP Banka og Exeter í október í fyrra. Sömu sögu er að segja af Birgi Ómari Haraldssyni, núverandi stjórnarmanni í Byr. Þá flutti Sundarinn Jón Kristjánsson, núverandi stjórnarformaður, stofnfjárbréf yfir í eignarhaldsfélag um þetta leyti.

Margt annað einkennilegt virðist hafa átt sér stað innan veggja Byrs, þar á meðal gríðarlegar afskriftir útlána sem tengdust aðilum tengdum stærstu stofnfjáreigendum sparisjóðsins. Virðisrýrnun útlána nam um 24 milljörðum króna á síðasta ári sem var meginskýringin fyrir gríðarlegu tapi á síðasta ári.  Það hefur borist til minna eyrna að sum af þeim lánum, sem hafa verið afskrifuð, hafi aldrei verið lögð fyrir lánanefnd sparisjóðsins. Rannsókn FME hlýtur einnig að beinast að þessum þætti.


mbl.is Funda um stjórnun Byrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CCP nálgast markmið sín

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að sitja aðalfund CCP sem haldinn var í dag. Það er óhætt að fullyrða að CCP er eitt flottasta fyrirtæki landsins, eins og ársreikningur síðasta árs ber með sér, og framtíðin björt.

Fjármagnsliðirnir voru fyrirtækinu afar hagstæðir. Á sama og íslensk fyrirtæki fjármögnuðu sig í erlendri mynt þá fór CCP algjörlega öfuga leið og tók lán á íslenskum okurvöxtum. Þegar krónan gaf eftir á síðasta ári myndaðist gengishagnaður í bókum CCP, sem gerir upp í USD, upp á níu milljónir dollara (sem reyndar er óinnleystur).

En vöxtur fyrirtækisins hefur verið lygilegur frá því að bankarnir hrundu. M.a. með samvinnu við Atari í markaðsmálum hefur áskrifendum EVE Online fjölgað um tæpan fimmtung frá áramótum og nálgast nú 300 þúsund áskrifenda múrinn. Er nú stutt í að gamalt markmið stjórnenda CCP náist, þ.e. að áskrifendur EVE online verði fleiri en Íslendingar.


mbl.is CCP græddi fimm milljón dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan veikari en um áramót

Krónan heldur áfram að gefa eftir þrátt fyrir að hert hafi verið á gjaldeyrishöftum. Þetta hlýtur að valda stjórnvöldum áhyggjum en spurningin er hins vegar sú hvort það sé ekki eina lausnin að láta krónuna gossa í eitt skipti og hreinsa krónubréfin út úr kerfinu.

Gengisvísitala krónunnar stendur nú í 218 stigum og er því komin upp fyrir áramótagildi sitt. 


mbl.is Japanska jenið styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður fólk við afborganir?

Ég man ekki betur en að Glitnir hafi fyrir nokkrum árum boðið viðskiptavinum sínum að fjármagna íbúðir sínar með óverðtryggðum lánum. Fáir ef nokkrir nýttu sér þennan lánakost. Fasteignaeigendur vildu fremur verðtryggð eða erlend lán, enda afborganir af óverðtryggðum lánum eitthvað sem fáir geta ráðið við miðað við vaxtastig á síðustu árum. Fyrsta vaxtagreiðsla af 18 milljóna króna láni er um 278.000 kr. miðað við 18,5% vexti en lækkar svo eftir því sem gengur á höfuðstólinn.

Svo var það Allianz sem íhugaði að bjóða óverðtryggð fasteignalán en ekkert varð úr því.

En miðað við lækkun verðbólgu og það háa vaxtastig sem við búum við þá er varla hægt að mæla með því setja óverðtryggt lán á húsið sitt.


mbl.is Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir MP

Margeir Pétursson hefur í gegnum tíðina verið óspar að benda á hættuna við það að taka lán í erlendri mynt og reynst sannspár. Í síðasti þætti Markaðarins mælti hann með því að þeir sem væru með slík lán skuldbreyttu þeim í íslenskar krónur, enda teldi hann að gengi krónunnar væri of hátt skráð. Vöktu þessi orð Margeirs mikla athygli, eins og gefur að skilja, og ekki örgrannt um að margur landinn hafi svitnað hressilega.

Hins vegar tók Margeir það ekki fram að MP Banki, þar sem hann er stærsti hluthafinn, hefur töluverða hagsmuni af því að krónan haldist veik og veikist. Hrein erlend eignastaða MP Banka nam tæpum 5,8 milljörðum króna um síðustu áramót. Til samanburðar var eigið fé bankans um 4,6 milljarðar. Það er því viðbúið að stjórnendur MP hafi einmitt verið þeir sem voru að svitna þegar krónan styrktist um rúm 10% á fyrstu vikum ársins.

Þótt fáir efist um heilindi Margeirs Péturssonar þarf auðvitað að skoða orð hans frá fleiri hliðum en einni.


mbl.is Salan á SPRON komin í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Huldufélagið Hesteyri kveður

Margir halda að íslensku huldufélögin hafi bara þrifist í skattaskjólum á borð við Tortola og Lúxembourg. Þetta er fjarri sanni og þarf ekki nema að líta á öll félögin sem endurskoðunarskrifstofurnar hafa stofnað á síðustu árum, t.d. AB, ELL og FS. Eitt mesta huldufélagið í íslensku viðskiptalífi, eftir að Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar (Gift) kom út úr skápnum, er tvímælalaust Eignarhaldsfélagið Hesteyri sem nú hefur verið skipt upp. Að sögn Lögbirtingarblaðsins verður til við skiptingu Hesteyrar Berio ehf. og miðast skiptingin við 1. september á síðasta ári - áður en bankakerfið hrundi. Reynar er uppskipting þessa félags hin furðulegasta þar sem til stóð að skipta því upp árið 2006 á milli eigenda þess sem voru Fiskiðjan Skagfirðingur (Kaupfélag Skagfirðinga), Skinney-Þinganes og Ehf. Samvinnutryggingar.

Þótt sögu Hesteyrar megi rekja til ársins 1989 er það fyrst í einkavæðingu Búnaðarbankans sem félagið leikur stórt hlutverk. Eftir baráttu milli valdablokka Framsóknarflokksins, þar sem Ólafur Ólafsson í Samskipum og Þórólfur kaupfélagsstjóri á Króknum tókust á, fékk Hesteyri um fjórðungshlut í VÍS sem varð stærsta eign þess auk eignarhlutar í Skinney-Þinganesi, fjölskyldufyrirtæki Halldórs Ásgrímssonar. Þannig var krosseignarhald á milli félagsins og hluthafans Skinneyjar. Afar lítið fór hins vegar fyrir þessu félagi í umræðunni og vildu eigendur þess sem minnst um það tala.

VÍS hagnaðist gríðarlega á árunum 2003-2006. Félagið átti m.a. stóran hlut í Kaupþingi og hinum ýmsu hlutafélögum. Fyrirtækið var tekið af markaði af Kaupþingi-Búnaðarbanka, Hesteyri, Ehf. Samvinnutryggingum og Ehf. Andvöku árið 2004. Yfirtökugengið var 49 krónur á hlut sem fljótlega reyndist vera algjört tombóluverð. Exista yfirtók VÍS árið 2006 og fékk Hesteyri hlutabréf í Existu í skiptum sem nam rúmum 5% af heildarhlutafé. Ólíkt Gift, sem jafnframt átti fjórðungshlut í VÍS, var Hesteyri ekki bundið af því að eiga bréfin til langframa og gat því mjatlað út bréfunum. Gift grillaðist á sama tíma, enda hrundi verðmæti Existu þegar Kaupþing féll.

 


Aðför að blaðamönnum

Ég held að Fjármálaeftirlitið sé komið út á ansi hálan ís með þessum leik og lýsir þetta algjöru þekkingarleysi á störfum fjölmiðla. Stofnunin ætti frekar að einbeita sér að þeim bankamönnum sem eru að leka út þessum gögnum svo þau verði opinber. Hverjir hafa til dæmis fullan aðgang að lánabókum bankanna?

Massíft er verið að leka út upplýsingum, sem tengjast bankahruninu, úr bönkum og opinberum stofnunum, s.s. ráðuneytum, þessa dagana. Og það er svo sem ekkert nýtt þótt vafalaust sé meira um það nú en áður. Sumt af því sem lekur út varðar almannahag eins og þessar birtingar Morgunblaðsins sanna, annað ekki. Af hverju finnst FME ástæða til að grípa til aðgerða nú?

Það er með ólíkindum að FME skuli ætla sér í slag við blaðamenn, sem eru að vinna vinnuna sína með birtingu mikilsverðra upplýsinga, og hlýtur að flokkast sem aðför að blaðamannastéttinni. Enda trúi ég ekki öðru en að tjáningarfrelsið og almannahagsmunir vegi þyngra en þessi lagabókstafur.


mbl.is Brutu þau bankaleynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bauninn kaupir, mörlandinn selur

Í útrásinni gleyptu Íslendingar ýmsar af nafntoguðustu eignum Dana. Þar má nefna dýrgripi á borð við Magasin du Nord og Illum Bolighus. Nú þegar eignasafn okkar í Danmörku er að hrunum komið bæta þeir dönsku fjárfestar, sem hér hafa verið, við hlut sinn. Sagt hefur verið frá kaupum fjárfestingarfélagsins William Demant Invest á ríflega 5% hlut í Össuri en í gær flaggaði danski lífeyrissjóðurinn ATP ríflega 5,2% hlut í sama fyrirtæki. Danskir fjárfestar, þ.e. William Demant og ATP, fara því með yfir 45% hlutafjár í Össuri og hafa bætt hlut sinn um rúm 7% á einni viku nú þegar virði hlutabréfa í Össuri er að margra mati á niðursettu verði.

Þessu til viðbótar má benda á að Grundtvig-fjölskyldan á ríflega 10% hlut í Marel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband