Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Kringla heimsins er byggð geimverum

"Guð er ríkastur í heimi. Og svo koma geimverurnar, þær þurfa að kaupa sér mat," sagði sonur minn, fjögurra ára, sposkur. "Eru til geimverur?" spurði ég forviða og ekki laus við smá ótta. "Já, við erum geimverur. Okkar hnöttur er úti í geimi."


Enn af enn einum

Einu fréttirnar sem fjölmiðlar hafa borið af rekstri N1 á síðasta ári eru þær að forstjórinn fékk 30 milljónir í árslaun og það skilaði 1,1 milljarðs króna tapi. Enda er það kannski ekki hlutverk fjölmiðla að flytja jákvæðar fréttir af óvinsælu fyrirtæki.

Ég ákvað því að renna yfir ársreikninginn og var þar margt sem vakti athygli mína. Í fyrsta lagi var eiginfjárhlutfall félagsins 25% í árslok. Það hlýtur að vera leitun að íslensku stórfyrirtæki sem ber svo hátt hlutfall um þessar mundir. Enginn fyrirvari var frá endurskoðendum sem er annað "styrkleikamerki" og þá eru allar langtímaskuldir í íslenskum krónum. Fjárhagslegur styrkur kann þó að vera verulega ofmetinn þegar horft er til viðskiptavildar sem er tæpur fimmtungur af efnahagsreikningi. Ef viðskiptavildin er öll tekin í burtu færi eiginfjárhlutfallið niður í 7%. Hún er þó minni en eigið fé félagsins, meira en verður sagt um mörg önnur fyrirtæki.

N1 einblínir á olíuverslun, neytendavöru osfrv. og er ekkert smáfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Velta þess er hartnær 80% af veltu Haga. Þegar rekstur ársins 2008 eða borin saman við 2007 kemur í ljós að álagning og framlegð fóru lækkandi á sama tíma og velta jókst umtalsvert. Álagning (sala/kostnaðarverð seldra vara) dregst harkalega saman á milli ára, eða úr 35,4% í 27,4%. N1 birtir ekki upplýsingar um vörusölu eftir einstökum þáttum starfseminnar þannig að ekki verður úr þessu lesið hvort álagning af eldsneytissölu hafi verið minnka. Hins vegar bregður svo við á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs þá rýkur álagningin upp í 42%, borið saman við sama tímabil í fyrra.

Ef álagningin gefur ágæta mynd af einstökum rekstrarsviðum má áætla að álagning vegna eldsneytissölu hafi verið að hækka á allra síðustu mánuðum.

Smásöluverslun í landinu á undir högg að sækja. Veikburða fyrirtæki í verslun týna tölunni eins og tölur um gjaldþrot fyrirtækja bera vitni um. Ef N1 nær að halda sjó verður það í lykilstöðu í verslun og þjónustu á næstu árum. Á næstu tveimur árum eru nær allar langtímaskuldir til greiðslu og veltur því mikið á að félagið nái að endurfjármagna sig, einkum á árinu 2011.


mbl.is Stóru félögin vilja ekki skila ársreikningum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast menn að

Á sama tíma og fjölmargir skuldabréfaútgendur í Kauphöll Íslands hlaupa í felur með ársreikninga síðasta árs, og bera fyrir sig einkennileg ákvæði verðbréfaviðskiptalaga, fer smásölurisinn N1 allt aðra leið. Hann ætlar að auka upplýsingagjöf til fjárfesta með því að birta rekstraryfirlit á tveggja mánaða fresti. Fjárfestar í öllum flokkum hljóta að fagna þessari nýbreytni.

Þannig skilaði N1 tæplega hálfum milljarði króna í hagnað fyrir skatt á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 211 milljónum kr.


Dregur úr gegnsæi

Það ber að taka undir orð Kára Arnórs að þessir skuldabréfaútgendur eru ekki að fegra stöðu sína með því að koma sér hjá því að birta ársreikninga sína. Þetta eru að mestu leyti útgefendur sem voru með hlutabréf sín skráð í Kauphöllina fyrir hrunið. Meira að segja Landic, sem var einungis með skuldabréf skráð, birti reikninga sína á sex mánaða fresti. Á þessum tímum er það óþægilegt fyrir eigendur skuldabréfa, eins og lífeyrissjóði, fjárfesta (hluthafa) og almenning að þessi fyrirtæki skuli beita þessu lagaákvæði. Með þessu er verið að draga úr upplýsingagjöf og gegnsæi á víðsjárverðum tímum.
mbl.is „Yfirlýsing um tæknilegt gjaldþrot"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðir seðlar til marks um afstöðu

Hundruðir kjósenda skiluðu auðu á kosningadaginn. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér að fyrir þessum hópi hafi farið kjósendur sem styðja Sjálfstæðisflokkinn að öllu jöfnu. Það að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi talið það fyrir bestu að velja engan flokk fremur en þann næstbesta er í mínum huga ekkert annað en skýr afstaða um að aðrir kostir hafi verið jafnslæmir og Sjálfstæðisflokkurinn. Og þetta var kannski eina tækifæri þessa hóps til að refsa flokknum fyrir þátt hans í bankahruninu og eftirmála þess.

Ég er því öldungis ósammála sumum sjálfstæðismönnum sem hafa talað með þeim hætti að með því að skila auðu hafi sjálfstæðismenn verið að styðja vinstriöflin. Ef hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins skilar auðu þá er hann auðvitað að senda þau skilaboð að flokkurinn hafi gott af því að taka sér frí til þess vonandi að ná vopnum sínum á ný.

Sjálfstæðismenn sem styðja ESB-aðild þurftu ekki að kjósa Samfylkinguna því fyrr en síðar munu kjósendur fá að kjósa um það mál, hvað sem stefnu einstakra stjórnmálaflokkum líður. Það er óhjákvæmilegt að kjósa um ESB ef menn ætla sér að stíga einhver skref til framtíðar.  


Mikilvægi Smáralindar fyrir Kópavog

Við, sem eigum okkar lifibrauð af Smáralind, hrukkum auðvitað í kút þegar við sáum uppgjör verslanamiðstöðvarinnar sem sýndi 4,3 milljarða króna tap. Niðurstaðan er þó langt í frá því um að kenna að verslun gangi brösuglega í Smáralind eins og margir hafa reynt að halda fram. Þvert á móti hafa nýjar verslanir sprottið upp á síðustu mánuðum eftir að eldri verslanir lögðu upp laupana. Helmingur af tapinu skýrist af því að bókfært virði Smáralindar lækkaði um tvo milljarða króna og þá tók félagið á sig högg vegna gengistryggðra lána.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort Kópavogsbúar og stjórnendur bæjarfélagsins átti sig á mikilvægi Smáralindar fyrir byggðarlagið. Þetta er óumdeilanlega stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu þar sem 800 starfsmenn sækja vinnu sína á degi hverjum og dregur þar að auki til sín fleiri þúsund viðskiptavini í viku hverri. Þegar rýnt er í reikninga Smáralindar kemur svo ótrúleg tala í ljós. Félagið greiddi hvorki meira né minna en 264 milljónir króna í fasteignagjöld á síðasta ári eða tæpan fjórðung af rekstrartekjum. Þótt fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði séu mun hærri en af íbúðarhúsnæði ætla ég að setja þetta í samhengi við skatttekjur bæjarins af íbúðarhúsnæði. Segjum svo að eigandi 100 fermetra íbúðar greiði alls 120 þúsund krónur í fasteignagjöld á ári þá greiðir Smáralind álíka mikið í fasteignagjöld og eigendur 2.200 eitt hundrað fermetra íbúða í Kópavogi! 

Þarf að hafa fleiri orð um hversu mikil gullkista Smáralind er fyrir Kópavog?


Birgjum mismunað og hótað

Hvernig er hægt að réttlæta þessa mismunun meðal birgja í gamla Pennanum? Sumir fá helming krafna greiddan, aðrir þurfa að leita í þrotabú en allir eiga það sammerkt að eiga óveðtryggðar kröfur.

Stjórnendur Pennans hóta svo að ef ekki náist samkomulag um lausn í málefnum einstakra birgja er ekkert sjálfgefið að þeir verði áfram í viðskiptum við fyrirtækið. Væntanlega eru þeir birgjar sendir í þrotabúið sem nýja fyrirtækið ætlar ekki að eiga viðskipti framar og þangað verður ekkert að sækja. Í hvaða samningsaðstöðu telja menn að lítil fyrirtæki séu gagnvart Pennanum? Annaðhvort að taka afarkostum Pennans eða að hypja sig á brott.

 


mbl.is Kröfuhafar Pennans segja farir sínar ekki sléttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirtaka með blessun FME

Vilhjálmur Bjarnason mun lítið geta aðhafst ef félag Bakkabræðra nær 90% hlutafjár og atkvæða í Existu en það mun gerast selji Nýi Kaupþing og stærstu lífeyrissjóðirnir bréf sín í Existu. Þá skapast innlausnarskylda og verða hlutabréf hans og annarra smárra vafalaust innleyst með góðu eða illu í kjölfarið.

Þetta yfirtökumál er nokkuð óvenjulegt því Bakkabræður óskuðu eftir því að Fjármálaeftirlitið myndi veita þeim undanþágu frá ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga um lágmarksverð í yfirtökutilboði. Jafnframt óskuðu þeir eftir að FME léti framkvæma verðmat á Existu, sem var og gert af hálfu PricewaterhouseCoopers. Niðurstaða PWC var 2 aurar á hvern hlut. Það að opinber stofnun skuli vera með annan fótinn í þessu máli er auðvitað sérstakt og þarfnast útskýringar.

Hins vegar er spurning hvort Vilhjálmur ætti ekki, sem formaður Samtaka fjárfesta, að fara að kalla eftir niðurstöðu dómskvaddra matsmanna í innlausnarmáli vegna hlutabréfa í Baugi Group en fimm ár eru liðin frá því að óskað var eftir óháðu mati. Um þetta mál hefur m.a. verið fjallað um á þessari síðu.


mbl.is Ætlar að krefjast verðmats á Exista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautseigjan sigrar að lokum

Þegar sagnfræðingar fara að skrifa sögu okkar tíma munu þeir eflaust komast að því að upptaka á verðbólgumarkmiðum árið 2001 hefur verið einhver dýrkeyptasta aðgerð Íslandssögunnar fyrir almenning og fyrirtækin. Markmiðið hefur kallað á okurvaxtastig um árabil í því augnamiði að halda krónunni á sjó og enn eru vextir allt of háir þrátt fyrir að hér stefni í skelfilegt ástand.

En nú bendir til þess að Seðlabankinn muni loksins ná markmiði sínu. Fasteignaverð er byrjað að lækka skarpt og mikill þrýstingur er á mönnum að hækka ekki vörur og þjónustu. Þegar stjórnendur bankans fagna settum hlut í ársbyrjun 2010 þá eru liðin fimm og hálft ár frá því að verðbólgan var 2,5%. Ég efast þó stórlega um að upptaka markmiðsins sem hagstjórnartækis á sínum tíma hafi verið í þeim tilgangi að fara í langhlaup.


mbl.is Verðbólga í 2,5 prósent 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Actavis of dýru verði keypt?

Heildarvirði Actavis er augljóslega í hærri kantinum eða um 11-faldur rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA), ef marka má niðurstöðu síðasta árs. Sérfræðingar telja sérfræðingar að 4,0-4,5 milljarðar evra myndi hljóma betur í eyrum líklegra kaupenda. Til samanburðar eignaðist Novator Actavis á yfir 14 földum EV/EBITDA margfaldara árið 2007 og má því kannski segja að eftir allt saman þá hafi Novator greitt of mikið fyrir Actavis ef horft er til þessara viðmiða.

Samkvæmt Bloomberg er Actavis enn í töluverðum vexti sem kemur skemmtilega á óvart við þessar hörmulegu aðstæður sem nú ríkja í íslensku atvinnulífi. Því er spáð að EBITDA hagnaður ársins verði um 600 milljónir evra (um 100 milljarðar króna) sem yrði um þriðjungsaukning á milli ára.

Ég verð þó að segja að mér finnst íslenska pressan sýna Actavis lítinn áhuga. Eigandinn ætlar sér að selja eitt stærsta fyrirtæki landsins, að öllu leyti eða í bútum. Hvað verður til dæmis um starfsemina á Íslandi ef Actavis kemst í eigu erlendra lyfjarisa?


mbl.is Sala á Actavis lögð til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband