Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Pulp Fiction og Byr

Á þessu bloggi hefur verið greint frá afskiptum FI fjárfestinga, gjaldþrota félags Hannesar Smárasonar, af stjórnarkjöri á aðalfundi BYRS. Ýmislegt skrýtið hefur komið fram á síðustu dögum sem sannar glögglega að stórir stofnfjáreigendur, sem hafa mergsogið sjóði sparisjóðsins í krafti stjórnarsetu sinnar og atkvæðisréttar, létu einskis ófreistað til þess að tryggja það að nýtt fólk kæmist ekki til valda.

Eitt þeirra félaga, sem beitti atkvæðisrétti sínum á aðalfundi Byrs, er hið umdeilda Exeter Holdings sem fékk yfirdráttarlán upp á 1,1 milljarð króna frá Byr til þess að kaupa stofnfjárbréf í sjóðnum, sem MP banki hafði leyst til sín m.a. frá fyrrverandi stjórnarformanni Byrs, Jóni Þorsteini Jónssyni. Það er ljóst að Byr hefur tapað þessum útlánum, enda hafa veðin, sem er 1,8% eignarhlutur í sparisjóðnum, fallið verulega í virði eftir þau áföll sem hafa dunið yfir. Það að félag sem keypti handónýt stofnfjárbréf með fjármögnun frá sparisjóðnum sjálfum, skuli geta beitt sér fyrir áframhaldandi sérhagsmunagæslu er með ólíkindum. Í forsvari fyrir Exeter er Ágúst Sindri Karlsson, fyrrum lögmaður MP banka, sem hefur verið líkt við reddarann Winston Wolf sem Harvey Keitel gerði ódauðlegan í Pulp Fiction.

Í viðtali við VÍSI í mars sagði Ágúst Sindri Karlsson að hann hafi þarna líkt og oft áður verið fenginn til að taka til eftir partýið. „Ég er vanur að sjá um skítverkin og taka að mér hluti sem aðrir vilja ekki. Ég hef hins vegar fulla trú á Byr og vill eignast stærri hlut í sjóðnum," segir Ágúst Sindri.

Ef Ágúst Sindri hefur enn þá hug að kaupa meira stofnfé á yfirverði þá er ég boðinn og búinn að aðstoða hann við þá leit. Ég treysti mér þó ekki í það að útvega fjármögnun vegna kaupanna!


mbl.is Velunnarar sparisjóða funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eiga að kaupa þessi bréf?

Ég velti því fyrir mér hverjir eigi að kaupa þennan hlut Íslandsbanka í Icelandair Group. Íslandsbanki er kominn með 47% hlut en á AMX-fréttaveitunni er fullyrt að óbeinn hlutur bankans sé í raun og veru 80%.

Markaðsvirði Icelandair Group er 4,5 milljarðar króna miðað við það viðskiptagengi sem bankinn tekur bréfin til sín. Til samanburðar er bókfært eigið fé Icelandair tæpir 17 milljarðar króna þannig að ætla mætti að upplausnarvirði félagsins væri langt yfir mati markaðarins. Svo er nú ekki því hafa ber í huga að óefnislegar eignir félagsins eru metnar á 29,2 milljarða króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Verður að telja verulegum vafa undirorpið að sú eign standi undir sér.

Ein stærsta óvissan í starfsemi Icelandair lítur að endurfjármögnun á næstu tólf mánuðum en alls falla 22,8 milljarðar króna til greiðslu á tímabilinu. Töluvert verk bíður því Íslandsbanka og stjórnenda Icelandair að endurskipuleggja fjárhag "fjöreggsins" og styrkja hann. Félagið er ansi skuldsett en hreinar vaxtaberandi skuldir námu tæpum 42 milljörðum króna í lok mars. Liggur því beinast við að stærstu kröfuhafar breyti skuldum í hlutafé og rýri þannig enn frekar verðgildi hlutafjár í félaginu sem er 15% af útboðsgenginu.


mbl.is Íslandsbanki með 47% hlut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes Smárason og BYR

Eignarhaldsfélagið FI fjárfestingar ehf. tókst ekki að standa af sér brim og boðaföll á fjármálamörkuðum árið 2007, fremur en önnur stór eignarhaldsfélög. Þetta félag, sem áður kallaðist Fjárfestingarfélagið Prímus, er í eigu Hannesar Smárasonar, fyrrum forstjóra FL Group. Í ársreikningi FI fyrir árið 2007 kemur fram að félagið hafi tapað rúmum 27,2 milljörðum króna og námu skuldir umfram eignir tæpum 3,7 milljörðum króna í lok sama árs. Helsta eign félagsins var 10,9% hlutur í FL Group (Stoðum) sem er verðlaus í dag.

Í áritun endurskoðenda FI, sem dagsett er fáeinum vikum fyrir bankahrunið í fyrrahaust, var gerður fyrirvari um rekstrarhæfi félagsins þar sem eigið fé þess var neikvætt auk þess sem markaðsverð eigna hafði lækkað verulega það sem liðið var af árinu 2008. Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 32,3 milljörðum króna í lok árs 2007, þar af voru 18,5 milljarðar í óverðtryggðum íslenskum hávaxtalánum. Samkvæmt ársreikningi féllu um 6,6 millljarðar af langtímaskuldum á gjalddaga í fyrra.

Ástæðan fyrir því að þessi saga er sögð er sú að FI Fjárfestingar, sem var augljóslega gjaldþrota sjoppa í árslok 2007, er skráður stofnfjáreigandi í BYR sparisjóði með 3,1% hlut sem gerir það að 8. stærsta stofnfjáreigandum. Þótt Hannes Smárason hafi ekki mætt í eigin persónu á aðalfund Byrs beitti FI atkvæðisrétti sínum á fundinum en eini stjórnarmaður félagsins er skráður Gunnar Sturluson, lögmaður hja Logos. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það út að atkvæði FI féllu B-listanum í skaut, en sá listi var lagður fram með sérstakri blessun fyrrverandi stjórnarformanns Byrs, Jóns Þorsteins Jónssonar. B-listinn náði meirihluta innan stjórnar með 48% atkvæða þrátt fyrir að aðeins 175 stofnfjáreigendur hafi gefið honum atkvæði sín. A-listinn, sem undirritaður sat á, hlaut 46% með stuðningi u.þ.b. 450 stofnfjáreigenda. Þannig má sjá að atkvæði FI réðu úrslitum.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að Hannes Smárason vilji leggja sitt af mörkum til uppbyggingarinnar á Íslandi. Það er hins vegar ótrúlegt til þess að vita að lánadrottnar FI fjárfestinga skuli leyfa fyrrum forstjóra FL að beita atkvæðisrétti sínum með þessum hætti til þess að tryggja áframhaldandi sérhagsmunagæslu. Niðurstaðan í stjórnarkjöri Byrs var sú að strengjabrúða gömlu stjórnarinnar hrifsaði til sín völdin, þvert á vilja meirihluta stofnfjáreigenda, og naut til þess stuðnings Hannesar Smárasonar og Magnúsar Ármanns, dyggra viðskiptafélaga Jóns Þorsteins í gegnum tíðina.


mbl.is Athugasemdir við fréttaflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir óskyldir hlutir

Mikið hefur verið fjallað um eignarhald á Smáralindinni eftir að ég bloggaði um það í gær að ríkisbankarnir ættu allt hlutafé hennar. Margir hafa hins vegar talið að rekstur Smáralindar valdi því að Saxbygg, sem átti óbeinan hlut í verslanamiðstöðinni, sé farið í þrot. Þessi kenning er algjörlega út í hött þar sem fall Glitnis leiddi til falls Saxbyggs. Raunar er Smáralind vel rekstrarhæft fyrirtæki með réttri fjármagnsskipan. Á síðasta ári nam rekstrarhagnaður hennar fyrir afskriftir (EBITDA) um 700 milljónum króna og var handbært fé frá rekstri um 220 milljónir króna. Tap Smáralindar skýrist af háum fjármagnskostnaði og tveggja milljarða króna lækkun á verðmati fasteignarinnar.

Í þessu sambandi er fróðlegt að bera Smáralind saman við Eik fasteignafélag, sem á einmitt 52% hlut í Smáralind. Þar á bæ færðu menn upp verðmæti fasteigna um rúma 3,5 milljarða króna. Ansi djörf ákvörðun á tíma þar sem fasteignaverð er á hraðri niðurleið sem og leigugjöld. Ef ekki hefði komið til þessarar uppfærslu hefði eigið fé Eikar orðið neikvætt um einn milljarð króna.

Það er brýnt í allri umræðu að menn greini á milli eplis og appelsínu. Fjöldagjaldþrot og miklir fjárhagserfiðleikar íslensku eignarhaldsfélaganna þurfa ekki að hafa nein áhrif á rekstur þeirra rekstrarfyrirtækja sem þau eiga. Halda menn til dæmis að slæm staða Landic Property valdi því að Kringlan sé óstarfhæf?


mbl.is Fall Saxbygg fleytir Smáralind í fang ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáralindin í eigu ríkisins

Þá er það formlega ljóst að Smáralindin, stærsta verslanamiðstöð landsins, er alfarið komið í eigu ríkisbankanna. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi einhver á hrif á verslun í Smáralind. Sannir föðurlandsvinir hljóta nú að leggja leið sína í Kópavoginn.

 En það verður fróðlegt að sjá hvaða banki tekur Smáralindina á endanum yfir. Ég tippa á Landsbankann.


mbl.is Saxbygg í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupa hátt, selja lágt

Straumur-Burðarás eignaðist meirihluta hlutafjár í finnska fjárfestingarbankanum eQ fyrir akkúrat tveimur árum og lagði fram yfirtökutilboð í aðra hluti í kjölfarið. Markmiðin með kaupunum, sem áttu sér stað á þeim tíma er verðmæti fjármálafyrirtækja var í hámarki, voru þau að gera Straum að leiðandi norrænum fjárfestingarbanka. Gert var ráð fyrir að heildarkaupverð myndi nema um 260 milljónum evra en söluverðið í dag nemur um 40 milljónum evra, jafnvirði sjö milljarða króna. Má því áætla að söluverðið í evrum sé 15% af kaupverðinu.

Þarf ekki að fara mörgum orðum um þann eignabruna sem hefur átt sér stað með falli útrásarfyrirtækja. Stóribrandur í Noregi er annað sambærilegt dæmi. Eftirmæli íslenskra viðskiptajöfra gætu verið: Þeir keyptu hátt en seldu lágt.


mbl.is Skilanefnd Straums selur finnskan banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arðgreiðsla í boði starfsmanna

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 73 milljörðum króna á síðasta ári. Fyrirtækið ætlar að lækka launakostnað um 400 milljónir króna vegna efnahagsástandins. Samt sem áður mun fyrirtækið greiða eigendum sínum 800 milljónir króna í arð. Stjórnarformaður OR réttlætir þessa ákvörðun með þeim hætti að " ... u.þ.b. 1600 milljónir [hafi] verið greiddar í arð árlega og spurður sagði hann að komið hefði til tals að sleppa arðgreiðslu að þessu sinni. 800 milljónir séu þó ekki nema örfá prósent af rekstri fyrirtækisins," eins og segir í frétt Morgunblaðsins.

Þótt ég telji mig vera fyrirtækjasinnaðan mann þá er þessi ákvörðun eigenda OR óskiljanleg. Reykjavíkurborg er að mergsjúga mjólkurkúna en krefst hins vegar þess að laun starfsfólks lækki.

Þessi ákvörðun OR hefur vakið lítil viðbrögð. Hins vegar hafa arðgreiðslur tveggja einkafyrirtækja vakið mun meiri úlfúð meðal almennings og fjölmiðla. Sú fyrri var ákvörðun eigenda HB Granda að greiða sér út 8% arð á sama tíma og fyrirtæki ákvað að standa ekki við umsamdar launahækkanir. HB Grandi, sem ólíkt OR, var rekið með hagnaði eftir skatta á síðasta ári ákvað að standa við gefin loforð eftir mikinn þrýsting frá samfélaginu.

Þorsteinn M. Jónsson, betur þekktur sem Steini í Kók, fékk einnig á baukinn þegar félag hans Sólstafir, sem er m.a. móðurfélag Vífilfells, greiddi út 250 milljóna króna í arð fyrir árið 2007 þrátt fyrir að það hefði tapað rúmum hálfum milljarði. Þorsteinn er eini eigandi Sólstafa og ekki veit ég til þess að starfsfólk Vífilfells hafi þurft að taka á sig launaskerðingu vegna fyrrnefndrar arðgreiðslu.

Arðurinn, sem eigandi OR fær fyrir sinn snúð, er óverjandi ákvörðun í samanburði við þá gagnrýni sem einkafyrirtæki hafa þurft að sæta. Jafnvel þótt aðeins um "örfá prósent" sé um að ræða.


mbl.is OR greiðir 800 milljónir kr. í arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða SS óljós

Kaup þessi vekja nokkra athygli en Guðmundur að Núpi varð stærsti hluthafinn í B-deild þegar hann keypti hlut Frjálsa Fjárfestingarbankans árið 2005. Staða Sláturfélagsins var slæm um síðustu áramót og mun veikari en stjórnendur félagsins létu í veðri vaka. Eiginfjárhlutfall var aðeins 16% í árslok en hefði orðið enn lægra ef ekki hefði komið til endurmat fasteigna. Fyrirtækið tapaði um 1,5 milljarði króna á síðasta ári og hafa fjármagnsgjöld stóraukist til framtíðar nema að svo ólíklega vilji til að krónan styrkist.

Miðað við núverandi félagsform er hætta á að fjárhagsstaða samvinnufélagsins haldist veik. Fyrirtækið ætti að skoða hlutafélagavæðingu af fullri alvöru og slá þannig tvær flugur í einu höggi: Í fyrsta lagi að tryggja að eigendur A- og B-bréfa, sem hafa lagt fyrirtækinu til fjármagn, geti fengið eðilegt markaðsverð fyrir eignarhluti sína. Og í öðru lagi er mun auðsóttara að sækja nýtt fjármagn með sölu hlutafjár en fullljóst er að sjóðstreymið stendur ekki undir afborgunum langtímaskulda á næstu árum.

 

 


mbl.is Virðing eignast 31,75% í SS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsálag

Það er ekki að sjá að fjárfestar hafi miklar áhyggjur af stöðu sænsku ferðaskrifstofukeðjunnar Ticket þrátt fyrir að Fons, stærsti hluthafinn, hafi lýst sig gjaldþrota. Gengi hlutabréfa í Ticket hækkaði um 10% í dag þótt ágætt sé að hafa það í huga að seljanleiki bréfanna er ekki sá sami og hjá stærri félögum eins og sést á muni á kaup og sölutilboðum.

Alltént má ímynda sér að ákveðið Íslandsálag sé á hlutabréfum í Ticket vegna eignarhalds Fons. Það að gengi Ticket hrynji ekki við þær fréttir að stærsti hluthafinn hafi lýst sig gjaldþrota er kannski til marks um það að fjárfestar telji það gott fyrir Ticket að komast undir nýja eigendur, e.t.v. sænska hluthafa. Maður varð oft var við það að erlendir fjárfestar settu ákveðið álag á hlutabréf þeirra félaga sem íslenskir útrásarvíkingar voru áberandi og bréfin urðu þar með verðminni fyrir vikið.


Fyrsta fórnarlamb fjármálakrísunnar

Sparisjóður Mýrasýslu er lítill og sætur sparisjóður sem hefur gengið undir viðurnefninu "Hornsteinn í héraði". Þótt staða hans í heimasveit hafi ávallt verið sterk var SPM í raun og veru ekki sparisjóður heldur helgíraður vogunarsjóður með stóra stöðu í Existu. Ekkert gat því komið í veg fyrir að hann yrði fyrsta fórnarlamb íslensku fjármálakrísunnar ef horft er framhjá fjárfestingarfélaginu Gnúpi. Um mitt síðasta ár var sparisjóðurinn tæknilega gjaldþrota þegar eiginfjárhlutfall hans var orðið neikvætt. Staðan var orðin ansi slæm fyrr um árið. Þannig fengu Byr og SPRON aftur í hausinn hlutabréf í Icebank þegar FME synjaði SPM um virkan eignarhlut í Icebank vegna bágrar fjárhagsstöðu. Stærsti lánadrottinn, Kaupþing, ákvað að leggja sjóðnum nýtt stofnfé og eignast þar með 70% hlut, en um svipað leyti hafði bankinn samþykkt að taka SPRON yfir.

Mikið hefur verið rætt um að hlutafjárvæðing eða stofnfjárvæðing sparisjóða hafi orðið til þess að þeir féllu. Þetta er mikil einföldun og þarf ekki nema að horfa á SPM sem fór út í litla aukingu eigin fjár. Margsinnis hefur verið bent á að flestallir sparisjóðir tóku allt of mikla áhættu; tekju- og hagnaðarmyndun sparisjóða hafi ráðist allt of mikið á gengishagnaði af fjárfestingastarfsemi. Hin eiginlega grunnstarfsemi sparisjóða, að taka við innlánum og veita útlán til einstaklinga og lítilla fyrirtækja, féll í skuggann á fjárfestingarstarfseminni. Aukning eigin fjár gerði þeim kleift að styrkja sig en því miður báru þeir ekki á gæfu að draga úr áhættu og innleysa hagnað, til dæmis af hlutabréfaeign í Existu og eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum. Sparisjóðsstjórarnir sátu sem fastast á hlutabréfum og fengu skellinn framan í sig þegar markaðir hrundu, ólíkt því sem gerðist í byrjun aldarinnar þegar flestir sparisjóðir seldu einmitt hlutabréf sín í Kaupþingi. SPM er ljóslifandi dæmi um stjórnunarmistök í fyrirtækjarekstri, sparisjóður sem tók allt of mikla áhættu og sat því í súpunni þegar tók að reyna á fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækja.


mbl.is Funda með lánadrottnum SPM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband