Arðgreiðsla í boði starfsmanna

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 73 milljörðum króna á síðasta ári. Fyrirtækið ætlar að lækka launakostnað um 400 milljónir króna vegna efnahagsástandins. Samt sem áður mun fyrirtækið greiða eigendum sínum 800 milljónir króna í arð. Stjórnarformaður OR réttlætir þessa ákvörðun með þeim hætti að " ... u.þ.b. 1600 milljónir [hafi] verið greiddar í arð árlega og spurður sagði hann að komið hefði til tals að sleppa arðgreiðslu að þessu sinni. 800 milljónir séu þó ekki nema örfá prósent af rekstri fyrirtækisins," eins og segir í frétt Morgunblaðsins.

Þótt ég telji mig vera fyrirtækjasinnaðan mann þá er þessi ákvörðun eigenda OR óskiljanleg. Reykjavíkurborg er að mergsjúga mjólkurkúna en krefst hins vegar þess að laun starfsfólks lækki.

Þessi ákvörðun OR hefur vakið lítil viðbrögð. Hins vegar hafa arðgreiðslur tveggja einkafyrirtækja vakið mun meiri úlfúð meðal almennings og fjölmiðla. Sú fyrri var ákvörðun eigenda HB Granda að greiða sér út 8% arð á sama tíma og fyrirtæki ákvað að standa ekki við umsamdar launahækkanir. HB Grandi, sem ólíkt OR, var rekið með hagnaði eftir skatta á síðasta ári ákvað að standa við gefin loforð eftir mikinn þrýsting frá samfélaginu.

Þorsteinn M. Jónsson, betur þekktur sem Steini í Kók, fékk einnig á baukinn þegar félag hans Sólstafir, sem er m.a. móðurfélag Vífilfells, greiddi út 250 milljóna króna í arð fyrir árið 2007 þrátt fyrir að það hefði tapað rúmum hálfum milljarði. Þorsteinn er eini eigandi Sólstafa og ekki veit ég til þess að starfsfólk Vífilfells hafi þurft að taka á sig launaskerðingu vegna fyrrnefndrar arðgreiðslu.

Arðurinn, sem eigandi OR fær fyrir sinn snúð, er óverjandi ákvörðun í samanburði við þá gagnrýni sem einkafyrirtæki hafa þurft að sæta. Jafnvel þótt aðeins um "örfá prósent" sé um að ræða.


mbl.is OR greiðir 800 milljónir kr. í arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband