Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Keypti lágt, seldi hátt

Það er varla tilviljun að MP banki skuli vera í aðstöðu til þess að vaxa nú á síðustu og verstu tímum. Bankinn minnkaði áhættu sína í íslenskum hlutabréfum og öðrum eignum fyrir þónokkrum árum, að mig minnir áður en hlutabréfamarkaðurinn náði hæstu hæðum sumarið 2007. Stjórnendur MP tóku að vísu áhættu eins og önnur fjármálafyrirtæki en þeir hegðuðu sér ekki eins og hinir sem skilaði sér margfalt til baka. Það bera kaup bankans á stofnfjárbréfum í Sparisjóði vélstjóra (síðar Byr) glöggt vitni um.

MP hóf að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóðnum í árslok 2005 á verði sem margir vildu meina að væri í engu samræmi við raunvirði bréfanna. Sögðu margir stofnfjáreigendur ekki farir sínar sléttar af þeim viðskiptum eftir að MP hafði narrað bréfin af þeim á gengi undir 20 á hlut. Brátt var bankinn kominn með 10% hámarkshlut í sparisjóðnum og gengið stefndi á 200. Í júní 2007, mánuði áður en úrvalsvísitalan fór í hæstu hæðir, birtist frétt í Markaðnum um að MP hefði selt 4,5% hlut í Byr og restin hvarf að mestu leyti úr bókum bankans síðar á árinu. Þetta kallast í heimi viðskipta að kaupa lágt, en selja hátt.

Ætli MP endurtaki leikinn með kaupum á útibúaneti SPRON? Að minnsta kosti ætti kaupverðið að reynast hagstætt.


mbl.is MP banki eignast SPRON
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víkjandi lán reddaði SPRON

Samkvæmt árshlutareikningi SPRON fyrir fyrsta ársfjórðung 2008, sem kannaður var af KPMG, nam CAD-hlutfall SPRON 14,1%. Stjórnendur SPRON taka það þó ekki fram að rétt fyrir lok fjórðungsins veitti Kaupþing SPRON víkjandi lán að upphæð fimm milljarðar króna til að rífa upp eiginfjárhlutfallið eða til að "renna enn styrkari stoðum undir eiginfjárgrunn félagsins", eins og það var orðað. Ekkert óeðlilegt við þetta þótt lánið lýsi auðvitað hversu erfið staða SPRON var á þessum tíma.

Ef það hefði ekki komið til hefði CAD-hlutfall SPRON líklega farið undir 8% eins og fjármálaráðherra hefur haldið fram og FME orðið að grípa í taumana. Seðlabankastjóri þarf hins vegar að útskýra betur hvað hann á við þegar hann heldur því fram að eigið fé SPRON hafi verið uppurið.


mbl.is Eiginhlutfall SPRON ekki undir 8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör Eyris

Eyrir birti ársuppgjör sitt í dag, nokkrum klukkustundum eftir síðustu færslu og var rekstur félagsins í járnum þegar horft er framhjá jákvæðri tekjufærslu skatts. Félaginu hefur tekist að ýta langtímafjármögnun fram til 2011 og 2012 sem gefur því færi á að takast betur á við núverandi markaðsaðstæður, hugsanlega fá betra verð fyrir Össurarhlutinn og styðja við Marel.

Þröng staða Eyrisfeðga

Verðfall á hlutabréfamörkuðum og lausafjárkrísan undanfarna mánuði hafa gert stöðu Eyris Invest snúna. Félagið, sem er að stærstum hluta í eigu feðganna Þórðar Magnússonar og Árna Odds Þórðarsonar, er stór hluthafi í tveimur af lífvænlegustu fyrirtækjum landsins, Marel og Össuri. Eyrir hefur lagt allt í sölurnar fyrir Marel, fyrirtæki sem hefur verið undir verulegum þrýstingi á árinu eftir stórar yfirtökur á síðustu þremur árum. Hafa bréf í Marel fallið um tæp 45% mælt í krónum frá ársbyrjun og myndi ég halda að sú lækkun tengdist að nokkru leyti veikri stöðu Eyris.

Eyrir hefur litið á eignir sínar í Marel og Össuri sem langtímaeignir en nú verður ekki betur séð en að félagið verði að losa um fimmtungshlut sinn í síðarnefnda fyrirtækinu og missa það þar með úr landi. Hafa ber í huga að Eyrir þarf að greiða tæpa 13,4 milljarða króna á þessu ári ef marka má árshlutauppgjör félagsins frá því um mitt síðasta ár. Til samanburðar er fimmtungshlutur í Össuri metinn á 6,8 milljarða króna og dugar þannig ekki einn og sér fyrir afborgunum ársins.

Einn helsti samstarfsaðili Eyris er Nýi Landsbankinn sem hefur stutt dyggilega við útrás Marels sem annar stærsti hluthafinn. NBI er jafnframt eigandi 30% hlutafjár í Eyri og hefur því gríðarlega hagsmuni af því að styrkja stöðu Eyris og Marels.

Í þessu sambandi koma jákvæðar fréttir Marel og Össuri á síðustu dögum ekki á óvart. Í tilviki Marels hafa komið fram fréttir um að erlendir fjárfestar hafi áhuga að eignast allt að fimmtungshlut í fyrirtækinu, en stjórn þess fékk á dögunum heimild til að margfalda hlutfé félagsins. Hugsanlega eru þessir erlendu fjárfestar að einhverju leyti kröfuhafar sem eru tilbúnir til breyta skuldum yfir í hlutafé. Þessi fregnir hafa þó haft takmörkuð áhrif á hlutabréfaþróun í Marel.

Á dögunum birtust einnig fréttir um að breskur einkaframtakssjóður og danski fjárfestingasjóðurinn William Demant Holding, stærsti hluthafinn í Össuri, hefðu í hyggju að leggja fram yfirtökutilboð í Össur. Þar kom fram að stjórnendur myndu selja bréf sín á gengi sem var nefnt 1 dalur á hlut, um 115 krónur á hlut. Það þótti Eyrismönnum ekki nóg. Fáeinum dögum síðar neyddust stjórnendur, þar á meðal forstjórinn Jón Sigurðsson, til að selja alls 5% hlut á tombóluverði, 88 krónur á hlut, til William Demant Holding sem ræður nú um 40% hlutafjár og er rétt undir yfirtökumörkum. Stjórnendurnir hafa greinilega verið ansi aðkrepptir fjárhagslega en fyrir þá hlýtur þó að hafa verið skárra að selja á genginu 88 en 74. Voru yfirtökufréttirnar því afar vel tímasettar!

Hins vegar spyr maður sig í hvaða samningsstöðu Eyrir sé gagnvart William Demant fari fram sem horfir að félagið verði að selja hlut sinn í Össuri vegna fallandi virði hlutabréfa í Marel? Er einhver ástæða fyrir William Demant að taka Össur yfir á hagstæðu verði fyrir Eyri og aðra hluthafa í Össuri?


mbl.is Marel lækkar um tæp 7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrygg veð

Miðað við síðasta ársuppgjör Byrs var eigið fé sjóðsins 16 milljarðar en stofnfé 30 milljarðar króna. Þannig hefur innra virði hvers stofnfjárhlutar verið u.þ.b. 0,5 um áramótin samanborið við 1,5 sem var síðasta viðskiptagengi á stofnfjármarkaði áður en sparisjóðurinn ætlaði sér út í hlutafjárvæðingu.

Hluti þeirra stofnfjáreigenda sem fjárfestu í stofnfjáraukningunni í árslok 2007 tóku erlend lán sem hafa hækkað verulega samfara gengisfalli krónunnar.

Samkvæmt þessu hafa veðtryggingar Íslandsbanka rýrnað stórkostlega, jafnvel þótt að umdeildar arðgreiðslur hafi gengið til bankans. Markaðsverðmæti bréfanna kann að hafa rýrnað um tvo þriðju hluta en erlend lán á bakvið bréfin hafa hækkað töluvert. Það er ljóst að stofnfjáreigendur í Byr munu eiga í verulegum vandræðum með það að standa skil á lokagreiðslu lánsins í júní næst komandi, enda var það ætlun þeirra að láta arðgreiðslu þessa árs, sem verður engin, ganga upp í eftirstöðvar. Og ekki geta stofnfjáreigendurnir selt bréfin. Íslandsbanki hefur til tryggingar greiðslu á láninu og vöxtum handveð í stofnfjárbréfum en það er ljóst að ef hann þarf að að taka til sín bréf í stórum stíl er bankinn kominn í bullandi vandræði þar sem hann má samkvæmt lögum ekki fara með meira en 10% hlut í Byr.


mbl.is Eignast aldrei meira en 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt uppi á borðinu nema kjörin

Tveir fjárfestingarbankar, Saga Capital og VBS fjárfestingarbanki, fengu á dögunum lán til sjö ára frá ríkissjóði vegna skuldbindinga bankanna við Seðlabankann. Alls nam lánveitingin 41 milljarði króna. Vonandi tryggir þessi lántaka rekstur þeirra til frambúðar, enda veitir ekki af að byggja upp fjármálakerfið á nýjan leik.

Þó verður að teljast einkennilegt að lánakjör skuli ekki vera gefin upp í þessum lánasamningum sem er eiginlega í hrópandi mótsögn við þá stefnu stjórnvalda í Nýja-Íslandi að ekkert sé of heilagt að það þoli ekki dagsins ljós. Gamla bankaleyndin virðist því lifa góðu lífi og blýantanagararnir í ráðuneytunum ná sínu fram.

Þarna koma tvö sjónarmið til sögunnar: Annars vegar hljóta það að vera hagsmunir skattgreiðenda að vita hver kjörin eru því það eru nú þeir sem koma til með greiða niður skuldafjall ríkisins. Hins vegar eru VBS og Saga Capital í samkeppni við þær fjármálastofnanir, jafnt smáar sem stórar, sem hafa lifað hrunið af. Nú er nokkuð víst að bæði VBS og Saga vilja efla rekstur sinn með því sækja inn á viðskiptabankamarkað, s.s. með kaupum á útibúaneti SPRON, og sýnist sitt hverjum. Er ekki eðilegt að keppinautar Saga og VBS viti á hvaða kjörum ríkið er að styðja við þau?


Stjórnendur selja á tombóluverði

Það sem fylgir ekki þessari frétt er það gengi sem viðskiptin fóru fram á. Gengið var 88 krónur á hlut sem er töluvert undir síðasta markaðsgengi og langt undir einum dollara á hlut sem hefur verið nefnt sem hugsanlegt yfirtökugengi danska fjárfestingarsjóðsins William Demant og einkaframtakssjóðs í Bretlandi, eins og kom fram í frétt AMX.is í síðustu viku.

Nú hefur skuldafen stjórnenda orðið til þess að þeir verða að selja á verði sem er óneitanlega lágt og spyr maður því hvort eitthvað verði af yfirtöku á einum dal á hlut?

Haraldur Yngvi Pétursson hjá IFS greiningu telur að einn dalur á hlut (u.þ.b. 114 krónur) sé of lágt yfirtökuverð fyrir Össur þegar félagið er borið saman við sambærileg félög. Nær væri að horfa á allt að 1,2 dollara.

Össur er eitt frambærilega fyrirtæki landsins um þessar mundir. Verður "Íslands eina von" selt á brunaútsölu til erlendra fjárfesta?


mbl.is Stjórnendur Össurar selja hlutabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV hættir með barnatímann að sögn Vísis

Nú má markaðsliðið í Osta- og smjörsölunni, Mjólkursamsölunni og Sláturfélagi Suðurlands vara sig. Væntanlega heyra Svalakrakkarnir sögunni til sem og ostadrengurinn Gotti  og Klói kókamjólkurtígur. 

En getur verið að RÚV ætli að ganga skrefinu enn lengra með því að hætta að sýna barnaefni á annatíma til þess að forða æskulýðnum frá óþarfa áreiti og skaðlegum áhrifum barnaefnis? Svo mætti ætla ef lesinn er myndatexti með þessari Vísisfrétt. Þá eru Stundin okkar og Brúðubíllinn minningin ein.

Vísir, 24. mar. 2009 17:41

RÚV hættir auglýsingum í kringum barnaefni

mynd
RÚV ætlar ekki að sýna barnaefni á tímum þegar börn eru helst að horfa.

Ríkisútvarpið mun hætta birtingum auglýsinga í kringum barnaefni í Sjónvarpinu. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi RÚV ohf. í dag.

Samþykkt var að engar auglýsingar megi birta í tengslum við barnaefni sem sýnt er þegar líklegt er að börn horfi ein á sjónvarp fyrir klukkan sex á daginn. Í tilkynningu frá RÚv segir að um tímamótaákvörðun sé að ræða þar sem auglýsingar hafi verið sýndar við barnaefni allt frá því að Sjónvarpið hóf göngu sína árið 1966.

Þá segir RÚV jafnframt að með þessu vilji fyrirtækið ganga fram með góðu fordæmi í því að sporna við markaðsvæðingu sem snýr að börnum.


mbl.is Engar auglýsingar í tengslum við barnaefni í Sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær hlutafjárvæddust sparisjóðir?

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra lét hafa það eftir sér að hlutafélagavæðing sparisjóða hefði verið mjög misráðin. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði þetta haft eftir honum, enda var SPRON eini sparisjóðurinn sem fór þá leið eftir að yfirtökuvarnir á sparisjóðum voru efldar á öndverðum áratugnum í því skyni að koma í veg fyrir að óæskilegir aðilar á borð við Búnaðarbankann eða Kaupþing kæmust yfir hornstein Reykvíkinga. Sömu þingmenn og tóku undir með Gylfa í dag voru margir hverjir þeir sömu og samþykktu breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem torvelduðu sparisjóðum nútímavæðast, s.s. með auðveldara aðgengi að fjármagni í formi hlutafjár.

Eftir því sem ég best veit féllu nokkrir stórir sparisjóðir frá hugmyndum um hlutafélagavæðingu og má þar nefna Byr sparisjóð sem hafði fengið samþykkt stofnfjáreigendafundar fyrir breytingu úr sparisjóði í hlutafélag á síðasta ári. Sparisjóður Svarfdæla féll einnig frá sömu hugmynd og aldrei gekk það eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði hlutafélag þrátt fyrir mikinn áhuga stofnfjáreigenda innan vébanda sjóðsins.

Að mínu mati var eitt helsta vandamál sparisjóða einmitt það hversu leiðin frá breytingu úr sparisjóði yfir í hlutafélag var löng og kostnaðarsöm. Á sama tíma og viðskiptabankarnir stækkuðu gríðarlega sátu sparisjóðirnir eftir og áttu undir högg að sækja í samkeppninni. Sú leið sem sparisjóðir fóru á árunum 2005-2007 var einkar dýr fjármögnunarleið: Að sækja sér nýtt eigið fé með útgáfu nýrra stofnfjárbréfa sem voru verðtryggð og báru gríðarháan arð á meðan arðsemi sparisjóða var góð. Miðað við arðsemi sparisjóða er auðvelt að sjá að stofnfé kostaði sparisjóði mun hærri fjármuni en ef um hlutafé hefði verið að ræða. Til dæmis greiddi sparisjóðurinn SPRON arð upp á 9 milljarða króna (51% raunarður) fyrir árið 2006 en SPRON hf. aðeins 1.643 milljónir króna (33% arður) fyrir árið 2007.

Breyting í hlutafélag var háð því að auka stofnfé í stórum eða smáum skömmtum þannig að hlutfall stofnfjáreigenda í endurmetnu stofnfé yrði á endanum sem hagstæðast fyrir þá. SPRON var því eini sparisjóðurinn sem komst svo langt að breyta sér í hlutafélag, enda hófust menn þar fyrstir handa að gefa út nýtt stofnfé fljótlega eftir að viðskipti með stofnfé hófust árið 2004.

Vandræði SPRON voru á engan hátt tengd hlutafélagavæðingu þótt ýmis einkennileg mál hafi skotið upp á yfirborðið síðar sem voru fyrst og fremst tengd viðskiptum á stofnfjármarkaði. Vandræði SPRON tengdust glæfralegum fjárfestingum og þrjósku stjórnenda sjóðsins við að halda í hlutabréf í Existu og Kistu fram í rauðan dauðann. Þegar SPRON varð hf. voru markaðir teknir að falla sem endaði með skelfingu þegar Kaupþing og Exista hrundu og bréfin urðu verðlaus. Það sama var uppi á teningnum hjá SPM, sem var fyrsta bankastofnunin sem varð gjaldþrota, og SpKef - tveimur sparisjóðum sem aldrei hlutafélagavæddust.

Nú ættu fjölmiðlar að spyrja viðskiptaráðherra um hvað hann eigi með þegar hann segir að hlutafjárvæðing sparisjóða hafi verið misráðin. Var hann kannski að tala um massífa stofnfjáraukningu sparisjóða á árunum 2005-2007? En erum við þar ekki að einmitt að tala um sömu aðferð og ríkið hyggst beita nú til að koma sparisjóðunum sínum til bjargar?


mbl.is Harma hvernig yfirtaka SPRON var kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornsteinn Reykjavíkur fellur

Þá er fyrsti sparisjóðurinn fallinn, sá sem lengi vel var var langstærsti og öflugasti sparisjóður landsins. Stjórnendur SPRON veðjuðu á Existu sem var svo sem gott og blessað. Hins vegar var eignarhlutur SPRON og annarra Existu-sparisjóða allt of mikill í samanburði við eignir og eigið fé. Aldrei losuðu Exista-sparisjóðirnir um eignarhlut sinn þegar færi gafst. Sem dæmi um ruglið sem viðgekkst þá var stofnfé í Sparisjóðnum í Keflavík, sem átti stóran hlut í Existu eins og SPRON, metið meira en heildareignir sjóðsins þegar hlutabréfamarkaðurinn komst í hæstu hæðir sumarið 2007.

Egill Helgason talar um að þrátt fyrir kröfuna um stærðarhagkvæmni hafi stóru bankarnir fallið fyrst. Þetta er reyndar mikil einföldun, enda hafa sumir sparisjóðir og Sparisjóðabankinn verið í gjörgæslu svo mánuðum skiptir- löngu áður en bankakerfið hrundi. Þeir voru nánast fallnir eins og yfirtökutilraun Kaupþings á SPRON í fyrrasumar bar glöggt vitni um. Eins og ég lýsti margsinnis í greinum mínum á Markaðnum lifðu sparisjóðir á góðæristímanum fremur á fjárfestingastarfsemi en á staðbundinni bankaþjónustu. Þeir sóttu í áhættu og fengu skellinn á endanum. Grunnstarfsemi skilaði litlu sem engu en gróðinn varð til með gengisbraski.

Pétur Blöndal hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir aðkomu sína að SPRON og orðunum um fé án hirðis. Þessi gagnrýni og eftiráhyggja einkennist á margan hátt af vanþekkingu. Staðreyndin er sú að stærstu sparisjóðirnir höfðu engin tök að keppa við stóru viðskiptabankana þrjá, þótt þeir gjarnan vildu, þar sem hægt gekk að sækja nýtt eigið fé í gegnum stofnfjárleiðina. Á meðan viðskiptabankarnir hlóðu byssurnar á árunum 2003-2005 voru sparisjóðir að þenja út efnahagsreikninga á árunum 2006-2007 þegar skyggja tók á fjármálamörkuðum og eignaverð var í hámarki. Pétri Blöndal verður seint kennt um ákvarðanir stjórnenda sparisjóða, s.s. hröðum útlánavexti á árunum 2006 og 2007 og fjárfestingar í Existu, Kistu og öðrum hlutdeildarfélögum sem síðar urðu banamein SPRON og jafnvel annarra sparisjóða.


mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband