Hornsteinn Reykjavíkur fellur

Þá er fyrsti sparisjóðurinn fallinn, sá sem lengi vel var var langstærsti og öflugasti sparisjóður landsins. Stjórnendur SPRON veðjuðu á Existu sem var svo sem gott og blessað. Hins vegar var eignarhlutur SPRON og annarra Existu-sparisjóða allt of mikill í samanburði við eignir og eigið fé. Aldrei losuðu Exista-sparisjóðirnir um eignarhlut sinn þegar færi gafst. Sem dæmi um ruglið sem viðgekkst þá var stofnfé í Sparisjóðnum í Keflavík, sem átti stóran hlut í Existu eins og SPRON, metið meira en heildareignir sjóðsins þegar hlutabréfamarkaðurinn komst í hæstu hæðir sumarið 2007.

Egill Helgason talar um að þrátt fyrir kröfuna um stærðarhagkvæmni hafi stóru bankarnir fallið fyrst. Þetta er reyndar mikil einföldun, enda hafa sumir sparisjóðir og Sparisjóðabankinn verið í gjörgæslu svo mánuðum skiptir- löngu áður en bankakerfið hrundi. Þeir voru nánast fallnir eins og yfirtökutilraun Kaupþings á SPRON í fyrrasumar bar glöggt vitni um. Eins og ég lýsti margsinnis í greinum mínum á Markaðnum lifðu sparisjóðir á góðæristímanum fremur á fjárfestingastarfsemi en á staðbundinni bankaþjónustu. Þeir sóttu í áhættu og fengu skellinn á endanum. Grunnstarfsemi skilaði litlu sem engu en gróðinn varð til með gengisbraski.

Pétur Blöndal hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir aðkomu sína að SPRON og orðunum um fé án hirðis. Þessi gagnrýni og eftiráhyggja einkennist á margan hátt af vanþekkingu. Staðreyndin er sú að stærstu sparisjóðirnir höfðu engin tök að keppa við stóru viðskiptabankana þrjá, þótt þeir gjarnan vildu, þar sem hægt gekk að sækja nýtt eigið fé í gegnum stofnfjárleiðina. Á meðan viðskiptabankarnir hlóðu byssurnar á árunum 2003-2005 voru sparisjóðir að þenja út efnahagsreikninga á árunum 2006-2007 þegar skyggja tók á fjármálamörkuðum og eignaverð var í hámarki. Pétri Blöndal verður seint kennt um ákvarðanir stjórnenda sparisjóða, s.s. hröðum útlánavexti á árunum 2006 og 2007 og fjárfestingar í Existu, Kistu og öðrum hlutdeildarfélögum sem síðar urðu banamein SPRON og jafnvel annarra sparisjóða.


mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband