Huldufélagið Hesteyri kveður

Margir halda að íslensku huldufélögin hafi bara þrifist í skattaskjólum á borð við Tortola og Lúxembourg. Þetta er fjarri sanni og þarf ekki nema að líta á öll félögin sem endurskoðunarskrifstofurnar hafa stofnað á síðustu árum, t.d. AB, ELL og FS. Eitt mesta huldufélagið í íslensku viðskiptalífi, eftir að Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar (Gift) kom út úr skápnum, er tvímælalaust Eignarhaldsfélagið Hesteyri sem nú hefur verið skipt upp. Að sögn Lögbirtingarblaðsins verður til við skiptingu Hesteyrar Berio ehf. og miðast skiptingin við 1. september á síðasta ári - áður en bankakerfið hrundi. Reynar er uppskipting þessa félags hin furðulegasta þar sem til stóð að skipta því upp árið 2006 á milli eigenda þess sem voru Fiskiðjan Skagfirðingur (Kaupfélag Skagfirðinga), Skinney-Þinganes og Ehf. Samvinnutryggingar.

Þótt sögu Hesteyrar megi rekja til ársins 1989 er það fyrst í einkavæðingu Búnaðarbankans sem félagið leikur stórt hlutverk. Eftir baráttu milli valdablokka Framsóknarflokksins, þar sem Ólafur Ólafsson í Samskipum og Þórólfur kaupfélagsstjóri á Króknum tókust á, fékk Hesteyri um fjórðungshlut í VÍS sem varð stærsta eign þess auk eignarhlutar í Skinney-Þinganesi, fjölskyldufyrirtæki Halldórs Ásgrímssonar. Þannig var krosseignarhald á milli félagsins og hluthafans Skinneyjar. Afar lítið fór hins vegar fyrir þessu félagi í umræðunni og vildu eigendur þess sem minnst um það tala.

VÍS hagnaðist gríðarlega á árunum 2003-2006. Félagið átti m.a. stóran hlut í Kaupþingi og hinum ýmsu hlutafélögum. Fyrirtækið var tekið af markaði af Kaupþingi-Búnaðarbanka, Hesteyri, Ehf. Samvinnutryggingum og Ehf. Andvöku árið 2004. Yfirtökugengið var 49 krónur á hlut sem fljótlega reyndist vera algjört tombóluverð. Exista yfirtók VÍS árið 2006 og fékk Hesteyri hlutabréf í Existu í skiptum sem nam rúmum 5% af heildarhlutafé. Ólíkt Gift, sem jafnframt átti fjórðungshlut í VÍS, var Hesteyri ekki bundið af því að eiga bréfin til langframa og gat því mjatlað út bréfunum. Gift grillaðist á sama tíma, enda hrundi verðmæti Existu þegar Kaupþing féll.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband