III. Hækkun yfir heiði

Yfirtaka Burðaráss á norðlenska fjárfestingarfélaginu Kaldbaki á haustdögum 2004 sætti nokkrum tíðindum. Kaldbakur var að stærstum hluta í eigu Þorsteins Más í Samherja og Jóns Ásgeirs í Baugi en Burðarási var stýrt af Björgólfsfeðgum. Þangað til höfðu leiðir Björgólfsfeðga og hinna ekki legið saman. Slagkraftur Burðaráss jókst töluvert, enda stækkaði efnahagur félagsins um fjórðung.

 

Hluthafar í Kaldbaki nutu góðs af þessum samruna, enda hafði markaðsverðmæti félagsins hækkað hratt á árinu og félagið á meðal hástökkvara ársins. Kaldbakur þótti fýsilegur yfirtökukostur og ákváðu forsvarsmenn Burðaráss að láta til skarar skríða áður en Íslandsbanki eða graðfolarnir í Straumi yrðu fyrri til. Sumir hluthafar Kaldbaks tóku þó út ansi myndarlega ávöxtun á örskömmum tíma. Þann 22. september, tveimur dögum áður en tilkynnt var um samrunann, hafði KEA á Akureyri, sem hafði einmitt stofnað Kaldbak á sínum tíma, selt ríflega 27% hlut í félaginu til Kaldbaks sjálfs fyrir rúma 3,7 milljarða króna og fengið sem endurgjald hlutabréf í Samherja og reiðufé. Kaldbakur framseldi bréfin strax til Samson Global Holdings, fjárfestingararms Björgólfsfeðga, á sama verði og félagið hafði keypt, eða genginu 7,9 krónur á hlut. Björgólfsfeðgar voru þar með orðnir stærstu hluthafar beggja félaga.

 

Þann 24. september höfðu Burðarás og Kaldbakur gert með sér samkomulag um samruna félaganna en þá hafði Burðarás tryggt sér 77% hlutafjár í Kaldbaki af þremur stærstu hluthöfunum, Samson, Baugi og Samherja. Burðarás bauð öðrum hluthöfum Kaldbaks sama verð, eða  9,16 krónur fyrir hlutinn. Samson hafði þannig á skömmum tíma nælt sér í 15,9% hækkun. Hlutur sem hafði verið keyptur af KEA á rúma 3,7 milljarða var nú metinn á rúma 4,3 milljarða króna við samrunann. Þóknun Björgólfsfegða við það að koma Burðarási og Kaldbak í eina sæng nam því 600 milljónum króna. Samson fékk tæplega þriggja prósenta hlut í Burðarási í skiptum fyrir Kaldbaksbréfin á genginu 14,36 en á sama tíma kostaði einn hlutur í Burðarási fimmtán krónur á markaði. Hefði Samson farið út á markaðinn til að næla sér í þennan 3% hlut hefði félagið orðið að greiða 190 milljónum króna meira. Því má segja að Samson hafi alls grætt 800 milljónir króna á þessum viðskiptum.

 

Auðvitað vöktu viðskiptin upp spurningar um aðkomu Björgólfsfeðga að þessu máli og hvort þeir hafi setið að trúnaðarupplýsingum sitjandi beggja vegna borðsins. Í fréttaskýringu Soffíu Haraldsdóttur, Hækkun yfir Heiði, kemur fram að forsvarsmenn KEA vissu af fyrirhuguðum samruna en höfðu ekki hugmynd um hvert skiptagengið kynni að verða. Andri Teitsson, sem var framkvæmdatjóri KEA, fullyrti að félagið hefði ekki haft vitneskju um fyrirhugað skiptagengi og stjórnarformaðurinn, Benedikt Sigurðarson, tók í sama streng. „Okkur var kunnugt um að samruni félaganna hefði verið kortlagður en töldum að ekki væri búið að ganga frá samningum þar að lútandi. ... Við gerðum kröfu um að sala á bréfunum frá Kaldbak yrði á sama gengi og okkur stóð til boða. Og við það var staðið. Sá hluti viðskiptanna var sá eini sem við gátum komið að,“ sagði hann. „Skiptahlutfallið lá ekki á borðinu gagnvart okkur enda vorum við ekki aðilar að þeim þætti viðskiptanna. En ég neita því ekki að það kom okkur á óvart þegar við sáum á hvaða gengi Samson seldi hlutinn til Burðaráss.“ Ljóst var að KEA hafði engan áhuga að verða lítill hluthafi í Burðarási og sá fremur hagsmunum sínum borgið með því að verða stór hluthafi í Samherja. 

 

Hvorki Eiríki Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Kaldbaks, né Friðriki Jóhannssyni, forstjóra Burðaráss, fannst nokkuð athugavert við skiptin og gáfu til kynna að KEA-menn hefðu gert mistök með því að átta sig ekki á mögulegum skiptahlutföllum. Aðrir bentu á að hlutabréf í Burðarási hefðu lækkað eftir samrunann og því hefði ávinningurinn gufað upp. Sú lækkun gekk reyndar til baka á árinu 2005 og gott betur en það eins og sannaðist þegar Burðarási var skipt upp á milli Landsbanka og Straums. Eftirlitsaðilum og Kauphöll þótti ekki ástæða til þess að kanna hvort maðkur hefði verið í mysunni.

 

Spyrja má hvort félagsmenn í KEA og norðlenskt samfélag hafi verið þau einu sem voru hlunnfarin á snúningi Björgólfsfeðga. Erfitt er að sjá að Samson hafi verið að gæta hagsmuni hluthafa í almenningshlutafélaginu Burðarási. Smærri hluthafar í Burðarási, þar á meðal lífeyrissjóðir sem áttu alls 9% hlutafjár, voru látnir greiða 600-800 milljóna króna „þóknun“ sem stærsti hluthafinn tók sér fyrir dílinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er norðlendíngur, þáverandi & núverandi bæði hluthafi í KEA & Straumi.

Mar zkyrpir zúru ....

Steingrímur Helgason, 30.10.2009 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband