5.9.2009 | 09:49
Fire sale hjá Fons
DV sagði frá því á dögunum að lögmaður nokkur, Guðjón Ólafur Jónsson, hefði tekið sér um 4% þóknun fyrir það að miðla ríflega 29% hlut þrotabús Fons í sænsku ferðaskrifstofukeðjunni Ticket til nýs eiganda. Samtals nam þóknunin 25 milljónum króna sem hlýtur að teljast verulega há fjárhæð í ljósi þess að umrædd bréf eru ekki í óskráðu félagi heldur í fyrirtæki sem gengur kaupum og sölum á sænska hlutabréfamarkaðnum. Söluþóknun vegna hlutabréfaviðskipta venjulegra kúnna er oft á bilinu 0,8-1,2%. Salan vekur einnig upp spurningar hvort seljandi og tengdir aðilar, þ.e. þrotabúið, bankinn og lögmaðurinn, hafi reynt að fá hámarksverð fyrir bréfin. Það verður að teljast ólíklegt í ljósi þróunarinnar.
Hluturinn, sem var seldur í maí, fór því u.þ.b. 600 milljónir króna til norsku Braathen-fjölskyldunnar sem hefur verið viðloðandi flugrekstur í marga áratugi. Strax á fyrsta degi, sem bréfin voru í eigu Norðmanna, hækkaði gengi Ticket um 8,5% og nú - um fjórum mánuðum síðar - stendur markaðsvirði hlutarins, sem Guðjón seldi fyrir hönd þrotabúsins, í 830 milljónum IKR. Hluturinn hefur því hækkað um 38% að teknu tilliti til gengisbreytinga. Um tíma nálgast virði hlutarins einn milljarð króna.
Það geta svo sem verið ýmsar skýringar fyrir því að Ticket hefur hækkað svo mikið á þessu tímabili. Hlutabréf á erlendum mörkuðum hafa verið á mikilli siglingu og svo er líklegt að eigendaskiptin hafi haft jákvæð áhrif, enda var staða Fons ekki glæsileg. Þá var jafnframt fallið frá hlutafjáraukningu sem hafði verið boðuð. En varla getur þetta skýrt nærri 38% hækkun á tímabilinu? Getur verið að um brunaútsölu hafi verið að ræða á kjölfestuhlut í stærstu ferðaskrifstofukeðju Norðurlanda og að lögmaðurinn hafi kosið að selja í flýti til þess að tryggja sér háa þóknun?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.