26.8.2009 | 11:09
Hlutafé Existu þurrkað út
Á aðalfundi Existu í dag liggur fyrir tillaga um að allt hlutafé félagsins verði fært niður, um rúma 13,9 milljarða króna. Þar með hafa allir hluthafar Existu - jafnt háir sem smáir - tapað sínu, þar á meðal þeir sem fengu hlutabréf í Existu í arð frá Kaupþingi árið 2006 og þeir hluthafar sem áttu bréf í Skiptum.
Þótt stjórnendur félagsins ætli sér ekki að leggja fram reikninga fyrir síðasta ár verður kjörin ný stjórn. Ekki liggur fyrir hverjir hafa gefið kost á sér en það kæmi mér verulega á óvart ef Robert nokkur Tchenguiz situr áfram. Alltént bíður nýrra stjórnarmanna ekki öfundsvert verkefni. Framtíðin er óljós þar sem innlendir kröfuhafar (skilanefndir) vilja greinilega ýta út núverandi stjórnendum og koma sjálfum sér að kjötkötlunum. Og þá er almenningsálitið ekki á bandi Bakkabræðra.
Stjórnendur Existu hafa óskað eftir því að reka félagið áfram fyrir hönd kröfuhafa fyrir 800 milljónir króna á ári. Þetta er ansi góð upphæð fyrir fremur einfalt eignarhaldsfélag, jafnvel þótt rekstrarkostnaður Existu yrði bara lítið brot af því sem hann var á árunum 2006-2008. Til samanburðar var rekstrarkostnaður VÍS, sem er að fullu í eigu Existu, 2,4 milljarðar króna á síðasta ári. Hjá VÍS starfa yfir 200 starfsmenn en fáir eru eftir í herbúðum Existu.
Hins vegar hefur verið gaman að fylgjast með umræðunni um málefni Existu á dögunum. Spunakarlar skilanefndanna hafa greinilega verið að hneyklast á rekstrarkostnaði félagsins en ættu að líta í eigin barm. Skilanefndir gömlu bankanna eru að verða eins og ríki í ríkinu - svona rétt eins og Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir voru á sínum tíma. Þær eru orðnar eins og meðalstór íslensk fyrirtæki í starfsmannafjöld, þó með gríðarleg völd þar sem vindir og vandamenn sitja í allsnægtum. Er rekstrarkostnaður í skilanefndunum eitthvað frábrugðinn því sem forsvarsmenn Existu og Straums hafa verið að kynna til sögunnar?
Exista birtir ekki reikning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:17 | Facebook
Athugasemdir
Til hvers var verið að boða til aðalfundar ef ársreikningur var ekki tilbúinn?
Guðjón Sigþór Jensson, 26.8.2009 kl. 12:22
Hvar eru Landssímapeningarnir? það fyrirtæki var rekið með miklum arði fyrir Ríkið, áður en "Síminn" keypti það?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.8.2009 kl. 20:51
Mér fannst nú Lýður ansi kokhraustur þegar hann talaði um "gjaldrþorta kröfuhafa" sem væru að knýja Exista í gjaldþrot.
Þeir eru með stór lán í vanskilum (er ekki gjalddagi 1. júní ógreiddur?) og eiga ekki fyrir skuldum. Er þetta skilanefndum að kenna?
Og hvernig ætla þeir að ná svona miklum arði að þeir geti gert upp við kröfuhafa sína á löngum tíma? Ja væntanlega með því að græða nógu mikið á viðskiptavinum VÍS, Símans og annarra félaga sinna.
Þeir mættu skila okkur Símanum og breyta sumarhöllum sínum í orlofsbúðir fyrir þá sem minna mega sín. Þá skal ég mögulega kannski íhuga afsökunarbeiðni þeirra.
Einar Karl, 26.8.2009 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.