12.8.2009 | 18:12
Álagning hjá N1 hækkaði
Fyrr á þessu ári hrósaði ég N1 fyrir auka upplýsingagjöf félagsins á sama tíma og fjölmörg fyrirtæki, sem eru með skuldabréf skráð í Kauphöll Íslands, fóru þá leið að birta ekki fjárhagsupplýsingar. Nú hefur N1 birt tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sem sýna töluverðan rekstrarbata miðað við árið áður þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið í rauðum litum.
Það vekur mikla athygli mína að framlegð N1, þ.e. munurinn á milli veltu og vöruinnkaupa, eykst um 670 milljónir króna á milli ára, eða um 27,5%, þrátt fyrir að velta dragist lítillega saman. Með öðrum orðum: Álagning N1 hækkaði þónokkuð á mili tímabila. Ekki verður lagt mat á það hvort þetta sé ásættanlegur árangur hjá N1 og þá liggja ekki fyrir upplýsingar hvernig velta skiptist á milli vöruflokka. Mikil hækkun olíuverðs á fyrri hluta ársins 2008 kann að hafa haft áhrif á framlegð og álagningu félagsins en eldsneytissala skapar drjúgan hluta teknanna.
N1, sem er sennilega næststærsta smásölufyrirtæki landsins, velti rúmum 10,6 milljörðum króna samanborið við 10,9 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2008. Verðbólga var nærri 12% á milli ára. Sýnir það glöggt þann raunsamdrátt sem hefur átt sér stað í hagkerfinu á árinu 2009.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.