5.8.2009 | 17:43
Skattkerfið fitnar
Nýjar innheimtuaðgerðir hins opinbera á fjármagnstekjuskatti er ágætt dæmi um hvernig einfaldir hlutir verða skyndilega flóknir. Hér áður var einn gjalddagi á ári af skatti af vöxtum og arði en nú eru greiðsludagar orðnir ársfjórðungslega eftir að fjármagnstekjuskattur (af tekjum yfir 250 þúsund kr.) var hækkaður um helming frá og með 1. júlí.
Um gjalddaga segir í leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra: "Greiðslutímabil skatt skal vera þrír mánuðir. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og er eindagi 15 dögum síðar. Gjalddagi fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2009 er 20. júlí sama ár og eindagi 15 dögum síðar."
Þótt breyttar innheimtuaðgerðir bæti lausafjárstöðu hins opinbera er óvíst hvort þær teljist umhverfisvænar eða kalli á minni kostnað fyrir hið opinbera og skilaskylda aðila. Pappírsmagn eykst því allir lögaðilar fá nú fjórar póstsendingar á ári með skilagreinum vegna staðgreiðslu á vöxtum og arði í stað einnar áður. Eflaust fjölgar líka blýantanögurunum hjá hinu opinbera, enda hlýtur þetta að kalla á meira utanumhald. Þá hlýtur að þurfa að uppfæra tölvukerfi með tilheyrandi kostnaði.
Fyrir fyrirtækin, einkum fjármálafyrirtækin, aukast skýrsluskilin enn frekar og hefðu margir talið nóg að halda utan um virðisaukaskattinn annan hvern mánuð og mánaðarleg skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi. Það að breyta innheimtuaðgerðum og hækka skattprósentu og tryggingagjald innan almanaksársins veldur ruglingi, tekur tíma frá stjórnendum fyrirtækja og eykur kostnað á tímum þegar allt er að skreppa saman.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:44 | Facebook
Athugasemdir
Það er líka óskiljanlegt að ekki sé hægt að skila inn skattskýrslum af vöxtum og arði rafrænt eins og með staðgreiðslu og VSK.
Gunnar H. (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.