12.6.2009 | 18:53
Kauphöllin nær fjármunum til baka
Enn hefur Kauphöllin höggvið í sama knérunn og lagt sektir á fleiri fyrirtæki sem standa afar tæpt fjárhagslega. Bara ef Kauphöllin hefði verið jafn dugleg að sekta og birta nöfn þeirra fyrirtækja sem gerðust brotleg við lög og starfsreglur Kauphallar á góðæristímanum.
Eitt þessara félaga sem hefur fengið skömm í hattinn er Atorka Group sem nú er í greiðslustöðvun. Fyrir þá sem ekki vita þá hafa Kauphöllin og Atorka Group lengi eldað grátt silfur saman og hitti þar skrattinn ömmu sína. Á meðan hlutabréfamarkaður var og hét fóru forsvarsmenn Atorku jafnan eigin leiðir. Þar nægir einfaldlega nefna deilu þessara aðila um birtingarform uppgjörs Atorku sem var með öðrum hætti en hjá öðrum fyrirtækjum. Jafnvel útvaldir endurskoðendur klóruðu sér í kollinum yfir þessum uppgjörsaðferðum sem þó voru í samræmi við IFRS. Atorka kaus að birta tvö uppgjör: Annars vegar móðurfélags, þar sem fjárfestingar í dótturfélögum voru metnar á gangvirði, og hins vegar samstæðuuppgjör þar sem beitt var hlutdeildaraðferð í stað gangvirðisbreytingu dótturfélaga. Þessi aðferð Atorka fór fyrir brjóstið á Kauphöllinni sem lagði þannig févíti á kópvogska fjárfestingarfélagið árið 2006 að upphæð 2,5 milljónir króna og atyrti félagið opinberlega. Til að gera langa sögu stutta fór Atorka í mál og vann það bæði í undirrétti og Hæstarétti. Kauphöllinni var skylt að greiða sektina til baka með vöxtum.
Annað mál, þar sem samskipti Atorku og Kauphallar hafa komið fram með opinberum hætti, var möguleg yfirtökuskylda stórra hluthafa í Hampiðjunni. Mig minnir að Atorka hafi talið að tilboðsskylda stórra hluthafa, Vogunar og Venusar, hefði myndast þar og fór málið fyrir yfirtökunefnd sem taldi jafnframt svo vera, eða þar til að stórir hluthafar seldu sig niður fyrir yfirtökumörk. Þá var yfirtökuskyldan horfin allt í einu!
Fjögur félög beitt févíti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:31 | Facebook
Athugasemdir
Þessar sektir eru brandari því ég sé ekki betur en Kauphöllin hafi aðallega sektað löngu dauð félag s.s. Glitni. Það sjá allir að sú sekt verður aldrei greitt enda félagið komið í þrot
de jury og de facto. Áfram er því auðvitað treyst að almenningur sé svo vitlaus að hann átti sig ekki á þessu. Betra hefði verið að gera sektirnar að einum góðum brandara. Sekta t.d. Adolf Hitler fyrir brot á reglum kauphallarinnar t.d. um 6.000.000. ??
Vandinn með Kauphöllina er auðvitað að forstöðumaðurinn var á kafi í svindlkerfinu og börnin á mikilvægum stöðum í helstu svindlfélögunum.
Einar Guðjónsson, 12.6.2009 kl. 23:01
Ég held að það þurfi að fjarlægja Þórð úr starfi sínu í þessari s.k. Kauphöll. Allar essar sektir eru sýndarmennska til að fegra ásjónuna, en það er of seint.
Finnur Bárðarson, 13.6.2009 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.