Tveir óskyldir hlutir

Mikið hefur verið fjallað um eignarhald á Smáralindinni eftir að ég bloggaði um það í gær að ríkisbankarnir ættu allt hlutafé hennar. Margir hafa hins vegar talið að rekstur Smáralindar valdi því að Saxbygg, sem átti óbeinan hlut í verslanamiðstöðinni, sé farið í þrot. Þessi kenning er algjörlega út í hött þar sem fall Glitnis leiddi til falls Saxbyggs. Raunar er Smáralind vel rekstrarhæft fyrirtæki með réttri fjármagnsskipan. Á síðasta ári nam rekstrarhagnaður hennar fyrir afskriftir (EBITDA) um 700 milljónum króna og var handbært fé frá rekstri um 220 milljónir króna. Tap Smáralindar skýrist af háum fjármagnskostnaði og tveggja milljarða króna lækkun á verðmati fasteignarinnar.

Í þessu sambandi er fróðlegt að bera Smáralind saman við Eik fasteignafélag, sem á einmitt 52% hlut í Smáralind. Þar á bæ færðu menn upp verðmæti fasteigna um rúma 3,5 milljarða króna. Ansi djörf ákvörðun á tíma þar sem fasteignaverð er á hraðri niðurleið sem og leigugjöld. Ef ekki hefði komið til þessarar uppfærslu hefði eigið fé Eikar orðið neikvætt um einn milljarð króna.

Það er brýnt í allri umræðu að menn greini á milli eplis og appelsínu. Fjöldagjaldþrot og miklir fjárhagserfiðleikar íslensku eignarhaldsfélaganna þurfa ekki að hafa nein áhrif á rekstur þeirra rekstrarfyrirtækja sem þau eiga. Halda menn til dæmis að slæm staða Landic Property valdi því að Kringlan sé óstarfhæf?


mbl.is Fall Saxbygg fleytir Smáralind í fang ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

EBITDA er ekki hagnaður fyrir afskriftir. EBITDA er hagnaður (tekjur-rekstrarkostnaður) fyrir vexti, skatta, afskriftir og afborganir. Bara svo termínólógian sé á hreinu.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 10:22

2 Smámynd: Eggert Þór Aðalsteinsson

Þetta er allt á hreinu hjá mér, enda kom sérstaklega fram að um rekstrarhagnað væri að ræða. EBITDA er í daglegu íslensku máli kallað rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og undanskilur jafnframt fjármagnsliði og skatt. EBIT er rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði.

Eggert Þór Aðalsteinsson, 18.5.2009 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband