Hvenær hlutafjárvæddust sparisjóðir?

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra lét hafa það eftir sér að hlutafélagavæðing sparisjóða hefði verið mjög misráðin. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði þetta haft eftir honum, enda var SPRON eini sparisjóðurinn sem fór þá leið eftir að yfirtökuvarnir á sparisjóðum voru efldar á öndverðum áratugnum í því skyni að koma í veg fyrir að óæskilegir aðilar á borð við Búnaðarbankann eða Kaupþing kæmust yfir hornstein Reykvíkinga. Sömu þingmenn og tóku undir með Gylfa í dag voru margir hverjir þeir sömu og samþykktu breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem torvelduðu sparisjóðum nútímavæðast, s.s. með auðveldara aðgengi að fjármagni í formi hlutafjár.

Eftir því sem ég best veit féllu nokkrir stórir sparisjóðir frá hugmyndum um hlutafélagavæðingu og má þar nefna Byr sparisjóð sem hafði fengið samþykkt stofnfjáreigendafundar fyrir breytingu úr sparisjóði í hlutafélag á síðasta ári. Sparisjóður Svarfdæla féll einnig frá sömu hugmynd og aldrei gekk það eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði hlutafélag þrátt fyrir mikinn áhuga stofnfjáreigenda innan vébanda sjóðsins.

Að mínu mati var eitt helsta vandamál sparisjóða einmitt það hversu leiðin frá breytingu úr sparisjóði yfir í hlutafélag var löng og kostnaðarsöm. Á sama tíma og viðskiptabankarnir stækkuðu gríðarlega sátu sparisjóðirnir eftir og áttu undir högg að sækja í samkeppninni. Sú leið sem sparisjóðir fóru á árunum 2005-2007 var einkar dýr fjármögnunarleið: Að sækja sér nýtt eigið fé með útgáfu nýrra stofnfjárbréfa sem voru verðtryggð og báru gríðarháan arð á meðan arðsemi sparisjóða var góð. Miðað við arðsemi sparisjóða er auðvelt að sjá að stofnfé kostaði sparisjóði mun hærri fjármuni en ef um hlutafé hefði verið að ræða. Til dæmis greiddi sparisjóðurinn SPRON arð upp á 9 milljarða króna (51% raunarður) fyrir árið 2006 en SPRON hf. aðeins 1.643 milljónir króna (33% arður) fyrir árið 2007.

Breyting í hlutafélag var háð því að auka stofnfé í stórum eða smáum skömmtum þannig að hlutfall stofnfjáreigenda í endurmetnu stofnfé yrði á endanum sem hagstæðast fyrir þá. SPRON var því eini sparisjóðurinn sem komst svo langt að breyta sér í hlutafélag, enda hófust menn þar fyrstir handa að gefa út nýtt stofnfé fljótlega eftir að viðskipti með stofnfé hófust árið 2004.

Vandræði SPRON voru á engan hátt tengd hlutafélagavæðingu þótt ýmis einkennileg mál hafi skotið upp á yfirborðið síðar sem voru fyrst og fremst tengd viðskiptum á stofnfjármarkaði. Vandræði SPRON tengdust glæfralegum fjárfestingum og þrjósku stjórnenda sjóðsins við að halda í hlutabréf í Existu og Kistu fram í rauðan dauðann. Þegar SPRON varð hf. voru markaðir teknir að falla sem endaði með skelfingu þegar Kaupþing og Exista hrundu og bréfin urðu verðlaus. Það sama var uppi á teningnum hjá SPM, sem var fyrsta bankastofnunin sem varð gjaldþrota, og SpKef - tveimur sparisjóðum sem aldrei hlutafélagavæddust.

Nú ættu fjölmiðlar að spyrja viðskiptaráðherra um hvað hann eigi með þegar hann segir að hlutafjárvæðing sparisjóða hafi verið misráðin. Var hann kannski að tala um massífa stofnfjáraukningu sparisjóða á árunum 2005-2007? En erum við þar ekki að einmitt að tala um sömu aðferð og ríkið hyggst beita nú til að koma sparisjóðunum sínum til bjargar?


mbl.is Harma hvernig yfirtaka SPRON var kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband