Þar sváfu fjölmiðlar á verðinum

Ég hef velt því fyrir mér hvort fjölmiðlar hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu með því að gera sparifjáreigendum ekki grein fyrir þeirri áhættu sem fylgdi því að geyma peninga í peningamarkaðssjóðum bankanna. Nú hafa borist fréttir af því að sölumenn bankanna hafi í einhverjum tilvikum haldið þeirri firru á lofti við fjárfesta, að peningamarkaðsbréf væru öruggur fjárfestingarkostur.

Hvar voru fjölmiðlar þegar Gnúpur lagðist á aðra hliðina í upphafi síðasta árs? Gnúpur var gírugt fjárfestingarfélag sem var eins konar “mini útgáfa” af FL Group. Félagið átti stóra eignarhluti í FL Group og Kaupþingi og hafði mikil lækkun hlutabréfa í fyrrnefnda fyrirtækinu á seinni hluta árs 2007 mikil áhrif á afkomu Gnúps og bankakerfið í heild. Hluthafar félagsins töpuðu öllu sínu og var það gert upp. Þetta hafði áhrif á bankana, sem áttu nú verðlaus skuldabréf í Gnúpi, og peningamarkaðssjóðina sem höfðu ennfremur fjárfest í slíkum bréfum. Var þetta forleikurinn að þeim harmleik sem síðar skall yfir.

Til dæmis hvarf tveggja vikna ávöxtun á peningamarkaðsbréfum Kaupþings þegar sjóðurinn varð að afskrifa Gnúpsbréf. SPRON-sjóðurinn varð einnig fyrir höggi en í stað þess að láta fjárfesta bera tjónið þá tók sparisjóðurinn (lesist hluthafar) höggið á sig!

Ég þekki til varkárra fjárfesta sem tóku alla sína fjármuni út úr peningamarkaðsbréfum banka og sparisjóða þegar Gnúpur fór í þrot og settu peningana inn á bankabók. Þeir sættu sig við það að verða af 3-4% vaxtamun en halda í staðinn í innistæðutrygginguna. Þessir menn voru sérfræðingar sem þurftu ekki að láta viðskiptablöðin upplýsa sig um stöðu mála. Hinir almennu fjárfestar höfðu hins vegar engan eða óljósan grun um þá áhættu fjárfestingar sinnar sökum getuleysis fjölmiðla til að kafa ofan í þetta mál og blekkinga sölumanna í bönkunum.


mbl.is Dómstólaleiðin framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband