21.4.2010 | 00:45
Björgólfur Thor og CCP
Á sama tíma og flest fyrirtæki sem höfðu sig mest frammi í útrásinni eru annaðhvort hrunin eða standa á brauðfótum hefur CCP vaxið gríðarlega eftir að hagkerfið hrundi. Félagið skilaði ríflega sex milljón dala hagnaði í fyrra og nam handbært fé frá rekstri yfir 20 milljónum dala sem var um 60% aukning á milli ára.
Umræðan um eignarhald á CCP vaknar upp á sama degi og félagið hlýtur hin eftirsóttu útflutningsverðlaun forsetans. NP ehf., einn armur af Novatorveldi Björgólfs Thors, er nefnilega stærsti hluthafinn í félaginu.
Novator, sem á um 30% í CCP, eignaðist stóran hlut í félaginu í ársbyrjun 2006 þegar Brú Venture Capital, dótturfélag Straums-Burðaráss, seldi hlut sinn í tölvuleikjafyrirtækinu. Fram kom að Brú hefði leyst umtalsverðan söluhagnað en forsvarsmenn Brúar báru fyrir sig að söluverðið væri trúnaðarmál. Kaupverðið er þó talið hafa verið 180 krónur á hlut en í nýlegu hlutafjárútboði CCP var útboðsgengið 18 dollarar á hlut, um 2.200-2.300 krónur. Ætla má að fjárfesting Björgólfs Thors í CCP hafi því ríflega tólffaldast í virði í krónum talið á aðeins fjórum árum. Kaupin vöktu mikla athygli, enda var Björgólfur Thor jafnframt stjórnarformaður og stærsti hluthafinn í Straumi-Burðarási. Bandarískur fjárfestingasjóður, General Catalyst, sem er næststærsti hluthafinn í CCP í dag, var sagður hafa haft áhuga að kaupa CCP sumarið 2006 fyrir 5-6 milljarða króna sem hefði jafngilt 500-600 krónum á hlut.
Þótt Novator hafi átt menn inni í stjórn CCP þá er það á engan hátt Björgólfi Thor að þakka að CCP er á þeim stað sem það er í dag. Starfsmenn félagsins, sem eru m.a. þeir sömu og óðu eld og brennistein á fyrstu árum þessar aldar til þess að koma fyrirtækinu á legg, eiga þetta fyrirtæki frá a til ö.
CCP fékk Útflutningsverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sem betur fer eru til mörg vel rekin Íslensk fyrirtæki. Þau eru hinsvegar lítið í fréttum og er það slæmt. Ekki veitir okkur af uppbyggilegum fréttum,
Gunnar Heiðarsson, 21.4.2010 kl. 03:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.