Ekki-áramótakveðja útvarpsstjóra

Útvarpsstjórinn Páll Magnússon fór hörðum orðum um siðlitla viðskiptajöfra og athafnaleysi stjórnvalda í áramótakveðju sinni. Jafnframt sagði hann að Ríkisútvarpið væri ein örfárra stofnana samfélagsins sem hefði tekist að varðveita traust sitt og trúverðugleika.

Þessi orð Páls vekja nokkra furðu í ljósi þess hversu hræðilega hefur tekist hjá yfirstjórn RÚV að halda utan um fjármál stofnunarinnar á fyrsta áratug 21. aldar. Sannast sagna hefur yfirstjórn RÚV sýnt fádæma virðingarleysi gagnvart fjármunum skattgreiðenda, rétt eins og útrásarvíkingarnir, sem fá á baukinn í áramótaávarpinu, hafa gert með hegðun sinni á síðustu árum. Til dæmis hefur eigið fé RÚV tvívegis gufað upp; fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Og ekki er beinlínis hægt að segja að erlendar lántökur hafi skipt sköpum í því hvernig hefur farið hjá RÚV því í miklu skuldafjalli eru erlendar skuldir hverfandi.

Lítil umræða hefur hins vegar farið fram um rekstur RÚV og ábyrgð yfirstjórnar þess. Frá árinu 2001 til 31. ágúst s.l. nam uppsafnaður halli RÚV 2,8 milljörðum króna. Á síðasta rekstrarári var hlutafé RÚV ohf. fært niður um 563 milljónir króna til að mæta miklu tapi rekstrarárið áður. Ríkið kom svo inn nýtt með hlutafé fyrir 1.350 milljónir króna. Strax árið 2003 var vitað í hvað stefndi þegar lausaskuldir hrönnuðust upp og bókfært eigið fé var nær uppurið.

Þessi gorgeir stjórnenda RÚV er eiginlega hjákátlegur þegar skoðuð eru ummæli Óðsins Jónssonar, fréttastjóra RÚV, á vefritinu Pressunni á síðasta ári. Þar tjáði hann sig um aukna samkeppni á ljósvakamarkaði með fréttasamstarfi Morgunblaðsins og Skjás Eins: "Ef Morgunblaðið telur sig geta náð betri árangri á ljósvakanum heldur en á prentmarkaði, þá er sjálfsagt rétt af þeim að láta á það reyna," sagði Óðinn. "Vonandi leiðir það þó ekki til þess að rekstrarvandi blaðsins aukist. Líklega þykir skattborgurum nóg komið af afskriftum í ríkisbankakerfinu vegna fjölmiðla í eigu umsvifamanna sem komu hér öllu í þrot." 

En eru þá afskriftir hins opinbera vegna fjölmiðla í eigu hins opinbera í lagi? Finnst almenningi það traustvekjandi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fjölmiðlar þyrftu að gæta jafnræðis hvað varðar greiðslur frá ríkisvaldinu. Það myndi efla menningarlegt framtak og stuðla að stöðugleika á fjölmiðlamarkaði. Ég hef skrifað nokkra pistla um þetta sem má finna í efnismöppunni „Ríkisútvarpið“ á blogginu mínu. Ríkið gæti sem best átt Rúv ef það vill en jafnræði þarf að gilda varðandi greiðslur og styrki.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.1.2010 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband