10.12.2009 | 12:02
Dýrkeyptur frímerkjaarður
Fjármálaeftirlitið hefur til skoðunar hvort Straumur og Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, hafi með mögulegum sýndarviðskiptum forðað Straumi frá yfirtökuskyldu á Icelandic Group á erfiðum tímum í árslok 2007. Ef satt reynist þá er þetta blaut tuska í andlit hinna 20 þúsund fyrrum hluthafa í Icelandic sem sáu hlutabréf sín hrynja í verði á fyrri hluta ársins 2008.
Því verður að halda til haga að það var einmitt Straumur sem gerði margan manninn að hluthafa í Icelandic Group án þess að fjárfestar hefðu kært sig um það. Um var að ræða einhverja furðulegustu arðgreiðslu Íslandssögunar þegar Straumur greiddi árið 2006 hluthöfum sínum m.a. arð, alls 350 milljónir króna í formi hlutabréfa sem bankinn átti í Icelandic Group. Þessi ákvörðun stjórnenda Straums (og auðvitað hluthafanna sjálfra sem samþykktu tillögu stjórnarinnar) var umdeild því bankinn var að losa sig við illseljanleg bréf og það sem meira var að bjarga Icelandic Group frá mögulegri afskráningu þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði Kauphallar um lágmarksfjölda hluthafa. Í einu vetfangi varð Icelandic þriðja fjölmennasta almenningshlutafélag landsins á eftir Kaupþingi og Landsbankum!
Í flestum tilvika voru hlutabréfin, sem hluthafarnir fengu, svo lítils virði að þau dugðu ekki fyrir viðskiptakostnaði. Þannig fékk hluthafi sem átti eina milljón króna í Straumi hlutabréf í IG sem metin voru 1.800 krónur að markaðsvirði. Þess vegna var talað um "frímerkjaarð".
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.