9.12.2009 | 00:32
Sparisjóðaáhlaup spunakarla
Þegar verið er að ljúka langvinnum og viðkvæmum samningaviðræðum Byrs sparisjóðs við kröfuhafa og ríkið koma fram spunakarlar úr bankakerfinu með atgeirinn og leggja til Byrs með fyrsta sparisjóðaáhlaupi Íslandssögunnar, sbr. Fréttablaðið í fyrradag. Viðræðurnar um endurskipulagningu Byrs hafa staðið yfir í langan tíma og eru með því besta sem hefur sést við endurreisn fjármálakerfisins, meira en verður sagt um endurreisn gömlu bankanna og annarra fjármálafyrirtækja sem komust í peninga skattborgara bakdyramegin. Maður spyr sig því hverjir það séu sem eru að reyna að koma Byr fyrir kattarnef? Er það í alvöru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem nú vill ekkert gera fyrir erlenda kröfuhafa, eða, sem líklegra er, keppinautar Byrs á innlendum fjármálamarkaði, litlu kotkarlarnir.
Í síðustu viku greindi Viðskiptablaðið frá því að uppstokkun sparisjóðakerfisins væri á næsta leiti. Þar kom fram að rætt hefði verið um að BYR rynni inn að hluta eða öllu leyti inn í Íslandsbanka eða Landsbankann. Það er ekkert launungarmál að forsvarsmenn Íslandsbanka og forvera hans hafa viljað komast yfir Byr, eins og yfirtökutilboð Andarslitru-Glitnis gaf til kynna,. (Sú flökkusaga gengið um bæinn að innan Íslandsbanka sé búið að teikna sparisjóðinn sem deild inn á skipuriti bankans).
Fréttablaðið birti svo ansi djarflega frétt í fyrradag um að Byr yrði trauðla bjargað. Það telur að innan raða stofnfjáreigenda séu menn ósáttir með því að verða þynntir út ef ríkið leggur inn nýtt stofnfé. Hvernig í ósköpunum ættu menn að vera það þegar horft er á örlög fjárfesta sem áttu hlutabréf í SPRON og útrásarbönkunum?
Eitt það einkennilegasta við þá frétt eru þær furðulegu hugmyndir um að MP Banki eða Saga Capital taki yfir eignir og skuldbindingar Byrs. Samskipti fyrrnefnda bankans við BYR hefur verið með ólíkindum í gegnum tíðina, t.d. hvað snertir þátt MP þegar viðskipti með stofnfé hófust í Sparisjóði vélstjóra og ekki síst tengsl MP banka við Exeter Holdings þar sem sjóðir Byrs voru notaðir til að fjármagna kaup Exeter á stofnfjárbréfum í BYR af MP. Þótt Byr hafi verið einn stærsti hluthafinn í MP hefur maður lengi haft á tilfinningunni að verulega hafi hallað á hlut Byrs í samskiptum þessara tveggja fjármálastofnana.
Ríkið varpaði frægum og gildum björgunarhring til hluthafa í fjárfestingarbankanum Saga Capital. Halda menn að Saga sé í stakk búið til taka yfir miklu stærri banka? Hvaða landsbyggðarpólitík yrði þar á ferðinni?
Óumdeilt er að íslenska bankakerfið er allt of stórt í sniðum. Hins vegar kemur það undarlega fyrir sjónir ef skera á niður sparisjóðakerfið eftir allar yfirlýsingar stjórnmálamanna en halda úti risastóru bankakerfi og nokkrum stórum fjárfestingarbönkum. Nú þegar hefur sparisjóðakerfið minnkað stórlega með brotthvarfi SPRON.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Facebook
Athugasemdir
Nöfn nýju bankanna: „Hver lætur plata sig á þessu? Þetta eru sömu bankarnir með nýtt nafn“
Friðrik flutti erindi um nafnabreytingar bankanna á rannsóknarmálstofu Viðskiptafræðistofnunar í Háskóla Íslands í dag.
Í máli sínu benti Friðrik á þann mun sem finna má í málflutningi bankastjóranna annars vegar og á heimasíðum þeirra hins vegar. Þannig hafi Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, sagt að ástæða nafnbreytingarinnar hafi verið sú að byggja upp traust á bankanum á nýjan leik. Skiptingin milli gamla og nýja Glitnis hafi valdið ruglingi í samskiptum við erlenda og innlenda samstarfsaðila.
Friðrik vísaði síðan í heimasíðu bankans þar sem segir að engar róttækar breytingar muni fylgja nafnabreytingunni auk þess sem kappkostað verður að halda kostnaði í lágmarki. Þannig verður bréfsefni og aðrar vörur með nafni bankans áfram notaðar þar til birgðir klárast. Friðrik gerir athugasemdir við þetta. Einnig vísaði Friðrik í orð Finns Sveinbjörnssonar, forstjóra Arion banka. Við nafnbreytinguna var haft eftir Finni að markmiðið væri að byggja upp traustan og öflugan banka og verið væri að skapa nýja stefnu í bankanum með nýjum gildum.
Friðrik gerir jafnframt gerir athugasemdir við auglýsingar bankans þar sem segir að nýr banki líti dagsins ljós.
Friðrik gerði gildi bankanna einnig að umræðuefni. Bar hann saman gildi bankanna fyrir og eftir hrun. Þannig hafi gildi Glitnis verið „fljótur snjall og faglegur“ á meðan gildum Íslandsbanka hafi verið breytt í „fagleg, jákvæð framsýn.“siggi (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.