26.11.2009 | 14:59
Húsasmiðjan og tax-free
Í byrjun október yfirtók Vestia, eignarumsýslufélag Landsbankans, allt hlutafé í Húsasmiðjunni en ætlunin er að selja fyrirtækið í opnu tilboðsferli. Húsasmiðjan, sem rekur 16 verslanir, hefur glímt við rekstrarvanda um nokkurt skeið. Í dag ber svo við, tæpum mánuði til jóla, að haldinn er "tax-free" dagur í Húsasmiðjunni. Allt á tæplega fimmtungsafslætti um það leyti er jólasalan er að komast á fullt, jólaskraut og annað.
Þarna er nákvæmlega eitt dæmi um það hvernig bein innkoma bankanna í íslenskt atvinnulíf, sem forstjóri Nýherja gagnrýnir, drepur allt í dróma; banki tekur yfir fyrirtæki, setur inn í það nýtt eigið fé og heldur því þannig gangandi í samkeppni við einkafyrirtæki með því að keyra niður verðin skömmu fyrir jól. Með því að örva söluna með þessum hætti tryggir Húsasmiðjan sér gnótt lausafjár en að sama skapi harðnar á dalnum hjá keppinautunum sem búa ekki við þann munað að eiga öflugan bandamann, þ.e. ríkisbanka.
Gagnrýndi bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Facebook
Athugasemdir
Eins og ég hef skilið þetta hefur Húsasmiðjan einmitt ekki glímt við neinn "rekstrarvanda". Ef maður t.d. skoðar fréttirnar frá því að Vestia yfirtók félagið (http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/06/vestia_eignast_husasmidjuna/) þá er þar sagt að reksturinn hafi gengið vel á árinu - vandinn liggur í skuldum í erlendri mynt eftir yfirtökur (kúlulánum) sem munu gjaldfalla á næstunni. Vandamál Húsasmiðjunnar voru með öðrum orðum ekki í rekstrinum heldur yfirtökum fyrri eigenda (Haga o.fl.)
Þótt ástandið sé vissulega óspennandi með öll þessi fyrirtæki undir bönkunum held ég að maður verði að fara varlega í að hrapa að svona ályktunum. Smásöluverslun í dag gengur meira og minna á afsláttartilboðum - og það væri svolítið erfitt ef fyrirtæki mættu ekki taka þátt í slíku þegar þau eru komin í eign bankanna.
Kristinn (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 16:03
Ég held að ég sé ekki að hrapa að neinum einkennilegum ályktunum með þessari færslu. Félagið ræður augljóslega ekki við núverandi skuldsetningu og hefði farið í þrot ef Vestia hefði ekki komið til sögunnar. Jafnframt vil ég benda á að fyrir nokkru fór félagið fram á það við Eik fasteignafélag að húsaleiga þess yrði lækkuð. Hvergi er minnst á það í tilkynningu Vestia. Er það er ekki til marks um að yfirbygging Húsasmiðjunnar sé enn of mikil?
Í sameiginlegri tilkynningu Húsasmiðjunnar, Eikar og NBI sagði: "Samkomulag hefur náðst milli Eikar fasteignafélags, Húsasmiðjunnar og Landsbankans þess eðlis að Landsbankinn breytir hluta af kröfum sínum á Húsasmiðjuna í eigið fé og tryggir þar með áframhaldandi rekstur hennar. Eik fasteignafélag mun hleypa Húsasmiðjunni úr einum leigusamning þar sem enginn rekstur er. Einnig mun félagið veita Húsasmiðjunni tímabundna leigulækkun sem mun að hluta til vera tengd árangri Húsasmiðjunnar á næstu árum."
Eggert Þór Aðalsteinsson, 26.11.2009 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.