25.11.2009 | 22:59
Dökk framtíð frjálsra fjölmiðla
Jónas ritstjóri Kristjánsson hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að vandi fjölmiðla á Íslandi sé ekki skortur á tilskipunum stjórnvalda heldur slæmur rekstur og eigendabrölt. Nú er í undirbúningi ný og víðtæk löggjöf um fjölmiðla þar sem ætlunin er m.a. að koma á fót Fjölmiðlastofu á sama tíma og alls staðar er verið að skera niður. Það er spurning hvort menn ættu ekki að ráðast að rót vandans áður en víðtæk löggjöf sem þessi er sett fram. Til hvers að setja ný fjölmiðlalög þegar framtíð íslenskrar fjölmiðlunar er í mikilli óvissu vegna skuldavanda og gegndarlauss taprekstrar.
En það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni að erfiðlega gangi að reka íslenska fjölmiðla og bera tíð gjaldþrot fjölmiðlafyrirtækja glöggt vitni um það. Þessi áratugur er þó óvenjulegur fyrir þær sakir að við höfum séð nokkur hrottaleg gjaldþrot fjölmiðla. Allir helstu einkafjölmiðlar landsins hafa orðið gjaldþrota og farið í kennitöluskipti, þar á meðal DV, Viðskiptablaðið og risarnir 365 miðlar og Árvakur. Opinbera hlutafélagið RÚV er tæknilega gjaldþrota í dag, aðeins tveimur árum eftir að ríkið hljóp undir bagga með því þegar það var orðið gjaldþrota. Tvö gjaldþrot sama ríkisfjölmiðils á tveimur árum hlýtur að vera heimsmet (alla vega Íslandsmet)!
Ekki er óvarlegt að áætla að íslensk fjölmiðlafyrirtæki hafi tapað u.þ.b. tíu milljörðum króna á þessari öld og eflaust enn meira ef allt Dagsbrúnarævintýrið væri tekið með í reikninginn. Þung skuldastaða, miklar niðurfærslur vegna misheppnaðra fjárfestinga, lífeyrisskuldbindingar og innkoma Fréttablaðsins á blaðamarkað skýra m.a. ástæður þessa mikla taps.
Þegar fjárfestar þora ekki lengur að leggja fjármuni í gæluverkefni eins og fjölmiðla, lánastofnanir halda að sér höndum og helstu tekjulindir dragast hratt saman er full ástæða til að óttast um framtíð frjálsra fjölmiðla á Íslandi. Ríkisútvarpið heldur áfram að soga til sín fjármuni í gegnum skattpeninga og auglýsingatekjur. Nýir lögaðilar spretta fram eins og gorkúlur og tryggja þannig í gegnum nefskattinn áframhaldandi tekjustreymi fyrir ríkismiðilinn.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill.
Þráinn Jökull Elísson, 25.11.2009 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.