30.10.2009 | 23:05
IV. Þriggja mínútna yfirtökuskylda
Venus og Vogun
Mörg mál komu inn á borð nefndarinnar og hafði hún í nógu að snúast fyrstu árin. Eitt mála sem komu á borð hennar fjallaði um hvort yfirtökuskylda hefði myndast í Hampiðjunni í nóvember 2005 en þá hafði Fiskveiðihlutafélagið Venus fest kaup á 2,6% hlut í fyrirtækinu. Veruleg eignatengsl voru á milli Venusar og Vogunar hf., stærsta hluthafans í Hampiðjunni. Með viðskiptunum taldi yfirtökunefnd að Venus, Vogun og aðilar, sem væru tengdir persónulegum böndum, ættu sameiginlega yfir 45% í fyrirtækinu og bæri Venus því að leggja fram opinbert yfirtökutilboð.
Landsbankinn kemur til bjargar
Svipað var uppi á tengingnum í FL Group í desember árið 2005 þar sem yfirtökuskyldur aðili seldi sig niður fyrir yfirtökumörk. Þar var Baugur Group yfirtökuskyldur í heilar þrjár mínútur í kjölfar þess að sameiginlegur hlutur Baugs og Oddaflugs, félag Hannesar Smárasonar forstjóra FL Group, fór upp í tæp 50% eftir einkar vel heppnað hlutafjárútboð FL. Rétt um þremur mínútum eftir að markaðir opnuðu birtust flagganir í Kauphöll Íslands bæði frá Oddaflugi og Baugi. Þar kemur fram að bæði félögin hafi selt 5% af eignarhlut sínum og því sameiginlegur eignarhlutur félaganna tveggja í FL Group kominn niður fyrir 40%. Nokkrum mínútum síðar birtist tilkynning frá Yfirtökunefnd í Kauphöllinni. Þar kom fram að það væri álit nefndarinnar að eftir þessa breytingu á eignarhaldi í FL Group væri Baugi ekki lengur skylt að gera yfirtökutilboð í félagið. Segja má því að Baugur hafi verið yfirtökuskyldur í rétt rúmar 3 mínútur, þó vissulega hafi yfirtökuskyldan í raun myndast að loknu hlutafjárútboðinu sjálfu, sagði í hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.