8.10.2009 | 16:35
RÚV tvívegis gjaldþrota á áratugnum
Nú þegar skattgreiðendur hafa fengið þau skilaboð frá ríkisvaldinu um að herða enn á sultarólinni er ágætt að hafa það í huga að það eru ekki einungis einkafyrirtæki sem hafa farið flatt á ofþenslu og gengishruni. Tvö ríkisfyrirtæki eru nefnilega tæknilega gjaldþrota, RÚV ohf. og Byggðastofnun, og hefur tekist að þurrka upp tveggja milljarða króna framlag frá ríkinu árið 2007. Gamla ríkisútvarpið, forveri RÚV ohf., var m.a.s. komið í algjörar ógöngur árið 2007 og tæknilega gjaldþrota þá.
Í árslok 2005 voru skuldir forvera RÚV ohf. orðnar meiri enn eignir. Í marslok 2007, degi áður en opinbert hlutafélag tók við rekstri RÚV, var eigið fé stofnunarinnar neikvætt um 823 milljónir króna. Hið opinbera hlutafélag fékk nýtt hlutafé fyrir ríflega 878 milljónir króna í vöggugjöf frá ríkissjóði og var reikningsári þess breytt úr almanaksárinu yfir í frá 1. september til 31. agúst til þess að endurspegla betur dagskrárárið, þ.e. að fylgja vetrar og sumartímabili.
Varla er hægt að segja að fyrsta heila rekstrarár RÚV ohf. (1. sept.-31. ágúst. 2008) hafi gefið góð fyrirheit um framtíðina. Algjört mettap varð á rekstrinum, um 740 milljónir króna, sem þýddi að framlag ríkisins var nánast uppurið í lok reikningsárs. Ástæða þessa mikla taps skýrðist einkum af hárri verðbólgu og gengisfalli krónu sem hækkuðu verulega langtímaskuldir RÚV ohf. Félagið hefur ekki birt reikninga fyrir síðasta starfsár en í byrjun árs var eigið fé þess orðið neikvætt.
Fyrir tveimur árum bjargaði ríkissjóður eiginfjárstöðu Byggðastofnun með sérstöku 1.200 milljóna króna framlagi en sú ákvörðun var m.a. réttlæt sem mótvægisaðgerð við niðurskurði í þorskveiðum. Nú hefur þetta framlag gufað upp eftir gríðarlegt tap Byggðastofnunar á fyrri hluta ársins. Eignir umfram skuldir voru u.þ.b. 1.540 milljónir króna um síðustu áramót en nú eru skuldir umfram eignir 118 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall stofnunarinnar er því neikvæt og langt undir lögboðnu 8% (CAD) lágmarki um fjármálafyrirtæki og leikur vafi um "áframhaldandi rekstrarhæfi stofnunarinnar" eins og segir í tilkynningu frá henni. Hefur FME gefið stjórnendum Byggðastofnunar frest fram í desember til þess að tryggja lágmarkið.
Ef horft er framhjá framlagi ríkisins í gegnum fjárlög er tveggja milljarða framlag þess til RÚV ohf. og Byggðastofnunar uppurið og gott betur. Og nú þarf að herja á skattgreiðendur á nýjan leik.
Ríkisútvarpið fær aukafjárveitingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:37 | Facebook
Athugasemdir
RUV hlýtur að fjalla um þessi 2 fyrirtæki á næstunni og rekstur þeirra undanfarin ár?
itg (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.