26.7.2009 | 20:10
Vaxtamunurinn eykst líka hérlendis
Íslensku bankarnir hafa farið sömu leið og breskir bankar og aukið vaxtamuninn, þ.e. muninn á útláns- og innlánsvöxtum. Leiðin er þó ekki sú sama því eins og allir vita hafa útlánavextir banka og sparisjóða lækkað töluvert umfram stýrivaxtalækkanir Seðlabankans. Hvernig hafa þá íslensku bankarnir aukið vaxtamuninn? Jú, með því að keyra innlánsvexti mun hraðar niður en útlánsvextina. Það eru sparifjáreigendur, s.s. gamla fólkið og börn, sem eru barðir í spað þessa dagana - ekki bara af bönkunum heldur einnig ríkinu sem hefur hækkað fjármagnstekjuskatt um 50%.
Ég hjó til dæmis eftir því að NBI barði sér á brjóst í síðustu viku þegar hann auglýsti að útlánsvextir hefðu lækkað um tvö prósentustig og sýndi hvernig vaxtalækkanir hefðu átt sér stað. Hins vegar fór lítið fyrir því að bankinn lækkaði innlánsvexti um allt að 2,5 prósentustig. Verðtryggðir útlánsvextir lækkuðu um eitt prósentustig en það gerðu verðtryggðir innlánsvextir líka. Hlutfallsleg lækkun innlánsvaxta var því eflaust í flestum tilvika miklu meiri en lækkun útlánsvaxta.
"Það hefur verið stefna Landsbankans að leiða vaxtalækkun í landinu og styðja við markmið stjórnvalda og Seðlabanka um efnahagslegan stöðugleika og létta greiðslubyrði lántakenda," sagði bankinn svo snoturlega.
Það sér hver heilvita maður að bankarnir eru reknir með bullandi tapi þessa dagana og þá er ein leið sú að auka vaxtamuninn.
Darling varar við vaxtaokri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.