23.7.2009 | 12:29
Samkvæmt heimildum ...
Það hefur færst ískyggilega í vöxt að fjölmiðlar beri fyrir sig heimildamenn til þess að gefa fréttum trúverðuglegan blæ. Sérstaklega finnst mér ljósvakamiðlarnir nota þessa aðferð meira en góðu hófi gegnir. Slík vinnubrögð ættu auðvitað að vera neyðarúrræði ef ekki gengur að fá heimildarmann til þess að koma fram undir nafni.
RÚV gengur að mínu viti oft fullgangt í að bera fyrir sig "samkvæmt heimildum" til þess að búa til góðar fréttir. Í morgun fjallaði fréttastofan um ástandið á atvinnumarkaði og sagði m.a.
" ... Um 16.500 manns eru á atvinnuleysisskrá en fimmtungur þeirra er þó í hlutastarfi á móti bótum. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Vinnumálastofnun hafi upp á síðkastið þurft í auknum mæli að taka fólk út af atvinnuleysisskrá vegna þess að það hafi hafnað atvinnutilboðum."
Þetta eru mjög einkennileg vinnubrögð af hálfu fréttastofu RÚV því í Fréttablaðinu í gær gat að líta svipaða frétt um bótasvik þar sem blaðamaður hafði það beint eftir Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, að stofnunin hefði " ... brugðist við í mörgum tilvikum. Til dæmis með því að taka fólk af greiðsluskrá atvinnutrygginga, en töluverða úrvinnslu þarf í hvert mál, að sögn Gissurar."
RÚV hefði verið í lófalagið að vísa í frétt FBL máli sínu til stuðnings, en vísar í staðinn til heimildamanna. Slæleg vinnubrögð af hálfu ríkisfjölmiðilsins.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:30 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg rétt hjá þér. Það er hins vegar einhver lenska hér á landi að fréttamiðlar vitna ekki í aðra fréttamiðla nema þeir bókstaflega geti ekki annað, s.s. þegar einhver leynigögn eru annars vegar.
Oft eru sagðar fréttir í Mogganum sem áður birtust í DV án þess að vitnað sé í fyrri miðilinn, eða frétt birt í Ríkissjónvarpinu sem er nánast orðrétt upp úr Fréttablaðinu án þess að neitt sé tekið fram um það.
Mér finnst þetta hreinlega vera blekking við notendur miðlanna. Ef þeir sáu ekki fyrri fréttina virðist sem svo að hún sé "ný" en er það í raun alls ekki.
Halldóra (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 17:08
Sæll félagi!
Þetta fer reyndar eftir eðli fréttarinnar og því hvort nafn heimildarmannsins geti dregið úr trúverðugleika fréttarinnar. Í því tilviki sem þú nefnir hefði Rúv alls ekki getað vísað í frétt Fbl því þarna er um tvo aðskilda hluti að ræða. Það að hafna atvinnutilboðum eru ekki bótasvik.
Bestu kveðjur úr Svíaríki
Guðmundur Sverrir Þór, 24.7.2009 kl. 09:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.