15.7.2009 | 08:31
Afskriftir verði opinberaðar
Finnur Sveinbjörnsson fer ótroðnar slóðir og svarar spurningum bloggarans Agnars Þorsteinssonar á bloggi hans. Mér finnst þetta gott framtak hjá Finni og ekki síður svörin sem benda til þess að eitthvað líf sé í bankakerfinu. Nýja-Kaupþing hefur nefnilega í hyggju að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja með sértækum aðgerðum. Það er nefnilega meira en stjórnvöld ætla sér að gera með því að leggja undir sig Gallia Belgica á meðan Rómarborg brennur.
Finnur segir m.a. í svari sínu: " ... Þegar kemur að stærri fyrirtækjum, sem eru of skuldsett en lífvænleg, þá mun bankinn í einhverjum tilvikum leysa fyrirtækin til sín og fyrri eigendur tapa öllu sínu áður en bankinn afskrifar skuldir. En sama nálgun gengur ekki þegar kemur að smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í þeim tilvikum veltur starfsemin oftar en ekki á eigandanum og það er algerlega óraunhæft fyrir reksturinn að bankann krefjist þess að þeir hverfi úr starfi.. En það þarf að lækka skuldabyrðina að öðrum kosti fara fyrirtækin í þrot. Og með fjöldagjaldþroti fyrirtækja kemur enn meira atvinnuleysi og viðvarandi efnahagskreppa. Því verður að afskrifa skuldir, svo einfalt er það."
Leið Kaupþings gengur m.a. út á það að hjá skuldsettum fasteignaeigendum verði íbúðalán færð niður í 110% af mati sem væntanlega yrði miðað við fasteignamat.
Hitt er svo annað mál að afskriftir sem þessar mun fara misvel í landslýð. Ég teldi réttast að Kaupþing ætti að ýta til hliðar bankaleynd og birta opinberlega nöfn þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem fá afskriftir sem þessar rétt eins og gert er við þá einstaklinga sem leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Það væri til marks um það gegnsæi og þá upplýsingagjöf sem allir kalla eftir frá nýju bönkunum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.