Hagar fela reikningana

Verslanasamsteypan Hagar hefur fylgt í fótspor fjölda fyrirtækja, sem eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands, með því að birta ekki opinberlega ársreikning fyrir síðasta rekstrarár. Hagar vísa þar til undanþáguákvæða í 7. kafla verðbréfaviðskiptalaganna þar sem segir að útgefendur skuldabréfa geti að vissum skilyrðum uppfylltum komist hjá því að birta tölur sínar opinberlega.

Munurinn á Högum og þeim fyrirtækjum, sem hafa farið sömu leið í þessum efnum, er sá að rekstur Haga stendur traustum fótum að sögn forsvarsmanna félagsins - öfugt við hin félögin sem standa á heljarþröm.

Það er undarlegt að mínu mati að fyrirtæki, sem hafa í gegnum tíðina birt reikninga sína í Kauphöllinni, skuli nú leita allra leiða til að forðast opinbera birtingu. Þetta dregur klárlega úr gegnsæi í samfélaginu og veikir stöðu margra fjárfesta, t.d. þeirra sem eiga þessi fyrirtækjaskuldabréf. Hagar eru, í mínum huga, ekkert venjulegt fyrirtæki. Félagið ræður lögum og lofum á matvörumarkaði og býr einnig við sterka stöðu á sérvörumarkaði. Það er eðlilegt að almenningur geti áttað sig á stöðu fyrirtækisins, ekki síst þegar hefð hefur myndast fyrir birtingu reikninga félagsins.

Hagar verða að öllum líkindum beittir févíti af Kauphöllinni eins og hin fyrirtækin, þar á meðal Atorka Group, FL Group og Exista. Hagamenn ættu hins vegar að vera orðnir vanir að greiða sektir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband