Færsluflokkur: Menning og listir

Bóksalar barma sér

"Enginn er búmaður nema hann barmi sér," sagði amma mín oft. Mér datt þetta einmitt í hug þegar ég las bloggfærslu hjá bókajöfrinum Kristjáni B. Jónassyni. Íslenskir bókaútgefendur eru nefnilega manna leiknastir í því að barma sér, alveg sama þótt bókin fljúgi í gegnum kreppur og góðæri. Ein helsta ástæðan fyrir forskoti bókarinnar á aðrar neytendavörur liggur auðvitað í því að bókin ber aðeins 7% vsk. á meðan flestallar vörur, nauðsynja- og óþurftarvörur, bera 24,5% vsk. Ég get auðvitað ekki annað en nefnt barnaföt sem gott dæmi um nauðsynjavöru sem er í hærra skattþrepi. Staðreyndin er nefnilega sú bókaútgefendur eru harðskeyttur þrýstihópur öfugt við foreldra, hvað þá börn.

Kristján B. og fleiri bókamenn hafa áhyggjur af því að Penninn sé kominn í fang íslenska ríkisins, þ.e. Nýja-Kaupþings. Hann segir m.a.: 

"Yfirtaka bankans mun ekki eyða þessum áhyggjum. Þótt ljóst sé að með henni hefur í bili að minnsta kosti verið tryggt að dreifing bóka á Íslandi heldur áfram með eðlilegum hætti er það nánast skelfilegt fyrir íslenska bókmenningu að vita ekki hvað bíður handan hornsins. Bækur hafa á undanförnum mánuðum ekkert gefið eftir sem vara á neytendamarkaði, raunar þvert á móti. Að baki eru góðir sölumánuðir og ákaflega vel heppnaður Bókamarkaður í Perlunni. Penninn er helsti söluaðili íslenskra bóka utan jólavertíðar. Þótt hafa beri í heiðri bjartsýnisregluna um að það sem kemur þurfi ekki að vera verra en það sem er, verður samt að horfast í augu við að dreifing bóka til íslenskra neytenda er á krossgötum. Ríkisbóksala Nýja Kaupþings er aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Svo gæti farið að næstu jól, já, þegar í sumar, verði allt annað landslag í bóksölu á Íslandi. Enn og aftur gildir þá þar mestu að það séu aðilar sem geti staðið í skilum en dragi ekki hálfan bransann með sér á hnén ef þeim mistekst."

Ég held að þetta séu óþarfa áhyggjur hjá bókaútgefendum og bóksölum. Lausafjárvandræði Pennans voru tilkomin af allt öðru en að illa hefði gengið að selja bækur og ritföng. Fyrirtækið var auðvitað allt of skuldsett eftir miklar fjárfestingar í tengdum og ótengdum verslanarekstri. Styrkur Pennans liggur auðvitað í bóksölu og vel þekktum verslunum við Laugaveg, í Austurstræti og í verslunarmiðstöðvunum. Ég trúi varla öðru en að einhverjir kaupahéðnar sjái sér tækifæri í því að eignast fyrirtækið af ríkisbankanum þannig að hin mikilvæga, ríkisstyrkta iðngrein, bóksala, flytjist frá ríki til einstaklinga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband