Fyrsta fórnarlamb fjármálakrísunnar

Sparisjóður Mýrasýslu er lítill og sætur sparisjóður sem hefur gengið undir viðurnefninu "Hornsteinn í héraði". Þótt staða hans í heimasveit hafi ávallt verið sterk var SPM í raun og veru ekki sparisjóður heldur helgíraður vogunarsjóður með stóra stöðu í Existu. Ekkert gat því komið í veg fyrir að hann yrði fyrsta fórnarlamb íslensku fjármálakrísunnar ef horft er framhjá fjárfestingarfélaginu Gnúpi. Um mitt síðasta ár var sparisjóðurinn tæknilega gjaldþrota þegar eiginfjárhlutfall hans var orðið neikvætt. Staðan var orðin ansi slæm fyrr um árið. Þannig fengu Byr og SPRON aftur í hausinn hlutabréf í Icebank þegar FME synjaði SPM um virkan eignarhlut í Icebank vegna bágrar fjárhagsstöðu. Stærsti lánadrottinn, Kaupþing, ákvað að leggja sjóðnum nýtt stofnfé og eignast þar með 70% hlut, en um svipað leyti hafði bankinn samþykkt að taka SPRON yfir.

Mikið hefur verið rætt um að hlutafjárvæðing eða stofnfjárvæðing sparisjóða hafi orðið til þess að þeir féllu. Þetta er mikil einföldun og þarf ekki nema að horfa á SPM sem fór út í litla aukingu eigin fjár. Margsinnis hefur verið bent á að flestallir sparisjóðir tóku allt of mikla áhættu; tekju- og hagnaðarmyndun sparisjóða hafi ráðist allt of mikið á gengishagnaði af fjárfestingastarfsemi. Hin eiginlega grunnstarfsemi sparisjóða, að taka við innlánum og veita útlán til einstaklinga og lítilla fyrirtækja, féll í skuggann á fjárfestingarstarfseminni. Aukning eigin fjár gerði þeim kleift að styrkja sig en því miður báru þeir ekki á gæfu að draga úr áhættu og innleysa hagnað, til dæmis af hlutabréfaeign í Existu og eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum. Sparisjóðsstjórarnir sátu sem fastast á hlutabréfum og fengu skellinn framan í sig þegar markaðir hrundu, ólíkt því sem gerðist í byrjun aldarinnar þegar flestir sparisjóðir seldu einmitt hlutabréf sín í Kaupþingi. SPM er ljóslifandi dæmi um stjórnunarmistök í fyrirtækjarekstri, sparisjóður sem tók allt of mikla áhættu og sat því í súpunni þegar tók að reyna á fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækja.


mbl.is Funda með lánadrottnum SPM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Hluti af vandamálinu er náttúrulega að Exista hluturinn var ekki í beinni eigu litlu krúttlegu sjóðanna heldur í Kistu þar sem Spron fór með völdin og Spron hafði engan áhuga á að selja. Sparisjóðirnir voru því fastir inni í Existu.

Guðmundur Sverrir Þór, 6.5.2009 kl. 06:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband